08.05.1972
Neðri deild: 72. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (2569)

Launa og kaupgjaldsmál

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Eins og hv. þm. mun eflaust kunnugt, hafa um alllangt skeið staðið yfir samningaviðræður við stjórnvöld um kaup og kjör lækna. Mér hefur skilizt, að samningar við heimilislækna séu að nálgast endalokin og þar séu horfur á samkomulagi. Öðru máli gegnir um sjúkrahúslækna. Samningaviðræður við þá hafa, að því er virðist, staðið yfir í nokkra mánuði og er nú svo komið, eftir því sem spurzt hefur, að slitnað hefur upp úr viðræðum viðkomandi aðila. Heyrzt hefur enn fremur, að nokkrir tugir sjúkrahúslækna, bæði á borgarspítala og ríkisspítölum, hafi þegar sagt upp störfum, og að líkindum munu fleiri uppsagnir væntanlegar á næstunni. Það hlýtur að vera atriði fyrir hv. Alþ. að fylgjast með gangi þessa máls, því að sú spurning hlýtur að vakna, hvað þessar uppsagnir fela í sér fyrir læknisþjónustuna almennt og sérstaklega á spítölum.

Hvað mun við taka, ef ekki takast samningar? Það hvarflar í hugann svipað ástand eins og var 1966, þegar kjaradeilur fóru á þann veg, að slitnaði upp úr samningum við sjúkrahúslækna og þeir sögðu upp störfum, en unnu þá störf á spítölum eftir taxta, sem þeir sjálfir ákváðu, og lokin urðu þau, að mér hefur verið tjáð, að læknar fengu þær kröfur uppfylltar, sem þeir höfðu þegar borið fram í upphafi.

Það er ljóst, að ófremdarástand mun skapast við spítalana, ef svo fer fram sem horfir. Og ég endurtek, að það sé eðlilegt fyrir hv. Alþ. að óska þess að fylgjast með þessum málum og fara því fram á tímanlega, að nokkur grein sé gerð fyrir þessu máli, áður en í algert óefni er komið. Af þessum ástæðum vil ég leyfa mér að beina þremur fsp. til hæstv. fjmrh.

1. Hvernig standa í raun og veru kjaradeilur sjúkrahúslækna við stjórnvöld?

2. Hverjar eru kröfur lækna um bætt kaup og kjör?

3. Hvaða kjarabætur hafa stjórnvöld boðið læknum og í þessu tilviki sjúkrahúslæknum?