13.12.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2431 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

Herstöðva- og varnarmál

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það hafa spunnizt nokkrar umr. út af þeirri aths., sem ég gerði vegna fréttaflutnings sjónvarps og hljóðvarps s. l. laugardagskvöld.

Hv. 8. landsk. þm. — eins og hann sagði sjálfur, formaður útvarpsráðs nú á seinustu dögum, — kom hér í ræðustólinn og mér fannst eins og hann vildi bera blak af starfsmönnum sjónvarpsins og hljóðvarpsins í sambandi við þessi mál. Um það er ekki nema allt gott að segja, og ég var ekki að varpa fram neinu, sem hann ekki gat fellt sig við. Ég benti hins vegar á, að það var augljós mismunur á fréttunum í hljóðvarpinu og í sjónvarpinu. Ég geri mér fyllilega ljóst, að fréttir hljóðvarps og sjónvarps geta að sjálfsögðu ekki verið jafnlangar héðan frá Alþ., en þær, sem eru styttri, hljóta að verða smækkuð mynd af þeim stærri og þá þeim aðilum, sem til máls hafa tekið, og þeim sjónarmiðum, sem fram hafa komið, gert jafnt undir höfði. Það skiptir engu máli í þessum tilfellum, hversu langar fréttirnar eru. Það, sem ég benti hér á, var e. t. v. ónákvæmni hjá fréttamanni. Ég tók það skýrt fram, að ég ætla honum ekki neitt annað í þessu sambandi, nema eitthvað annað hafi komið annars staðar frá. Hæstv. forsrh. beindi þeirri áskorun til forseta, að skýrt yrði frá þessum fundi öllum. Ekkert hef ég á móti því, nema síður væri. En mér þótti vænt um að heyra, að hann er sama sinnis nú og hann var áður, þegar hann gagnrýndi hljóðvarp og sjónvarp, þegar hann var í stjórnarandstöðu. Vonast ég til þess, að hans skoðanir verði í heiðri hafðar hjá þeirri stofnun, hverjir aðrir svo sem með honum sitja í ríkisstj.

Ég átti hins vegar von á því, að hæstv. sjútvrh. kæmi hér upp í ræðustólinn og segði frá því, hvernig þessum hlutum hefði verið háttað, þegar hann var í stjórnarandstöðu og hvernig þá hefði verið farið með stjórnarandstæðinga. Ég skal ekkert segja um það, hvort einhvern tíma hafi svo verið, að í löngum umr. utan dagskrár hafi niður fallið hjá ráðh. að svara honum, svo fjölmargar fsp. bar hann fram hér utan dagskrár og inni í umr., þegar hann var í stjórnarandstöðu. En ég minnist þess, að fulltrúar Alþb. höguðu sér með nákvæmlega sama hætti í stjórnarandstöðu og hann gerði hér áðan, þegar hann kom hér upp og réðst að fréttamanni hljóðvarpsins, og þetta er gert í einum og aðeins einum tilgangi. Þeir gera sér fyllilega grein fyrir því, að menn eru misjafnlega reiðubúnir til þess að taka gagnrýni fyrir sín störf og það á opinberum vettvangi. Þetta eru starfsaðferðir, sem þeir og þeirra fylgismenn hafa notað viða um heim, reynt að hræða menn í slíkum stofnunum til þess að fá inni fyrir þeirra eigin málstað. Þessar aðferðir eru þekktar. Hann vék hins vegar að þeim orðum, sem hann hefur látið frá sér fara í sambandi við stjórnarsamninginn og rangtúlkaði það, sem hér hefur verið sagt í sambandi við það. Og ég ætla þess vegna enn einu sinni að láta heyrast hér í þingsölum það, sem haft er eftir þessum ágæta ráðh. í hans eigin málgagni varðandi brottför hersins. Í Þjóðviljanum þriðjudaginn 23. nóv., með leyfi forseta, segir hæstv. ráðh.: „Orðalagið í málefnasáttmálanum bendir enn fremur til þess, að leiði endurskoðunin ekki til brottflutnings hersins, skuli herverndarsamningnum sagt upp.“ Endurskoðun skiptir engu máli samkv. þessum orðum. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta fremur. Ég vonast til þess, að ég hafi gert mönnum grein fyrir því, hvað hér er um að ræða, og að réttur hv. alþm. verði ekki fyrir borð borinn í sambandi við fréttaflutning.