01.03.1972
Neðri deild: 45. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (3110)

185. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Þegar hv. 7. þm. Reykv. steig hér í stólinn áðan, þá gekk ég út frá því, að hann ætlaði sér staklega að ræða það frv., sem hér er til umr., og fyrstu inngangsorð ræðu hans fjölluðu vissulega um frv. En svo vék ég mér frá í nokkrar mínútur og þegar ég kom aftur inn í þingsalinn, þá fannst mér ekki vera mikið mjólkurbragð af ræðu hans, ekki komið mikið nálægt innihaldi þessa frv. Þá var vissulega komið vísitölubragð á ræðuna, og flest það, sem hann sagði þar um, útmálun á hækkandi verðlagi á ýmsum nauðsynjum, (það er vissulega satt og hefði ég haldið, að það væri ekki neitt nýjabragð af því í hans munni, því að hann hefði vissulega horfzt í augu við það fyrr hér á Íslandi, meðan hann var í ríkisstj., að verðlagi þokaði heldur frá degi til dags, frá mánuði til mánaðar og frá ári til árs upp á við. (Gripið fram í.) Nei, vissulega ekki, og væri æskilegt, að hægt væri að snúa þeim straumi við eins og ýmsu fleira frá fyrri tíð, og er vissulega verkefnið. En það eitt vil ég segja um þessi vísitölumál, að vísitalan er reiknuð út með sama hætti af sömu trúnaðarmönnum ríkisvaldsins sem reiknuðu vísitöluna út áður, eftir alveg óbreyttum reglum og á engan hátt frá því vikið, sem verið hefur í því efni. Þær bætur, sem verkamenn og launþegar yfirleitt hafa áður fengið í gegnum vísitölubætur, fá þeir nú á sama hátt útreiknaðar af sömu mönnum, sem ég hygg að hafi trúnað flestra um, að þeir séu ekki að falsa í starfi sínu. Mér er það ljóst, að launþegar hafa aldrei fengið fullar bætur á hækkuðu verðlagi í gegnum vísitölukerfið. En á því hefur bara engin breyting orðið.

Þetta frv. fjallar um það að rýmka um reglur gildandi lagaákvæða, reglur um sölu mjólkurafurða. Ég skal ekki fara í neinar grafgötur með þá skoðun mína, sem ég hef haft lengi, að það séu miklar breytingar á orðnar í landi okkar frá því að mjólkursöluskipulagið var sett á fót og sé full ástæða til þess fyrir stjórnendur þessara mála að taka tillit til þessara breytinga. Það á að strika yfir stór orð og ýmiss konar átök um þessi mál, bara líta á breytingarnar, sem orðið hafa síðan.

Þegar mjólkursöluskipulagið var sett á fót, þá fór mjólkursala hér í Reykjavík og annars staðar á landinu þannig fram, að mjólkin var seld í opnum ílátum og mæld í opnu máli, og þá var það ekki gott söluskipulag að selja mjólk þannig í verzlunarbúðum með alls konar vöru. Hún tekur fljótt í sig lykt og hún getur mengazt á margan hátt af umhverfi sínu og þarf vel og vandlega með að fara, eins og hv. 2. þm. Sunnl. undirstrikaði mjög rækilega áðan og réttilega. Þá var yfirleitt ekki kælibúnaður í matvöruverzlunum. Þetta gerði í raun og veru óhæft að selja mjólk innan um alls konar vörur í ókældum verzlunarbúðum.

En síðan hefur þetta gerbreytzt. Nú er mjólkin seld í lokuðum umbúðum, tekur þannig ekki eins og áður áhrifum frá sínu nánasta umhverfi, og matvörubúðirnar eru flestar hverjar með fullkominn kæliútbúnað. Meðan fyrra ástand ríkti, þá verður ekki sagt annað heldur en það hafi verið nauðsyn að koma upp því mjólkursöluskipulagi, sem við nú búum við, setja á stofn hverja mjólkursölubúðina á fætur annarri til þess að annast afgreiðslu þessarar vöru út af fyrir sig við góð skilyrði. En núna, þegar þessar gerbreytingar hafa átt sér stað, sé ég ekki nokkra ástæðu til þess, að nokkur amist við því, að sérhver vel útbúin verzlun, þar sem hægt er að tryggja fullkomnustu meðferð mjólkurinnar í lokuðum umbúðum, hafi leyfi til þess að selja þessa vöru eins og hverja aðra. Það er algerlega óþarft fyrir framleiðendur að standa undir stofnkostnaði og rekstri 40–50 mjólkurbúða í Reykjavák við hliðina á fullkomnum matvöruverzlunum öðrum. Og þennan kostnað geta menn sparað sér að langmestu leyti. Það er alveg sjálfsagt að framkvæma þessa breytingu smátt og smátt, ekki í einu, en ég held, að menn þurfi engan kvíðboga að bera fyrir því, að það húsnæði, sem nú er notað fyrir mjólkurbúðir, haldi ekki sínu fulla verði á við það, sem var fyrir nokkrum árum, og verði selt heldur með söluhagnaði en með tapi eins og annað húsnæði hér í Reykjavík.

En það eru ekki þessi sjónarmið, sem eiga að ríkja. Það er um það að ræða, hvernig er hægt að haga sölu þessarar vöru þannig, að heilbrigðiskröfum sé fullnægt, og hagkvæman hátt, þannig að neytendunum sé sem auðveldast gert að kaupa þessar vörur. Það er alveg gefið mál, þó að hreyfing sé holl og það sé bezt, að húsmæðurnar eins og aðrir hafi á sér nokkra hreyfingu daglega, þá á ekki að tryggja það með óhagkvæmu fyrirkomulagi í verzlun. Það á ekki að gera það. Þegar húsmóðirin fer út að morgni dags og á þess kost í sinni viðskiptaverzlun að kaupa allar sínar nauðsynjar nema mjólkina og verður svo að fara á allt annan stað til þess að sækja mjólkina, þá er það óþörf fyrirhöfn í mörgum tilfellum. Það væri miklu eðlilegra, að hún gæti keypt þar mjólkina líka, um leið og hún kaupir aðrar sínar vörur, ef þar eru fullnægjandi skilyrði, sem tryggja hollustuhætti, heilbrigðiskröfur varðandi sölu og meðferð þessarar vöru, sem og annarra vara, sem einnig þarf að afgreiða við góð og örugg og hollustusamleg skilyrði. Ég held, að rekstur margra tuga mjólkurbúða í Reykjavík sé óþarfur, og hann getur ekki hvílt á öðru en neytendunum, og neytendasjónar miðin hafa ekki notið sín sem skyldi varðandi þessi mál. Það væri ekkert óeðlilegt, að í n., sem ráða þessum málum, væru að einhverju leyti skipaðir fulltrúar frá neytendum. Það var upplýst hér áðan, að þessir aðilar væru eingöngu úr hópi framleiðenda. Það álít ég rangt. Það ætti líka að taka neytendasjónarmið þar og hafa neytendur í þeim nefndum og ráðum, sem um þessi mál fjalla. Þetta er ekki einkamál framleiðendanna. Þetta er hinn flöturinn á málinu, mál neytendanna.

Ég sé ekki, hvað sem líður stórum orðum í framsögu og e. t. v. einnig að einhverju leyti ógætilegum orðum í grg., annað en frvgr. sjálf sé mjög réttilega orðuð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Skylt er samsölustjórn að heimila matvöruverzlunum, sem um það sækja, sölu og dreifingu framangreindrar mjólkurvöru, enda sé þeim almennum skilyrðum fullnægt, sem samsölustjórn ákveður um aðbúnað, greiðslufyrirkomulag og meðferð mjólkurvöru í víðkomandi verzlun.“

Að öðrum kosti fæst ekki leyfið. Þau skilyrði skulu vera ákveðin með reglugerð, samþykki hlutaðeigandi heilbrigðisyfirvalda skal og liggja fyrir. Ef þarna þykir eitthvað á skorta um orðalag lagagreinarinnar, þannig að öllum öryggisráðstöfunum sé ekki fullnægt að dómi samsölustjórnarinnar sjálfrar, þá verður ekki leyfið veitt.

Ég sé ekki, að þetta gangi á nokkurn hátt lengra en svo að samsölustjórn megi vel við una. Málið er í hennar höndum eftir sem áður, og hún á að vera dómarinn sjálf um fullnægjandi öryggiskröfur á allan hátt. Ég held, að þarna sé því miður um of mikla stífni að ræða af hendi samsölustjórnarinnar, ef þetta þykja nokkrir afar kostir. En hér á að taka tillit til sjónarmiða neytendanna og verða við þeim, að svo miklu leyti sem hægt er að gera það án nokkurra afar kosta. Þetta er mín afstaða til þessa máls, og ég tel, að samsölustjórnin sýni það bara enn betur, að hún sé verki sínu vaxin, ef hún getur fallizt á að gera þær breytingar, sem farið er fram á í þessu frv. — Ég styð þetta frv.