13.03.1972
Efri deild: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Jón Árnason:

Herra forseti. Það er aðeins til að segja nokkur orð út af vinnubrögðum í nefndum, sem ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár. Ég tel, að ýmis mál, sem vísað hefur verið til n. hér í hv. d., liggi þar allt of lengi til meðferðar og séu jafnvel ekki tekin til umr. svo vikum og mánuðum skiptir. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega átelja vinnubrögð hv. sjútvn. d. Allt frá því að þing kom saman á s. l. hausti hefur n. aðeins haldið einn fund, og það var rétt eftir þingsetningu og þá eina málið á dagskrá að kjósa formann og ritara.

Nú er það svo, að hjá þessari n. liggja ekki ýkja mörg mál. Þó hygg ég, að það séu a. m. k. fimm mál sem liggja þar til meðferðar og ekki hefur verið kvaddur saman fundur til þess að ræða um, og meðal þeirra eru þó tvö stjfrv., sem bæði verður að telja, að sé nauðsynlegt að afgreiða. Annað þeirra er um ríkisábyrgð vegna skuttogarasmíða. Í því sambandi hafa komið fram óskir aðila um, að frv. verði breytt, þannig að fleiri fái notið þeirra hlunninda, sem í því frv. felast. Mér er kunnugt um, að vegna fyrirhugaðra samninga við erlendar skipasmíðastöðvar getur dráttur á afgreiðslu þessa máls haft hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir fleiri aðila, og vænti ég þess, að málið verði nú þegar tekið til afgreiðslu.

Annað mál sem hjá n. liggur og ekki hefur enn verið tekið til afgreiðslu, er frv. til l. um breyt. á lögum nr. 4 frá 28. febr. 1966, um útflutningsgjald á sjávarafurðum. Hér er um mál að ræða, sem búið er að liggja hjá n. síðan 7. febr. Þetta mál þolir enga bið og hefði þurft að fá sérstaka fyrirgreiðslu og hljóta afgreiðslu í þinginu. Það er a. m. k. þeim mönnum kunnugt, sem fylgjast nokkuð með því, hver afkoma tryggingasjóðs fiskiskipa er, hvað hér er um brýnt og nauðsynlegt mál að ræða og að það fái afgreiðslu sem allra fyrst.

Eins og fram kom í framsögu hæstv. sjútvrh. fyrir frv., er gert ráð fyrir, að með frv., ef að lögum verður, muni tryggingasjóðurinn fá um 45 millj. kr. auknar tekjur. Að vísu er hér um allt of litla fjárupphæð að ræða, til þess að sjóðnum sé gert kleift að standa við sínar skuldbindingar, en það er annað mál. Ég vil því einnig vænta þess, að enginn frekari dráttur verði á afgreiðslu þessa máls, enda getur varla verið um það að ræða, að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. séu með ásetning um að tefja framgang þeirra mála, sem ríkisstj. ber fram og vill beita sér fyrir.

Þá vil ég að lokum minnast á frv., sem ég flutti nokkru fyrir þinghlé, fyrir jól. En það var um að veita nemendum vélstjóra- og stýrimannaskóla aðild að Lánasjóði ísl. námsmanna. Þetta frv. hefur alla tíð síðan legið hjá hv. fjvn. Mér er kunnugt um, að mál þetta er talið mjög mikilsvert af þeim nemendum, sem frv. snertir, og hafa þeir látið fara fram sérstaka athugun á fjárhagsaðstæðum umræddar nemenda og fleiru, er máli skiptir í þessu sambandi. Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að n. sjái sér fært að afgreiða þetta mál frá sér við fyrsta tækifæri, svo að það a. m. k. fái þá þinglegu meðferð, sem venjuleg er. Varðandi þessa aths., sem ég hef nú komið á framfæri varðandi störf þn., þá ræddi ég þetta mál sérstaklega fyrir a. m. k. hálfum mánuði við hæstv. forsrh. og ljáði honum, hvað ég teldi mikið athugavert við störf n. hér í hv. d. og seina afgreiðslu mála, og hann tók mjög undir það, enda hafði hann gert svipaðar aths. hér á síðasta þingi, þó að ekki væri nú neitt svipuðu þá til að jafna við það, sem hér hefur átt sér stað í þessari hv. n., sem ég vitna sérstaklega til í þessu tilefni allt fyrir það, og hafði hann góð orð um það, að hann mundi a. m. k. áminna sína menn um að taka til starfa í n. En þrátt fyrir það hefur allt komið fyrir ekki, og ég sé ekki nein viðbrögð í þessari n. til þess að taka til starfa eða taka þau mál til meðferðar, sem til hennar hefur verið vísað. Því sá ég mér ekki fært annað en að gera þetta mál að umræðuefni utan dagskrár, en vænti þess, að það hafi þau áhrif, að a. m. k. hv. sjútvn. taki til við að afgreiða þau mál sem hjá henni liggja óafgreidd.