15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

Launa og kaupgjaldsmál

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðsson, upplýsir í einu stjórnarmálgagninu, Þjóðviljanum, að þær kröfur, sem fram hafa verið lagðar af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, séu í nákvæmu samræmi við það, sem lesa megi í stjórnarsáttmálanum um það efni. Þegar þessi formaður í langöflugasta verkalýðsfélagi landsins setur fram slíka yfirlýsingu, þá er ekki nóg með það, að hún birtist þar athugasemdalaust og enginn hafi af hálfu stjórnarsinna neitt við hana að athuga, heldur yppir hæstv. forsrh. hér öxlum, þegar á þetta er bent, og segir, að hann sé sjálfsagt maður til þess að svara fyrir sig í þessum sökum, Eðvarð Sigurðsson. Hann lætur svo sem það sé ekkert stórmál fyrir sig, þótt þessi formaður öflugasta verkalýðsfélags landsins haldi þessu fram og enginn hafi neitt við það að athuga, og hann hefur það ekki sjálfur. Hann fullyrðir, þessi formaður, að þetta sé innihald stjórnarsáttmálans, sem þarna birtist og endurspeglist í þessum kröfum. Það, sem ég átti við, þegar ég ræddi um það, að ég hygði, að afskipti hæstv. ríkisstj. af samningamálum hefðu ekki haft góð áhrif á framgang þeirra mála, er þá grundvallað á þeirri skoðun minni, að ríkisvaldið eigi að fara með aðgát í þeim efnum. Það haf í sýnt sig á umliðnum áratugum, að ekki sé ráðlegt, að ríkisvaldið gangi þar fram fyrir skjöldu. Og ég minnist þess, að félagar mínir í verkalýðshreyfingunni hafa æ ofan í æ lýst því yfir, að þeir kysu helzt, að ríkisvaldið kæmi sem minnst þar til skjalanna að öðru leyti en því, sem oft hefur verið reynslan, áður en yfir hefur lokið í samningum, að ríkisvaldið hefur orðið að koma til skjalanna með ýmsar ráðstafanir til þess að endanleg lausn næðist. En þarna tók hæstv. ríkisstj. algerlega forustu í þetta skiptið með þessum dæmalausa stjórnarsáttmála, þar sem lýst var yfir vinnutímastyttingu, orlofslengingu og 20% kaupmáttaraukningu á tveimur árum. Ég get ekkert um það fullyrt, en ég leyfi mér að efast um, að þar sem ríkisstj. talar um, að þessu verði náð með ýmsum hliðarráðstöfunum, þá leyfi ég mér að efast um, að það hafi legið nægilega ljóst fyrir aðilum vinnumarkaðarins, í hverju þetta ætti að vera fólgið, þannig að þess vegna hefur tæplega enn í dag skapazt nokkur grundvöllur til endanlegrar samningsgerðar. En ég endurtek það, að ég er þrumulostinn yfir því, að hæstv. forsrh. lætur sem ekkert sé, þegar það liggur fyrir, að hv. 8. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðsson, formaður í stærsta verkalýðsfélagi landsins, hafi lýst því yfir, að stjórnarsáttmálinn hafi heimilað verkalýðshreyfingunni að setja fram kröfur, sem þýða allt að 37% hækkun kaups og kjara.