05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (3034)

52. mál, Jafnlaunadómur

Auður Auðuns:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja nú við 1. umr. um þetta mál. Það hefur hlotið nokkuð óvenjulega meðferð í hv. Nd. Alþ., þegar við 2. umr. málsins var breytt öllum greinum frv. með tölu, þannig að það má að vissu leyti segja, að það sé nýtt frv., sem hafi legið fyrir eftir það, og jafnframt var fyrirsögn frv. breytt. Persónulega tel ég, að þær breytingar hafi verið til góðs, þó að lengra hefði þurft að ganga. En ég kveð mér nú hljóðs aðallega til þess að vekja athygli á einu atriði, sem má kannske segja, að sé óþarfi, því að það liggur svo í augum uppi, en á frv., eins og það kemur frá Nd., eru slíkir formgallar, að það er útilokað, að þingið geti afgreitt frv. frá sér í því formi.

Eins og menn sjá, er á þskj, 694 eftir 3. umr. í Nd. 5. gr. frv. orðuð eins og þar segir, þ. e. a. s. að félagsdómur skuli dæma í málum vegna brota á lögunum. Hins vegar segir í 4. gr. frv., eins og það nú liggur fyrir, 6. tölul., að jafnlaunaráð, eins og það nú heitir, skuli kveða upp úrskurð í deilumálum, sem rísa út af kærum um brot á lögum þessum. Þetta tvennt getur auðvitað ekki staðizt. Ég skal þegar taka það fram, að ég tel þá breyt., sem gerð var á frv. í Nd., að leggja úrskurðarvald um brot á lögunum undir félagsdóm, hafa verið rétta og æskilega. Það er vert að geta þess, sem kom fram í umr. um málið í Nd., en þar, í allshn. hv. Nd., var frv. sent ýmsum aðilum til umsagnar og bárust m. a. umsagnir Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins, að allir þeir aðilar mæltu gegn því, að það yrði stofnaður sérstakur dómstóll til að fjalla um þessi mál. Ég ætla, að bæði í umsögn Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins jafnvel — þó er ég ekki alveg viss um það — hafi verið talið eðlilegt, að þau féllu undir félagsdóm.

Ég vildi sem sé vekja athygli á þessu ósamræmi í frv., eins og það liggur fyrir eftir meðferð þess í Nd. Að sjálfsögðu mun sú n., sem það tekur til athugunar hér, taka afstöðu til þess, hvaða lagfæringar verði á frv. gerðar, svo að a. m. k. séu ekki á því formgallar.

Það er eitt atriði, sem ég vildi aðeins nefna líka í þessu sambandi, og það er um, hvernig háttað er þessum málun á Norðurlöndunum. Ég er því ekki svo kunnug, að ég geti neitt um það fullyrt. Ég veit ekki, hvort fyrir allshn. Nd. hafi legið neinar skjalfestar upplýsingar um það, en ég hlýt að segja, að ég teldi eðlilegt, að sú n., sem fær málið til athugunar, aflaði sér gagna um það, og ég býst við því, að það mundi geta orðið n. nokkuð til leiðbeiningar um afgreiðslu á málinu, því að þar munu vera til, að ég ætla, einhver lagaákvæði um þessi efni. Væri ugglaust fróðlegt að fá að vita, hvernig málum þessum er skipað í nágrannalöndum okkar.

Ég vil svo að endingu taka það fram, að sú grundvallarhugsun, sem lá að baki þessa frv., þegar það var flutt, held ég að hljóti að eiga hljómgrunn hjá okkur öllum alþm., og ég tel vissulega mikilsvert, að þetta mál verði afgreitt á þann hátt, að það megi búast við, að það verði „effektívt“, en ekki haldið neinum þeim öfgum, sem geti fljótlega leitt til þess, að farið sé í kringum ákvæði slíkra laga, því að það skilst mér, að geti verið ákaflega auðvelt.