28.10.1971
Neðri deild: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (3003)

29. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Friðjón Þórðarson) :

Herra forseti. Á þskj. 29 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 68 frá 1971, um tekju- og eignarskatt, ásamt þremur öðrum hv. alþm. Þetta frv. er að sjálfsögðu náskylt því frv., sem lýst var hér áðan undir 3. dagskrárlið, og kom fram í d. sama dag. Vil ég um leið þakka hæstv. fjmrh. fyrir vinsamleg orð um þær breytingar, sem hér eru fyrirhugaðar.

Hér er um að ræða breytingu á 14. gr. laganna, sem fjallar um svonefndan sjómannafrádrátt, en hann er í því fólginn, að sjómönnum eru veitt viss fríðindi, sem koma til frádráttar tekjum þeirra, áður en skattur er á þær lagður. Er þar aðallega um að ræða kostnað vegna hlífðarfata og fæðis sjómanna, sem lögskráðir eru á íslenzk skip, einnig sérstakur frádráttur, 5000 kr., fyrir hvern mánuð, enda hafi gjaldþegn verið skipverji ekki skemur en 6 mánuði af skattárinu. Svipaðar reglur gilda um hlutarráðna menn. Á vorþingi þessa árs voru hlunnindi þessi aukin sjómönnum í hag.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að allar undanþágur í skatti eru erfiðar. Flestir viðurkenna þó, að sjómenn hafi mikla sérstöðu. Þeir stunda störf, sem mikil áhætta fylgir og erfiði. Þeir verða oft og einatt að dveljast langtímum saman fjarri heimilum sínum og skylduliði. Enginn efast um, að þeir vinna þjóðnýt nauðsynjastörf, sem afkoma þjóðarbúsins veltur á að verulegu leyti. Satt að segja er mér ekki heldur kunnugt um, að ákvæðin um sérstakan sjómannafrádrátt í skattalögum hafi sætt gagnrýni annarra stétta.

Þó að fiskimenn á Íslandsmiðum afli oft vel og fái mikið í aðra hönd, eru tekjur þeirra iðulega háðar stórsveiflum Frá ári til árs þess er skemmst að minnast, er tekjur þeirra margra hverra féllu svo að segja úr hámarki í lágmark á síðasta áratug. Þá var víða þröngt fyrir dyrum, er greiða þurfti há gjöld frá góðu skattári með tekjum af rýru gjaldári. Nú er fiskverð á erlendum mörkuðum mjög hátt og söluhorfur góðar. Þjóðartekjur vaxa hröðum skrefum. Byggist það fyrst og fremst á útfluttum sjávarafurðum. Sjómenn hafa hlotið kjarabætur á þessu ári, m. a. í hækkuðu fiskverði. Þó er mikil mannekla á fiskiflotanum. Ekki er sjáanlegt, að úr því rætist í bráð. Dugandi mönnum býðst vel launuð vinna í landi. Sjómannsstarfið er ekki eftirsóknarvert. Þegar bezt lætur, geta tekjur þó orðið það háar, að viðkomandi sjómaður sjái sér lítinn hag í því að fiska mestallt árið úti í hafsauga, þegar obbinn af tekjum hans fer til greiðslu opinberra gjalda. En það eru áreiðanlega ærið margir, sem tapa, þegar aflamaður gengur í land, þó að ekki sé nema um stundarsakir.

Flm. þessa frv. er ljóst, að leggja verður ríka áherzlu á að bæta kjör sjómanna svo, að dugandi menn fáist um borð í fiskiskipin. Nú er fjöldi nýrra skipa og báta í smíðum innanlands og utan. Það getur orðið erfitt að manna allan þann flota, eins og nú horfir. Með þessu frv. er stefnt að því að auka sjómannafrádrátt sérstaklega þeim mönnum til handa, sem fiskveiðar stunda að staðaldri mestallt árið. Miðað er við lögskráningu eigi skemmri tíma en 9 mánuði á ári og sérstakan frádrátt, er nemi 90 þús. kr. Upplýsingar um, hversu mikil áhrif umrædd breyting kann að hafa í för með sér á tekjur ríkissjóðs, reyndust ekki tiltækar. Vera má því, að rétt þyki að breyta umræddri tölu við nánari athugun. Við því er ekkert að segja, ef takmarkið verður eftir sem áður hið sama að létta skattabyrði fiskimanna til ríkissjóðs, bæta hag þeirra og búa þeim aðgengileg og örugg lífskjör.

Ég legg til, að frv. þessu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjhn.