11.12.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2421 í B-deild Alþingistíðinda. (2587)

Herstöðva- og varnarmál

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. virðist ekki ætla að svara fsp. mínum hér áðan. Mig langar þess vegna til að beina þeim til annarra ráðh. Mig langar til að spyrja hæstv. sjútvrh., hvort hann telji þær skýringar Einars Ágústssonar, hæstv. utanrrh., réttar, sem ég áðan gerði að umræðuefni, og hann hefur marglýst. Mig langar til að spyrja hæstv. menntmrh. að því, hvort hann telji þessar skýringar réttar eða skýringar hæstv. sjútvrh., og mig langar einkum og sér í lagi til að spyrja hæstv. samgrh. að því, hvort hann sé þeirrar skoðunar, eins og hv. 3. landsk., að það sé alveg skýrt tekið fram í málefnasamningnum, að varnarliðið eigi að fara, hvað sem tautar og raular, eða hvort hann sé á sömu skoðun og hæstv. utanrrh. Hæstv. forsrh. ætlar augsýnilega ekki að svara. Ég trúi því ekki, að allir þessir þrír ráðh. séu með sama markinu brenndir, að þeir þori ekki að svara.