06.03.1972
Sameinað þing: 45. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (2737)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forseti (EystJ):

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf: „Reykjavík, 3. marz 1972.

Ágúst Þorvaldsson, 2. þm. Sunnl., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég vegna sérstakra anna heima fyrir mun ekki geta sótt þingfundi næstu vikur, leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi, og með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþ. að óska þess, að 1. varamaður Framsfl. í Suðurlandskjördæmi, Hafsteinn Þorvaldsson sjúkrahúsráðsmaður, taki sæti á Alþ. í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fara fram í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Gunnar Gíslason,

forseti Nd.

Eins og fram kemur í bréfi þessu ber að láta fara fram athugun á kjörbréfi Hafsteins Þorvaldssonar, og mun bréfið ganga til hv. kjörbréfanefndar.

Þá hefur mér borizt annað bréf svo hljóðandi: „Reykjavík, 4. marz 1972.

Gísli Guðmundsson, 1. þm. Norðurl. e., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Með því að ég af ýmsum ástæðum get ekki sinnt þingstörfum næstu vikur, leyfi ég mér hér með að biðja um fjarvistarleyfi og óska þess, að 2. varaþm. Framsfl. í Norðurlandskjördæmi eystra, Ingi Tryggvason bóndi á Kárhóli, verði til þess kvaddur að gegna þingstörfum í minn stað fyrst um sinn frá og með 6. marz n. k., en 1. varamaður flokksins í nefndu kjördæmi, Jónas Jónsson ráðunautur, hefur tjáð mér, að sakir anna geti hann ekki tekið að sér þingstörf á þeim tíma, sem hér um ræðir.“

Þetta er yður, herra forseti, her með tilkynnt með ósk um, að þér látið fara fram í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Gunnar Gíslason,

forseti Nd.

Þessu fylgir svo hljóðandi bréf frá Jónasi Jónssyni til forseta:

„Vegna ferðalaga á vegum landnýtingar- og landgræðslunefndar, sem ég var búinn að lofa að takast á hendur í þessari viku og þeirri næstu, get ég ekki tekið sæti Gísla Guðmundssonar, sem hefur tjáð mér, að hann þurfi að hverfa af þinginu um stundarsakir. Ég fer þess því á leit, að 2. varamaður Framsfl. á Norðurl. e. verði kvaddur til þess að gegna varamannsstörfum í minn stað.“

Ingi Tryggvason hefur lagt fram kjörgögn sín og verða þau skoðuð í hv. kjörbréfanefnd. Verður gefið 10 mínútna fundarhlé til þess að skoða kjörbréfin. [Fundarhlé.]