03.11.1971
Efri deild: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

50. mál, almannatryggingar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að það gladdi mig, þegar ég frétti það, að fyrsta verk núv. ríkisstj. var að flýta gildistöku laga, sem fráfarandi stjórn hafði samið og fengið samþ. á síðasta Alþ, En ég neita því ekki, að eftir þeim umr., sem farið höfðu hér fram um þetta frv. í kosningabaráttunni í vor, þá bjóst ég við, að þessi brbl. mundu fjalla um annað og meira en að flýta gildistökunni. Ég hef mörg lýsingarorð núverandi stjórnarsinna á reiðum höndum um lagafrv., sem samþ. var á þinginu í vor, og er þess vegna fullljóst, að stjórnarandstöðunni þáverandi þótti frekar lítið til þess koma, og bjóst ég því við miklum umbótum. Hins vegar dettur mér ekki í hug annað en að viðurkenna það, að tíma þarf til endurskoðunar á slíkum hlutum sem þessum, og það dregur ekki úr þakklæti mínu fyrir það að flýta um 5 mánuði gildistöku þessara laga. Okkur er það örugglega öllum ljóst, að það er fátækasta fólkið í landinu, sem hér á hlut að máli, og allt, sem gert er því til hagsbóta, er sannarlega mikils virði fyrir þetta fólk.

Í þessum lögum, sem samþ. voru í vor, voru mörg nýmæli og þau voru mikil endurbót á okkar tryggingalöggjöf. Eitt af þeim merku nýmælum, sem þar var um að ræða, var þetta atriði um 7000 kr. lágmarksbætur fyrir þá, sem engar tekjur hefðu, sem hæstv. heilbrmrh. hefur nú tjáð okkur, að muni verða hækkað upp í 10 þús. kr.

Í sambandi við þetta mál er tvennt, sem mig langar til að minnast á. Í fyrsta lagi hefur það lengi verið áhugamál þeirra, sem sinna öryrkjamálum, að tryggingabætur yrðu hlutfall af launum verkamanna, en ekki bundnar ákveðinni krónutölu. Í landi eins og Íslandi er það sérstaklega þýðingarmikið, og ég verð að segja það, að eftir fregnum síðustu daga í blöðum um mjög hækkandi húsaleigu nú á síðustu mánuðum, þá efast ég stórlega um, að 10 þús. krónurnar verði miklu meira virði um áramótin en 7 þús. krónurnar voru í marz, þegar þessi lög voru búin til. Og þannig er það, að nú þegar kjarabætur koma, þá er að vísu í þessum dögum, sem samþykkt voru í vor, einnig það nýmæli, að þá skuli breyta bótum öryrkjanna, en þó ekki fyrr en eftir 6 mánuði, að laun hafa hækkað í fiskvinnu. Því vildi ég mega beina því til þeirrar n., sem endurskoðar nú tryggingalöggjöfina, hvort ekki væri hægt að fara inn á það, að örorkubætur væru — við skulum segja 70% af 3.–4. taxta Dagsbrúnar eða einhver ákveðin viðmiðun, þannig að sjálfkrafa fylgdi hækkun á bótum, ef breyting yrði á launakjörum verkamanna. Ég tók þessa tölu af handahófi, 70%, en mér er ljóst, að ekki gæti allt komið í einu og væri hugsanlegt, að þetta hækkaði um 1% á ári — við skulum segja á næstu 5 árum — upp í 75%. En annars er hér um erfitt vandamál að ræða, vegna þess að við getum illa farið með bætur á þann hátt, að þær verði sæmilega lífvænlegar, vegna þess að þá verða kannske svolitlar hömlur á þeim kvóta, sem þarf að vera fyrir hvern mann til að vinna fyrir sínu brauði. Því er kannske ekki nema eðlilegt og er nú víðast hvar allmikill munur á launum lægst launuðu verkamanna og tryggingabótum.

Það eru fleiri nýmæli, sem eru ekki komin til framkvæmda enn þá, en þetta, að miðað verði við laun fólks í fiskvinnu, álít ég mjög merkilegt nýmæli og vonast til þess, að þeir, sem með þessi mál fara, sjái sér fært að færa þetta í ákveðnara horf, þannig að þetta verði í þá áttina, að hér verði um prósentutölu af verkamannalaunum að ræða, en ekki að það sé í valdi tryggingaráðs hverju sinni, hvenær og hve mikið bæturnar eru hækkaðar.

Nýmæli, sem er okkur mikils virði og komið er þegar til framkvæmda, er um það, að nú er heimilt að greiða fötluðum börnum örorkustyrk, allt að því 4000–4500 kr. á mánuði. Þetta er nýmæli, sem er mjög mikilvægt og kemur fjölda fjölskyldna að miklum notum. Aldurinn fram að 16 ára hefur verið erfiður fyrir þá, sem hafa átt að sjá fyrir þessum börnum. Það hefur ekki fengizt með þeim styrkur, en hins vegar hefur mikill aukakostnaður fylgt uppeldi þeirra.

Eitt er það, sem oft hefur komið til orða, en ekki komizt í framkvæmd, og það er að vekja athygli á mismunandi þörfum öryrkja og aldraðra. Það gefur auga leið, að þarfir tvítugs eða þrítugs manna eru allt aðrar í þjóðfélaginu heldur en við skulum segja manns á áttræðisaldri, og þetta er m. a. orsök þess, að í nágrannalöndunum hafa verið fundnar upp ýmiss konar hliðarráðstafanir, hliðarbætur, þannig að þetta fólk hefur fengið í heild miklum mun hærri bætur en gamla fólkið. Hér er eins og oftar örðugt við að eiga. En eitt er víst, að jafnvel þó að ekki sé um 75% öryrkja að ræða, þá er það oft svo, að þessu fólki er miklu dýrara að lifa heldur en öðru. Jafnvel þó að það stundi einhverja vinnu, þá þarf það oftar að kaupa sér leigubíla til að koma sér á milli staða og lyfjakostnaður og læknismeðferð er því jafnan einhver kostnaðarauki, fyrir utan ýmislegt annað, sem kemur til greina. Og við endurskoðun núverandi laga langaði mig líka til að vekja athygli á því, að enda þótt greidd séu 50%, 75% af lyfjum, og að vísu stundum 100%, ef það er lífsnauðsynlegt, þá er lyfjakostnaður mikill og tilfinnanlegur kostnaðarauki sumra öryrkja og aldraðra og verulegur liður í þeirra lífsframfærslu, og þetta byggist á því, að enda þótt ekki sé um lífsnauðsynleg lyf að ræða, þá geta það verið lyf, sem eru þessu fólki nauðsynleg, og það þarf oftast að greiða þessi lyf að hálfu. Ég veit, að í mörgum tilfellum greiða sveitarfélögin slíkan kostnað, en það væri ástæða til að koma inn í lög frjálsari möguleikum til þess að greiða að fullu lyfjakostnað öryrkja og aldraðra. Það er ekki um stóran hóp hér að ræða, og ég hef ekki trú á því, að það muni valda neinni byltingu í kostnaði, en mörgum gerir þetta í dag lífið erfitt.

Þá er eitt atriði, sem ég vildi vekja athygli hv. n. á, og það er það, að fyrir getur komið, að það sé allmikil nauðsyn á því, að hjón geti fengið sína greiðslu frá tryggingunum sitt í hvoru lagi. Alkohólistar eru orðnir viðurkenndir sjúklingar, og margir þeirra eru á bótum, sumir þeirra eru kvæntir og fjölskyldumenn og ekki ástæðulaust að ætla, að sú aðstaða geti skapazt, að það sé nauðsynlegt fyrir annan aðilann að geta fengið rétt á að fá hluta hjónalífeyrisins greiddan sér á parti.

Mér þótti vænt um að heyra það, að n. hefur tryggingadómstól til athugunar. Það er mál, sem þarf að gerast hér í landi, að þessir aðilar geti kvartað til aðila, sem fara með þau mál sérstaklega.

Ekki er því að neita, að sú eina viðunandi lausn, sem á málum þessa fólks er, er að geta fengið heilbrigðisþjónustuna sem fullkomnasta og endurhæfingarþjónustuna sem fullkomnasta, þannig að sem flest af því geti unnið sér inn sitt lífsviðurværi með eigin vinnu. Ég held, að við hér í þessu landi séum sérstaklega settir í þessu efni. Ég hef ástæðu til að ætla, að hvergi í nágrannalöndunum sé jafnhá hlutfallstala öryrkja og aldraðra í vinnu. Kannske er þetta að einhverju leyti vegna þess, að okkar bætur hafa verið lágar, en það eru fleiri ástæður, sem liggja þar til. Ég held, að þetta sé veigamikið atriði fyrir okkur og að við verðum á næstunni að gera ráðstafanir til þess, að meiri fjölbreytni ríki í atvinnuháttum fyrir þetta fólk, bæði af fjárhagslegum ástæðum og einnig vegna þess að það er þessu fólki nauðsynlegra en mörgum öðrum, til þess að geta lifað sæmilega hamingjusömu lífi, að geta haft eitthvað við að dunda. Við eigum að leggja mikla áherzlu á þýðingu þessa atriðis, á sama tíma og þetta mundi gera tryggingalöggjöfina auðveldari í meðferð.

Hæstv. heilbrmrh. minntist á, að auknar hefðu verið greiðslur til þeirra, sem þyrftu að leita sér læknishjálpar erlendis og annars staðar en þar, sem þeir eiga sjúkrasamlag. Þetta er einnig mikið nauðsynjamál og þetta hefur verið framkvæmt nú upp á síðkastið. Í því sambandi langaði mig til að minnast á eitt mál, sem heyrir kannske ekki nema að nokkru leyti tryggingalöggjöfinni til, en þannig er, að á mínum ferli hef ég oftar en einu sinni þurft að fara með sjúklinga til útlanda, og mér er einnig kunnugt um ýmsa aðra, sem bæði hafa þurft að senda sína nánustu til útlanda eða aðila, sem hafa farið með sjúklinga til útlanda, og ég verð að segja það, að stundum hefur bæði mér og öðrum veitzt bæði kostnaðarsamt og erfitt að koma sér fyrir í sambandi við þessi ferðalög. Nú er það svo, að úti í Kaupmannahöfn hefur verið rekið heimili upp á síðkastið, sem hefur átt að sinna þessum þörfum. Þetta var áður á vegum Kaupmannahafnarprestsins. en mér skilst, að annir hans hafi aukizt. Mér skilst, að störf hans í Kaupmannahöfn við félagslega aðstoð fyrir Íslendinga séu vaxandi, og mér skilst, að hann hafi ekki sinnt þessum málum upp á síðkastið mikið. En ég vildi gjarnan mega spyrjast fyrir um það, hvað þessu máli liði, hvort þetta heimili yrði látið starfa áfram, hvort þetta sé mikill fjárhagalegur baggi á því opinbera og hvað heilbrigðismálastjórninni sé kunnugt um notkunargildi þessa heimilis.

Að einu leyti erum við hér, eins og kannske á fleiri sviðum, lítið eitt frábrugðin okkar nágrönnum. Hér höfum við engan aðila í tryggingaráði frá samtökum öryrkjanna. Venjan er sú í nágrannalöndum okkar, að þessir aðilar fái að vera með í ráðum og fái að tala sínu máli í þeim ráðum, sem um þessi mál fjalla, en hér er það nú ekki. Ég held, að það séu tveir aðilar a. m. k., sem ættu að hafa þar eitthvað að segja, það væri Samband ísl. sveitarfélaga og það eru öryrkjafélögin. Það er óeðlilegt, að þessir aðilar geti aldrei fengið að leggja orð í belg, þegar hagsmunamál þeirra eru rædd á tryggingaráðsfundum.