23.02.1972
Neðri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (3091)

184. mál, vegalög

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna þessa frv., sem hér hefur verið fylgt úr hlaði af hv. 1. flm. Ég ætla þó ekki að fara út í umr. um réttmæti þess að hafa þessa heimild í lögum, sem nú er lagt til, að verði numin brott, eða umr. um það, hvaða vegir séu sambærilegir. Ég vil í upphafi taka það fram, að ég er meðmæltur því, að veggjald á Reykjanesbraut verði fellt niður. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem þetta mál kemur til umr., hvorki hér á hv. Alþ. né á öðrum vettvangi. Áður en ég kem að því atriði þarf ég að gera lítillega að umræðuefni þau vinnubrögð, sem eru iðkuð með flutningi þessa frv.

Það er út af fyrir sig skiljanlegt, að varamenn, sem koma í þingið um skamman tíma, telji sig knúða til að flytja eitthvert mál, svona til að fá það skjalfast, að þeir hafi þó stigið í ræðustól á Alþ. En hér virðist þó hv. 1. flm. þessa frv. sýna flokksformanni sínum, hæstv. samgrh., tiltölulega litla tillitssemi, og skal ég koma að því nokkru nánar.

Nokkru fyrir jól lagði hv. 5. landsk. þm. fram fsp., til hæstv. samgrh. um það, hvort ríkisstj. hygðist afnema veggjald á umferð um Reykjanesbraut, og ef svo væri, hvenær sú ákvörðun kæmi til framkvæmda. Svar hæstv. samgrh. var efnislega á þá leið, að sú ákvörðun yrði tekin, „prinsip“-ákvörðun í málinu, eins og hann orðaði það, þegar sambærilegir vegir væru komnir til annarra staða, en það mundi verða á þessu ári. Frekari yfirlýsing var ekki gefin um þetta mál. Hins vegar lá fyrir yfirlýsing frá fyrrv. samgrh. um, að veggjaldið yrði afnumið á Reykjanesbraut. Slíka yfirlýsingu hefur núv. hæstv. samgrh. ekki viljað gefa, og virðist mér því þetta frv. vera flutt vegna þess, að flm. — sem eru allir stuðningsmenn núv. hæstv. ríkisstj. — treysta hæstv. samgrh. ekki til að beita því valdi, sem hann hefur samkv. vegalögum, með þeim hætti, sem íbúar Suðurnesja og aðrir, sem um Reykjanesbraut aka, óska.

Þm. Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi hafa barizt fyrir afnámi þessa gjalds undanfarin ár, þótt þeim hafi á sínum tíma samþykkt heimild þá í vegalögum, sem hér er lagt til að verði felld niður, eins og raunar allir aðrir þm., sem þá sátu á Alþ., gerðu. Það mun því ekki standa á þeim að gera það, sem þarf til þess að veggjaldið verði fellt niður, þ. á m. að styðja þetta frv., ekki sízt ef fyrir liggur, að hæstv. samgrh. muni ekki nota vald sitt til að fella það niður. Sú yfirlýsing liggur að vísu ekki fyrir, en till. hans hlýtur að birtast, þegar vegáætlun fyrir næstu 4 ár verður lögð fyrir Alþ., sem mér skilst að verði í næsta mánuði. Það virðist því sem flutningur þessa frv. hefði mátt bíða þar til till. hæstv. samgrh. yrðu lagðar fram. Þetta sýnir hins vegar það, að hér er um nokkra sýndarmennsku að ræða.

Tveir þm. stjórnarflokkanna úr Reykjaneskjördæmi og einn varamaður úr einum stjórnarflokkanna, sem var í framboði við síðustu kosningar í sama kjördæmi, virðast vera að reyna að slá sig til riddara með flutningi frv. Að sjálfsögðu skiptir það ekki meginmáli, hvernig að þessu máli er staðið. Þetta kryddar kannske aðeins tilveruna og gerir flm. svolítið broslega í augum þeirra, sem þekkja söguna. Það sjá t. d. allir í gegnum það, að þm. Sjálfstfl. og Alþfl. í kjördæminu er ekki boðið að vera meðflm. þrátt fyrir skýra afstöðu þeirra í þessu máli og þrátt fyrir tilraunir þeirra til að ná samstöðu allra þm. kjördæmisins um þau mál, sem eiga að vera hafin yfir alla pólitík. En þetta er mat flm. á því, hvernig bezt sé borgið hagsmunum íbúa kjördæmisins, og hvaða vinnubrögðum eigi að beita til að koma þeim fram. Það er auðvitað afskaplega gott að geta sagt frá þessu t. d. í næstu kosningabaráttu á Suðurnesjum, að það hafi verið þm. núv. stjórnarflokka, sem komu þessu máli í gegn, hinir hafi þar ekki verið með í ráðum.

Ég get ekki stillt mig um að geta lítillega þáttar hv. 2. þm. Reykn., sem jafnframt er 2. flm. þessa frv., Jóns Skaftasonar, vegna þess að hans þáttur er að verða dálítið broslegur í þessu máli. Það er að vísu miður, að hann skuli ekki vera hér viðstaddur. Í Alþingistíðindum 1959–1960, bls. 221, segir þessi hv. þm., með leyfi hæstv. forseta:

„Framkvæmd lagafrv. þessa er dýr“ — þ. e. lagafrv. um steinsteyptan veg suður á Reykjanes — „og því er eðlilegt, að heimilt sé að taka lán til hennar. Mjög er sennilegt, að hægt verði að endurgreiða það lán að verulegu leyti með því að leggja nokkurt gjald á bifreiðar, sem um veginn fara, þar sem sparnaður á viðhaldi þeirra og rekstrarkostnaði hlyti að verða verulegur“ o. s. frv.

Þetta sagði hann þá. Síðan hefur hann að vísu sagt og við annað tækifæri, að þetta hafi hann látið út úr sér í barnaskap sínum, og ég efast ekkert um vilja hans nú í þessu máli. En nóg um það. Aðalatriðið er, að veggjaldið verði fellt niður. Minna máli skiptir, með hvaða hætti það verður gert. Ef núv. hæstv. samgrh. vill ekki nota vald sitt til að gera svo, þá mun ekki standa á þm. Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi að styðja þær aðgerðir, sem hér er lagt til að gerðar verði, og þeir munu jafnframt reiðubúnir að vinna að málinu í sínum flokki, ef stjórnarliðið skyldi bregðast flm. frv. Við sjálfstæðismenn höfum hins vegar sætt okkur við það, enda treyst því, að veggjaldið félli niður frá næstu áramótum. Við höfum sætt okkur við þetta vegna þess, að með þessum tekjum hefur verið reiknað í gildandi vegáætlun. Það er ekki ábyrg fjármálastjórn, sem lýsir sér í því að fella niður á miðju gildistímabili hans tekjustofn, sem reiknað hefur verið með. Hins vegar má kannske segja, að það sé í fullu samræmi við þá fjármálapólitík, sem núv. stjórnarflokkar eiga allan höfundarrétt, að.