08.12.1971
Efri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Frsm. fjhn., hv. 4. þm. Norðurl., v., hóf þessar umr. Hann gerði það með þeim orðum, að það væri djúpstæður ágreiningur um áætlanagerð. Hann er greinilega ekki sammála mér og hæstv. forsrh. Við tókum það báðir fram við 1. umr. þessa máls, að það væri ekki ágreiningur í íslenzkum stjórnmálum um áætlanagerðir. Hins vegar lagði ég áherzlu á það, að það væri ágreiningur um það, hvers eðlis slíkar áætlanir ættu að vera og með hverjum hætti ætti að koma þeim í framkvæmd. Ég skal ekki endurtaka það, sem ég hef áður sagt um þetta efni, en þessi ágreiningur hefur komið mjög fram í þeim umr., sem hér hafa farið fram í dag.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði, að Sjálfstfl. væri á móti áætlanagerð, en þó með áætlanagerð, að því er manni skildist, þegar efnahagsörðugleikar steðjuðu að. Hann lét ekki sitja við þessa fullyrðingu. Hann nefndi þrjú atriði, sem hann vildi meina, að væru áfangar á þeirri braut að efna til áætlanagerðar, og byrjaði á að nefna „Rauðku“, skipulagsnefnd atvinnumála. Hann sagði, að sjálfstæðismenn hefðu verið á móti þessum aðgerðum á sínum tíma. Látum það gott heita, og ég mótmæli því ekki. En þetta stangast algjörlega á við þá fullyrðingu, að sjálfstæðismenn væru einkum með áætlanagerð, þegar efnahagsörðugleikar væru. Eins og kunnugt er, hafa sjaldan gengið meiri erfiðleikar yfir efnahagslíf okkar Íslendinga en einmitt á þessu tímabili, í heimskreppunni miklu, svo að ekki stóðst nú þetta. Hann nefndi svo nýbyggingaráð sem einn áfanga á þessari braut. Ekki skal ég neita því, þótt það verði auðvitað að hafa fyrirvara á þessu, því að þar var um mikið annað að ræða en það, sem núna er talað um. En samkv. kenningu hv. þm. átti Sjálfstfl. að vera á móti þessu, vegna þess að þá voru ekki efnahagserfiðleikar. Þá voru mestu velmegunartímar, sem yfir þjóðina höfðu þá gengið, og nýbyggingaráð var sett á stofn til þess að gera áætlanir um ráðstöfun á þjóðarauðnum, sem safnazt hafði í handraða á stríðsárunum, svo að ekki stóðst þessi fullyrðing hv. þm. En svo komum við að þriðja áfanganum, sem hann nefndi, og það er Efnahagsstofnunin. Sjálfstfl. er brautryðjandi í þeirri áætlunargerð hér á landi, sem raunverulega er hægt að nefna því nafni, og stóð að stofnun Efnahagsstofnunarinnar. En var það á tímum erfiðleika? Nei, það var á mestu uppgangs- og velmegunartímum, sem fram til þess tíma höfðu gengið yfir þetta þjóðfélag. Svo ekki stenzt það nú. Ég nefni þetta af því, að þetta er gott dæmi um það, hvernig málflutningur þessa hv. þm. var, þegar hann mælti fyrir áliti meiri hl. fjhn. Það er ekki hægt að hæla honum fyrir þessa sagnfræði hans. Hitt er rétt og ég skal ekki draga af því, að honum hefur verið hælt hér í þessum umr. fyrir þá hreinskilni að viðurkenna, að hann sé höfundur, a.m.k. að einhverju eða verulegu leyti, að þessu frv., og þann heiður skal ég ekki af honum hafa.

Þessi hv. þm. sagði, að mestu máli skipti, að með frv. þessu væri sameinað í eina stofnun áætlanagerð og framkvæmdaáætlun. Þetta er það, sem stjórnarliðið telur, að sé einna þýðingarmest í þessu máli, og mér sýnist, að það hafi verið staðfest við 1. umr. þessa máls og í þessum umr., enn sem komið er. Af hálfu okkar sjálfstæðismanna hefur hv. 2. þm. Reykv. þegar nokkuð svarað þessu og fært rök fyrir því gagnstæða, að það sé einn meginókostur þessa frv., að þetta skuli vera fært saman, bæði áætlanagerðin og framkvæmd áætlunarinnar.

Hér á undan hefur verið lýst ýmsum göllum þessa frv., og ég vil ekki endurtaka það. En hæstv. forsrh. sagði hér í þessum umr., að nál. minni hl. fjhn. bæri vitni sjúklegu ímyndunarafli. Það munar ekki um það. Það var sjúklegt ímyndunarafl. Hann minntist á ýmis atriði, sem ég skal ekki eltast við að telja hér upp, en eitt sagði hann: „Hvar er minnzt á þjóðnýtingu?“ Nú hefur því ekki verið haldið fram, að með þessu frv., þó að samþykkt yrði, mundi fara fram allsherjar þjóðnýting í þessu landi. Það hefur enginn haldið því fram. En fyrr má nú gagn gera. Og það mætti kannske segja mér, að það væri eitthvað í þessu frv., sem gæti verið vísir að þjóðnýtingu, og í því sambandi vil ég minna á 3. mgr. 30. gr. frv. Þar er Byggðasjóði heimilað að gerast meðeigandi í atvinnufyrirtækjum. Það er almennt ákvæði í lögum um það, að ríkið geti gerzt aðili að atvinnufyrirtækjum. Mér dettur ekki í hug að halda fram, að þetta sé allsherjar þjóðnýting, en ég mundi segja, að þetta væri vísir að þjóðnýtingu. Ég bendi á það, að ákvæðin um Byggðasjóð eiga að koma í staðinn fyrir lög um Atvinnujöfnunarsjóð, og í þeim lögum er ekkert hliðstætt ákvæði. Mér þykir þetta vera þess eðlis, að það sé rétt að spyrja hæstv. forsrh. um það, hvers eðlis þessi heimild sé og með hverjum hætti stjórnin hyggst nota þessa heimild og undir hvaða kringumstæðum.

Hæstv. forsrh. sagði: „Það hafa engir frekar en sjálfstæðismenn notað pólitíska aðstöðu sína.“ Mér kom þetta dálítið einkennilega fyrir sjónir, satt að segja, því að það er nú svo, að ég hef oft heyrt, að Framsfl. hafi verið gefin þessi einkunn, og ég held, að svo muni vera um fleiri heldur en mig. Ég veit það, að Sjálfstfl. er borinn mörgum brigzlum, en ég held, að það sé frekar fátítt, að hann sé borinn þessum brigzlum. Ég held, að þetta sé einmitt það, sem oftast er sagt um flokk hæstv. forsrh. Við skulum athuga þetta dálítið nánar. Ég skal ekki fara langt út í þessi mál, en við skulum staldra aðeins við flokk hæstv. forsrh. af þessu gefna tilefni. Í sögu Framsfl. má segja þrjú ártöl skráð gullnu letri. Það er árið 1927, 1956 og eigum við ekki að segja 1971? Þetta eru mismunandi ár, mismunandi tímar, en það er eitt sameiginlegt með Framsfl., þegar hann kemur til valda á tímamótum, eins og óneitanlega voru 1927, 1956 og við skulum segja 1971. Þá hefur komið fram eitt af þeim einkennum Framsfl., sem hafa orðið þess valdandi, að hann hefur áunnið sér þessa einkunn, sem hæstv. forsrh. vildi gefa Sjálfstfl., að enginn notaði frekar pólitíska aðstöðu sína. Af því að við erum núna að ræða um frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins, sem á að setja lánastofnanir landsins undir, víkjum þá að því, hvað það var 1927, sem Framsfl. hafði á oddinum í sambandi við bankamál landsins. Jú, hann þurfti að fá setta löggjöf til þess að ná yfirráðum yfir Landsbankanum. Það var frægt mál og mikið mál á sínum tíma, en var fólgið í því, að sett var á stofn svo kölluð landsbankanefnd, og í gegnum hana átti Framsfl. að tryggja sér þá aðstöðu, sem hann taldi, að hann þyrfti að gera á þessum tíma. Hvað skeði 1956? Eitt af fyrstu verkefnum Framsfl. þá var að bera fram frv. um bankalöggjöf landsins, gera skipulagslegar breytingar á Landsbankanum til þess að koma ár sinni fyrir borð á þeim vettvangi og gera málamyndabreytingar á Útvegsbankanum í sama skyni. Þetta er óneitanlega keimlíkt því, sem er að gerast í dag. Við þekkjum og hljótum að sjá eyrnamörk Framsfl. á því frv., sem hér liggur fyrir, þegar það er athugað, hve rík áherzla er lögð á það að koma bankakerfinu og stofnlánasjóðum landsmanna undir pólitískt vald Framsfl. Ég sagði, að fyrir þessa afstöðu hefði Framsfl., m.a. fyrir þetta — það er margt annað, sem kemur til greina, — hefði hann áunnið sér þá einkunn að vera almennt viðurkenndur sem sá flokkur, sem hefði mest notað pólitíska aðstöðu sína í þessu landi. Þetta er raunalegt, vegna þess að Framsfl. hefur raunar frá stofnun sinni eða svo til verið stór og áhrifaríkur flokkur í landinu. Það er raunalegt vegna þess líka, að Framsfl. telur sig lýðræðisflokk og ég vil ekki bera brigður á það. En það er leitt til þess að vita, að í hvert sinn sem Framsfl. kemst til valda með stuðningi flokka sér til vinstri, þá skuli hann leggja megináherzlu á það að breyta leikreglunum. Ef hann telur, að hin almenna löggjöf henti honum ekki, þá vill hann umsvifalaust til þess að efla áhrif sin og völd breyta löggjöfinni. Þetta er eitt af því, sem að mínu áliti verður frekast haft á móti Framsfl., vegna þess að þetta vegur að rótum eðlilegra stjórnarhátta í landinu.

Hæstv. forsrh. sagðist mótmæla því, að þeir, sem fást við stjórnmál, séu annars flokks menn. Hver var að segja það? Hvernig stendur á, að hæstv. forsrh. kemur það í hug, að einhver okkar, sem hér erum, vilji halda því fram, að stjórnmálamenn, eða þeir, sem fást við stjórnmál. hljóti að vera annars flokks menn? Þetta er í raun og veru ekki svara vert. En hvers vegna segir forsrh. þetta? Hann segir það vegna þess, að við sjálfstæðismenn höfum haldið því fram, bæði við 1. umr. og hv. 2. þm. Reykv. hér í dag, að það sé ekki rétt að fela störf, sem Efnahagsstofnunin hefur innt af hendi, mönnum, sem standa í pólitík. Það sé eðlilegt að færa þau störf og láta þau störf haldast áfram í höndum sérfræðinga og embættismanna. Efnahagsstofnunin er ekki gömul stofnun, en hún er samt sem áður búin að sanna tilverurétt sinn, og hún er búin að sýna það, að hún gegnir mikilvægu hlutverki. Og í okkar þjóðfélagi er það ákaflega þýðingarmikið, að stofnanir, sem eiga að sinna slíkum hlutverkum sem Efnahagsstofnun gerir, stofnanir eins og Hagstofa, og fleiri mætti nefna, séu algjörlega fyrir utan hin pólitísku átök. Auðvitað eiga hinir pólitísku flokkar eða Alþ. á hverjum tíma að ráða því, hvaða reglur gilda um þessat stofnanir, en það er ákaflega þýðingarmikið, að þeir, sem starfa við þær, geti gert það á hlutlægan, fræðilegan hátt, innan þeirra reglna, sem þeim eru settar.

Það er kátbroslegt, að hæstv. forsrh. skuli láta frá sér þessi orð, að hann mótmæli, að þeir, sem fáist við stjórnmál, séu annars flokks menn, og ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðh. sjái þetta við nánari athugun. Eins og við sjálfstæðismenn erum á móti því, að það séu pólitískir menn, sem séu settir til trúnaðarstarfa í stofnanir eins og Efnahagsstofnunina, erum við á móti því, að það séu pólitískir menn, sem séu settir í dómarasæti, og ég veít, að hæstv. forsrh. er jafnmikið á móti því eins og ég. En þetta er nokkuð sama eðlis, þótt mikill stigmunur sé á. Sjálfstæði dómaranna er varið af stjórnarskrá, en það er tilhneiging í lýðræðislöndum, þar sem lýðræðislegir stjórnarhættir hafa náð lengst, að verja einmitt sjálfstæði stofnana svipaðra og Efnahagsstofnunarinnar með hliðstæðu stjórnarskrárákvæði. Ég er ekki að leggja það til. En þótt við hæstv. forsrh. séum báðir sammála um þessa hluti, að það verði að halda a.m.k. dómsvaldinu fyrir utan pólitík, þá eru ekki allir sammála um það. Það, sem skilur á milli lýðræðislegra stjórnarhátta og þeirra stjórnarhátta, þar sem kommúnisminn ríkir, er, að þar gildir ekki þessi regla. Þar eru dómstólarnir ekki sjálfstæðir. Þar helgar tilgangurinn meðalið. Þó að svo sé á þeim slóðum, þar sem kommúnistar ráða, þá finnst mér, af því að ég veit, að hæstv. forsrh. er mér sammála efnislega um þessa hluti, leitt til þess að veíta, ef hann lætur kommúnistísk áhrif í þessari ríkisstj., í ríkisstj. sinni, hafa þau áhrif, að í þessu efni sé sveigt af réttri leið hvað snertir slíka starfsemi, sem Efnahagsstofnunin hefur haft með höndum.

Hv. 11. þm. Reykv. hélt hér ræðu og kom nokkuð víða við. Ég skal ekki fara út í öll þau atriði, sem hann nefndi. Mér finnst ekki ástæða til þess. Það var raunar ákaflega lítið nýtt. Hann sagði og lagði mikla áherzlu á, að þetta frv., sem hér er til umr., eigi að tryggja sem bezt algjöra stefnubreytingu frá því, sem verið hefur, algjöra stefnubreytingu. Rökin fyrir því voru þau, að það væri nú ekki allt fullkomið, og það væri hægt að betrumbæta margt í íslenzkri. áætlanagerð frá því, sem verið hefur. Ég er sammála honum um þetta, og hann kallaði sér til vitnis ekki ómerkari menn en prófessor Ólaf Björnsson og Magnús Jónsson, fyrrv. fjmrh. Ég er sammála þessu, að það megi betrumbæta frá því, sem núna er. Það getur enginn mótmælt því, en hv. þm. virðist halda, að það hljóti endilega að miða í rétta átt að breyta til um heildarstefnu í þessum málum. Það er þar, sem ég er honum ósammála. Þessi mál. þjóðhagsáætlun og áætlunargerð, eru þess eðlis, að það hlýtur að taka nokkurn tíma að móta og láta þróast þær reglur og þá starfsemi, sem þessu fylgir. Og ég vil halda fram, að það, sem við hefðum átt að leggja áherzlu á nú, væri að halda áfram á þeirri braut, sem farin hefur verið, byggja ofan á það, sem gert hefur verið og reynzt hefur vel.

Hv. 11. þm. Reykv. ætlaði hér að færa sönnur á það, að áætlunargerð væri verkefni, sem stjórnmálamenn ættu að sinna, en ekki sérfræðingar og embættismenn. Og rökin áttu að vera þau, að víða tíðkaðist það nú að hafa sérstök efnahagsmálaráðuneyti, og, eins og hv. þm. sagði, auðvitað væru það pólitískir ráðh., sem færu með þau rn. Þetta er algjörlega rétt. Það eru auðvitað pólitískir ráðh., sem fara með efnahagsmálaráðuneyti. En efnahagsmálaráðuneyti varða framkvæmd og stjórnarstörf. Það er annað að gera þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir. Hvarvetna þar, sem ég þekki til og veit til, að búið er að koma á stofn efnahagsmálaráðuneytum, eru það sjálfstæðar, óháðar stofnanir, sem vinna að áætlanagerð, þannig að þetta sannar ekkert um það, sem hv. þm. vildi halda fram, og svo var um flest, sem hann nefndi.

Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, víkja aftur nokkrum orðum að hæstv. forsrh. Í 3. mgr. 12. gr. frv. segir, að Framkvæmdastofnunin geti sett almennar reglur um, hvers konat framkvæmdir skuli hafa forgöngu umfram aðrar, og skuli þá opinberir sjóðir og lánastofnanir haga lánveitingum í samræmi við það. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. varðandi þetta atriði: Er það ætlunin, að Framkvæmdastofnunin geti sagt sjóðum og bönkum fyrir um einstakar lánveitingar án tillits til ákvæða þeirra laga, sem um þessa sjóði og banka fjalla? Ég tel, að hér sé um mjög veigamikið atriði að ræða, hvort í þessu ákvæði eigi að felast heimild til þess að víkja frá gildandi lögum um starf og tilgang hinna ýmsu fjárfestingarsjóða, ef það er nauðsynlegt, til þess að Framkvæmdastofnunin fái forgang fyrir lánum þeim, sem hún telur, að sé rétt að veita.

Ég vil beina fleiri spurningum til hæstv. forsrh. Ég vil heina aftur til hans spurningu, sem ég beindi til hans við 1. umr. Ég fékk ekki svar þá. Ég innti hæstv. ráðh. ekki frekar eftir þessu þá. Það gat verið, að hann ætlaði að hugsa sig um. Nú þykist ég vera viss um það, að hæstv. ráðh. hljóti að geta svarað spurningu minni. Það er varðandi 2. mgr. 13. gr. frv. Þar er talað um, að lánadeildin geti átt frumkvæði að stofnun nýrra fyrirtækja. Ég spyr hæstv. ráðh. enn á ný: Hvað er átt við með frumkvæði að stofnun nýrra fyrirtækja? Hvernig hugsar hann sér, að þetta beri að? í hvaða formi á þetta að vera? Ég þykist vita, að það sé ekki hægt að sjá alla hluti og framkvæmd þessara laga fyrir í einstökum atriðum, en ég tel, að hér sé um svo veigamikið atriði að ræða, að það sé eðlilegt og hv. d. eigi rétt á því að fá álit hæstv. forsrh. um þetta efni.

Þá vil ég víkja að 17. gr. frv. Þar segir:

„Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins skal leita eftir samningum við stjórnir Iðnþróunarsjóðs, Atvinnuleysistryggingasjóðs, lífeyrissjóða og tryggingarfélaga um samvinnu þessara sjóða og félaga við stofnunina varðandi lánveitingar.“

Í aths. með þessari gr. er tekið fram, að það muni ekki vera hægt eða eðlilegt að leggja þessa sjóði undir Framkvæmdastofnunina. Þeir eru taldir upp í þessari gr., sem ekki eru þess eðlis, að leggja skuli þá undir Framkvæmdastofnunina. Mér finnst sem það megi gagnálykta frá þessu á þann veg, að aðrir opinberir stofnlánasjóðir séu þess eðlis, að þeir geti verið settir undir Framkvæmdastofnunina. Ég kom inn á þetta við 1. umr. málsins og hæstv. forsrh. reyndar líka og gat þess, að ekki mundu allir aðrir sjóðir líklegir til að vera settir undir Framkvæmdastofnunina. En ég endurtek spurningu mína nú og spyr, ég hef ekki fengið svar við því enn þá: Hvaða sjóðir eru það helzt, sem koma hér til greina, og hvers eðlis eru þeir sjóðir, sem haft er í huga, að fari bezt á að setja undir Framkvæmdastofnunina?

Ég hef hér vikið að nokkrum atriðum. Ég hef vikið að nokkrum atriðum í ræðum hv. frsm. meiri hl. fjhn., forsrh. og hv. 11. þm. Reykv. Það mætti að sjálfsögðu fara út í ýmis fleiri atriði, en með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt og hef sagt reyndar áður við 1. umr., sé ég ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri að sinni.