28.02.1972
Sameinað þing: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

Fiskveiðilandhelgismál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér, út af því að einn þm. óskar eftir, að inn komi varamaður, vegna þess að hann sé í opinberum erindum, spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forsrh. eða utanrrh. kannske öllu heldur, hver þessi opinberu erindi séu til útlanda, og ég held, að það sé ástæða til þess. Ég sá það í blöðunum, að þessi hv. þm. ætlaði sér að fara til Bretlands í sambandi við okkar landhelgismál en ég hélt, að við hefðum bæði ambassador og konsúla í Bretlandi, og er þá ástæða til þess að vita, hvort búið sé að taka upp nýja starfshætti í rn. að þessu leyti. Ég skal ekki hafa þessa fsp. lengri, en mig langaði til þess að fræðast um þetta.