21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (3016)

52. mál, Jafnlaunadómur

Frsm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Svo sem fram kemur í nál. á þskj. 579, hefur allshn. þessarar hv. d. orðið sammála um að mæla með því, að frv. til l. um jafnlaunadóm verði samþ. með þeim breyt., sem birtar eru á þskj. 573. N. sendi frv. allmörgum aðilum til umsagnar, og voru þær að berast fram eftir vetri.

Áður en ég rek aðalatriði hverrar umsagnar fyrir sig, vil ég láta þess getið, að í umsögn Dómarafélags Íslands var alleindregið lagzt gegn stofnun sérdómstóls. Þeir færa fram ýmsar ástæður fyrir því, að sú stofnun, sem hér er fyrirhuguð, skuli ekki nefnast dómur, en segja þó síðan, að verði haldið fast við það að stofna sérdómstól í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir, þá sé nokkurra atriða að gæta. Ég ætla ekki að rekja þau atriði hér, vegna þess að n. varð sammála um að taka tillit til þeirrar afstöðu Dómarafélagsins að breyta þessu úr dómi. Þessi afstaða Dómarafélagsins var mjög eindregin, og með tilliti til þess einnig, að æskilegt þótti, að n. gæti staðið einhuga að málinu og reynt yrði að ná samstöðu hér á hv. Alþ. um það, þá varð n. sammála um að leggja til, að jafnlaunadómi yrði breytt í jafnlaunaráð.

Sem flm. þessa frv. get ég fellt mig við þessa breytingu, vegna þess að kjarni þess stendur eftir, kjarni frv., sem er, auk 1. og 2. gr., 6. gr. frv., þar sem skýlaust er kveðið á um, að úrskurður ráðsins í kærumáli einstaklings sé bindandi sem ráðningarsamningur milli aðila og fullnaðarúrlausn kjaradeilu og verði honum ekki skotið til dómstóla. Þetta ráð er því hliðstætt barnaverndarráði að því leyti, að úrskurðum, sem það ráð er bært að kveða upp samkv. lögum, verður ekki skotið til dómstóla. N. varð líka sammála um, að með þessari breytingu ynnist atriði, sem gæti reynzt mjög mikilvægt, og varðar það einnig verkefni jafnlaunaráðs, 4. gr. frv.

Svo sem þskj. 573 ber með sér, leggur n. til, að verkefnum jafnlaunaráðs sé fjölgað. Það á m. a. að vera ráðgefandi gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og félögum varðandi launajafnrétti. Það á að fylgjast með þjóðfélagsþróuninni, sem varðar þetta lagaefni. Það á að taka til rannsóknar af sjálfsdáðum, hver brögð kunna að vera að misrétti í kjaramálum að því leyti sem lög þessi varða. Í stuttu máli, það á að vera nokkurs konar samvizka þjóðfélagsins í þessum efnum.

Brtt. við 4. gr. eru að miklu leyti sniðnar eftir verkefni jafnréttisráðs í Noregi. En það vill svo til, að norska stórþingið hefur fyrir nokkrum vikum sett lög um jafnréttisráð, sem tekur við af jafnlaunaráði þar í landi, þó þannig, að jafnlaunaráð verður áfram kjarni þess, en verksviðið er fært út, þannig að það nær til fleiri sviða en þeirra, er snúa að launa- og kjaramálum einvörðungu.

N. sendi frv. til umsagnar eftirtöldum aðilum: Dómarafélagi Íslands, Alþýðusamband Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Rauðsokkahreyfingunni, Úum og Aðstöðunefnd íslenzkra kvenna. Dómarafélagið tók fram í umsögn sinni, að það mundi ekki taka afstöðu til efnisatriða frv., heldur einvörðungu fjalla um frv. frá lögfræðilegu sjónarmiði. Vinnuveitendasambandið tók ekki heldur afstöðu til efnisatriðanna, en taldi, að þeir dómstólar, sem starfandi væru í landinu væru bærir um að dæma í málum sem þessum. Allir þeir umsagnaraðilar aðrir, sem ég taldi upp, fjölluðu um efnisatriði frv. og lýstu sig fylgjandi meginstefnu þess, þó að sumir þeirra bendi á, að aðrar leiðir kæmu til greina. Þannig segir í umsögn: Alþýðusambands Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþýðusambandið telur, að til bóta verði, að ákveðinn dómstóll fjallaði um ágreining, sem upp kæmi vegna meintra brota á lögum, samningum og alþjóðlegum skuldbindingum, sem lúta að því að tryggja félagslegt og fjárhagslegt jafnræði kynjanna í atvinnulífinu, en bendir á, að eðli málsins samkv. kæmi til greina að fela félagsdómi slíkt verkefni, enda væru þá gerðar viðeigandi breytingar á lögum um þann dómstól.

N. varð sammála um, að sérstök stofnun skipuð einstaklingum með úrlausn þessa sérstaka máls í huga, jafnréttis, væri í reynd miklu áhrifaríkari en þótt félagsdómi yrði með lagabreytingu falinn úrskurður þessara sérstöku mála.

Stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eru þeirrar skoðunar, að nýtt átak þurfi til þess að tryggja framkvæmd löggjafar um þetta efni. En eins og Dómarafélag Íslands er stjórnin andvíg sérdómstól eða dómstól.

Umsagnir kvennasamtakanna eru allar mjög jákvæðar í garð frv., en tvö þeirra benda á, að nauðsynlegt sé að binda í lög, að konur eigi sæti í ráðinu. Þetta sjónarmið er skiljanlegt, en ekki þótti samt fært eða rétt að lögbinda slíkt. Eðli málsins samkv. þykir nánast útilokað, að ráðið verði skipað eintómum karlmönnum, og þar sem enginn einn aðili skipar fleiri en einn í ráðið, er ekki unnt að tryggja blandað ráð með lögum. Reynslan verður að skera úr, hvort hér hafi verið rétt að farið.

Þá er eitt atriði enn, sem nauðsynlegt er að víkja að. Tveir aðilar lýstu sig andvíga frjálsri sóknaraðild, svo sem frv. gerði ráð fyrir. Þessir aðilar voru Kvenréttindafélag Íslands og Dómarafélag Íslands. N. gat orðið sammála um að fara hér nokkra millileið. Í stað frjálsrar sóknaraðildar í kærumálum er ráðinu skylt að taka við ábendingum um brot á ákvæðum laga þessara og rannsaka mál af því tilefni.

Herra forseti. Ég hef nú rakið það helzta, sem fram hefur komið í umsögnum um þetta frv. N. stendur einhuga að því að mæla með því, að það verði samþ. með þeim brtt., sem hún hefur lagt fram. En einn nm., hv. 1. þm. Norðurl. e., áskilur sér rétt til að flytja brtt. við frv. við 3. umr.

Ég hef sem frsm. n. gert mér far um að gefa hlutlausa mynd af þeim umsögnum, sem borizt hafa um frv., en mig langar til þess í lokin sem flm. þessa máls að færa samnm. mínum sérstakar þakkir fyrir, hversu vel þeir hafa tekið undir málið, og þakka ég þeim fyrir þá samstöðu, sem þeir hafa sýnt.