24.04.1972
Neðri deild: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (3153)

242. mál, heilbrigðisþjónusta

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. ráðh., skipaði fyrrv. heilbrmrh., Eggert G. Þorsteinsson, nefnd í aprílmánuði 1970 til að framkvæma endurskoðun á ýmsum þáttum heilbrigðismálalöggjafar innar með það fyrir augum að bæta heilbrigðisþjónustu í landinu. Eggert G. Þorsteinsson hafði þannig forustu um undirbúning að samningu frv. að nýrri heilbrigðismálalöggjöf. Ég fagna, að frv. það, sem hér liggur fyrir, er nú fram komið. Í 1. gr. þess segir, að allir landsmenn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.

Í grg. segir enn fremur, að í þessari almennu stefnuyfirlýsingu felist eitt af veigamestu nýmælum frv. Ég get nú ekki séð, að í því út af fyrir sig felist nýmæli. Flestir sanngjarnir menn held ég, að hljóti að viðurkenna, að það sé einmitt eitt af því, sem fyrrv. ríkisstj. hafa verið að reyna að gera í heilbrigðismálum, þ. e. að þróa þessi mál í þá átt, að landsmenn geti átt kost á eins fullkominni heilbrigðisþjónustu og tök eru á að veita hverju sinni, en sjálfsagt tekizt misjafnlega, eins og gengur. Það er ekkert vafamál, að margt í þessu frv. er til bóta og horfir í rétta átt, þótt annað kunni að orka tvímælis, eins og gengur. En áður en ég drep á nokkur einstök efnisatriði frv., vil ég vekja athygli á afar uggvænlegri þróun, sem átt hefur sér stað í okkar þjóðfélagi undanfarið og sem mér sýnist, að muni taka stökkbreytingum til hins verra í tíð núv. hæstv. ríkisstj., ef dæma skal af því frv., sem hér er til umr.

Sú var tíðin, að baráttumenn í verkalýðshreyfingunni og í stjórnmálum höfðu ríka ástæðu til þess að ráðast gegn því ranglæti, sem fólst í auðsöfnun atvinnurekendavaldsins, sem barðist hatrammlega gegn sanngjörnum kröfum verkafólks til mannsæmandi lífskjara. Setti þessi þáttur sterkan svip á stjórnmálastarfsemi margra vinstri manna. Nú er aftur á móti sjaldan talað um útgerðarauðvald, af því að það er ekki til í þeirri mynd, sem áður þekktist. Og um annað atvinnurekendaauðvald er einnig lítið talað nú til dags í samanburði við það, sem algengt var áður fyrr. Þegar alþýðuhreyfingin á Íslandi háði hvað harðasta baráttu við útgerðar og atvinnurekendaauðvaldið, var þetta vald ríki í ríkinu. Milli þess og almennings var breitt bil, efnalega og á öðrum sviðum. Á þessu hefur sem betur fer orðið mikil breyting til batnaðar. Það er skoðun margra nú til dags, að í hraðri mótun og uppsiglingu sé ný sérréttindastétt í okkar þjóðfélagi, stétt, sem sumir kalla nýtt auðvald, sem smám saman komi til með að skipa svipaðan sess í efnalegu tilliti og einnig á ýmsan annan hátt gagnvart öllum almenningi og atvinnurekendaauðvaldíð í gamla daga. Það sé að verða eins konar ríki í ríkinu, sem jafnvel stjórnvöld í landinu verði að beygja sig fyrir.

Það, sem hér er átt við, eru langskólagengnir sérfræðingar á nokkrum sviðum. Enginn skilji orð mín svo að ég sé með þessu að gera lítið úr starfi slíkra manna, fjarri fer því. Þeir hafa vissulega mikilsverðu hlutverki að gegna, og þeim ber að launa fyrir það, sem þeir vinna þjóðfélaginu, með hliðsjón af þeirra langskólanámi. En mönnum blöskrar, hversu laun og önnur hlunnindi þeirra virðast úr öllu samhengi við það, sem gerist og gengur hjá öðrum þjóðfélagsþegnum. Auðvitað gildir þetta, sem ég hef hér sagt, ekki um allar stéttir langskólagenginna sérfræðinga, síður en svo. En það eru vissar stéttir slíkra manna, að mönnum blöskrar það gjald, sem allur almenningur verður að greiða þeim fyrir þá þjónustu, sem þeir láta fólki í té.

Það frv., sem hér er til umr., ber þess ótvíræð merki, að núv. hæstv. ríkisstj. lætur sér þessa óheillaþróun í léttu rúmi liggja og virðist líta á það skrið, sem nú á sér stað í þjóðfélagi voru, í átt til myndunar hinnar nýju stéttar, nýrrar forréttindastéttar, með velþóknun, ef dæma má af frv. Þar er nefnilega einni af forréttindastéttunum boðið upp á slík kjör, að algert einsdæmi er hjá öðrum opinberum starfsmönnum. Í frv. er gert ráð fyrir, að sumir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar fái embættisbústað hjá ríkinu, eigi rétt á staðaruppbót, sem getur, ef að líkum lætur, numið háum fjárupphæðum; geti farið í sex vikna leyfi annað hvert ár á fullum launum á kostnað ríkisins út um allan heim, hvert á land sem er, býst ég við. Það þarf bara að kallast námsferð eða ferð til rannsóknar starfa. Að sjálfsögðu er þetta til viðbótar venjulegu sumarleyfi. Einnig geta þeir sótt læknaþing út í lönd á kostnað ríkisins. Öll ferðalög ýmissa starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar, ekki aðeins héraðslækna, skulu vera þeim að kostnaðarlausu, nema um einkaferðalög sé að ræða. Þá verði þeir á bílakostnaðarsamningi vegna starfsins samkv. frv., og í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir, að ríkissjóði sé gert skylt að bjóða fram námsstyrki til lækna og hjúkrunarkvenna til að afla sérmenntunar, sem skuli nægja fyrir skólagjöldum og dvalarkostnaði erlendis í eitt ár. Og svo til viðbótar taka þeir læknar, sem sinna læknisstörfum, vænar fjárfúlgur, ef að líkum lætur, í greiðslur frá sjúklingum og sjúkrasamlögum eða ríkissjóði, sé um sjúkrahúslækna að ræða.

Ýmsir munu nú segja e. t. v., að þessi sér réttindi og hlunnindi, sem ég hef hér talið upp, séu nú ekki öll ný af nálinni fyrir þá forréttindastétt, sem hér á hlut að máli, og það er rétt. En hér er um að ræða margfalt betri kjör en aðrir opinberir starfsmenn eiga við að búa, og ég spyr: Hvar endar þessi þróun? Vissulega er ágætt að geta gert vel við hina langskólagengnu sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum, ef það kæmi ekki verulega við pyngju þeirra, sem minnst hafa auraráðin. En það eru einmitt þeir, — það fólk, — sem þetta kemur verst við, og þess vegna þarf að sporna af alefli gegn þessari óheillaþróun.

Því er sjálfsagt svarað til, að óhjákvæmilegt sé að láta undan kröfum lækna um hlunnindi og launakjör, að öðrum kosti hverfi þeir af landi brott meira en orðið er. En hvað hafa íslenzk stjórnarvöld gert til að Háskóli Íslands snúi sér að því að mennta og útskrifa læknaefni líkt og gert er sums staðar erlendis, eftir því, sem mér er tjáð, með það fyrir augum, að þeir geti eftir þriggja eða fjögurra ára nám sinnt almennum heimilislækningum úti um landið? Slíkir læknar yrðu kannske ekki jafn sprenglærðir og þeir, sem nú útskrifast úr læknadeild Háskóla Íslands. En þeir ættu að verulegu leyti að geta leyst úr þeim vanda, sem við er að etja vegna læknaskorts víða, eins og sams konar læknar gera með ágætis árangri annars staðar, eftir því sem bezt er vitað. Eða er það kannske ætlun hæstv. ráðh., að læknadeild Háskóla Íslands haldi áfram að vera meira eða minna lokuð stofnun, eins og hún er í dag, sem miðar starfsemi sína fyrst og fremst við það, að því er virðist, að útskrifa læknaefni, sem stefna að því að verða sérfræðingar í hinum ýmsu læknisgreinum og sem síðan að stórum hluta taka upp störf erlendis, af því kannske að ekki er atvinna fyrir allan sérfræðingaskarann á Íslandi? Ef hæstv. ríkisstj. lætur viðgangast, að læknadeild Háskólans haldi áfram þessari stefnu, þá er hætt við að mínum dómi, að sú óheillaþróun, sem ég hef hér gert að umtalsefni, haldi áfram.

Ég mun ekki ræða þetta frv., sem hér er til umr., í einstökum atriðum, heldur aðeins drepa á örfá atriði. Það fyrsta, sem ég vildi gera að umtalsefni, er það, að eftirtektarvert er, að gert er ráð fyrir tveimur embættismönnum, ráðuneytisstjóra og landlækni, sem báðir heyri beint undir ráðh. og virðast eiga að fara með náskyld verkefni, en vera óháðir hvor öðrum. Það er erfitt að gera sér glögga grein fyrir verkaskiptingu þeirra á milli af lestri frv. Það væri æskilegt að heyra nánar um þetta atriði og þörf þessarar tvískiptingar.

Annað atriði, sem ég vildi minnast á, er það, að ég get ekki séð nauðsyn þess að binda í lögum, að ráðuneytisstjórinn í heilbr.- og trmrn. sé læknismenntaður. Ég get vel fallizt á, að heppilegt geti verið, að sá embættismaður hafi slíka menntun, en það er einnig hægt að hugsa sér það, að maður í því starfi sé t. d. sérmenntaður í stjórnsýslu, en undir þeim kringumstæðum get ég að sjálfsögðu fallizt á, að nauðsynlegt kynni að vera að hafa læknismenntaðan mann í öðru starfi í rn.

Samkv. 6. gr. frv. mun ein starfsdeild rn. sinna heilbrigðiseftirliti. Hvaða hlutverki mun rn. gegna í þeim málum gagnvart sveitarfélögum? Það er mér áhugi á að vita, ef hæstv. ráðh. vildi gera svo vel og upplýsa það. Mér er nefnilega ekki vel ljóst af lestri frv., hvernig þeim málum verði fyrir komið. Er gert ráð fyrir, að heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúar eigi inni í heilsugæzlustöðvum? Mér sýnist, að það gæti verið heppilegt, m. a. þar sem héraðslæknar eiga að hafa umsjón með störfum heilbrigðisfulltrúanna.

Í 7. gr. koma fram till. um skiptingu landsins í læknishéruð, og ég verð, eins og fleiri hv. þm. hér í d., að láta í ljós nokkra undrun mína yfir þeirri tillögugerð. Það er, eins og á hefur verið bent hér af öðrum hv. þm., gert ráð fyrir einum héraðslækni á Reykjanessvæðinu og í Reykjavík, þar sem meira en helmingur þjóðarinnar býr. Það er auðvitað að mínum dómi algerlega fráleitt. Ég hefði haldið, að héraðslæknisembætti á þessu svæði væri það umfangsmikið starf, að ekki væri hægt að komast af með færri en tvo héraðslækna, enda þótt gengið sé út frá því, að héraðslæknarnir í svo stóru læknishéraði sem hér er um að ræða, hefðu aðstoðarfólk og aðstoðarlækna. Þá get ég nú ekki orða bundizt að benda á þá, ég vil segja smekkleysu, að kalla allt Reykjanessvæðið Reykjavíkurhérað. Það er að mínu viti algerlega óviðunandi. Sumum finnst nú kannske, að þetta sé algert hégómamál, en ég get fullvissað hv. þm. og hæstv. ráðh., að það er það alls ekki í augum fjölmargra.

22. gr. frv. fjallar um þá þjónustu, sem heilsugæzlustöð veitir, eftir því sem við á. Ég kem að því aftur, sem ég minntist á áðan, að ég sakna þess, að ekki skuli vera minnzt á heilbrigðiseftirlit og einnig þrifnaðarráðstafanir í sambandi við starfsemi heilsugæzlustöðva. Ég tel, að það gæti vel komið til greina, að heilbrigðiseftirlitið á hinum ýmsu stöðum fengi einmitt inni á slíkum stað, þar sem það heyrir undir héraðslæknana.

Það væri e. t. v. ástæða til þess að gera aths. við þær till. í frv., sem snúa að stjórnun heilsugæzlustöðva og sjúkrahúsa, þ. e. hvernig gert er ráð fyrir, að stjórnarnefndir þessara stofnana verði saman settar. En ég mun láta vera að gera það, því að þess háttar atriði eru þess eðlis, að sitt sýnist hverjum, hvernig bezt sé fyrir komið.

En að lokum vildi ég vekja athygli á því, eins og liggur í augum uppi, að stóra fjármuni þarf til að byggja upp þær stofnanir, sem frv. gerir ráð fyrir, og enn fremur til reksturs heilbrigðisþjónustunnar, eins og áætlað er. En það út af fyrir sig á ekki að vaxa mönnum í augum að mínu áliti, ef fyllstu hagsýni og skynsemi er gætt í uppbyggingu og rekstri og reynt verður að stemma stigu við ójöfnuði og óhófi. Að vísu er í mörg horn að líta hjá fjárveitingavaldinu og það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að skattpína fólkið í landinu. Nóg er að gert í því efni eins og er, meira en það. En þörf er stórra átaka í heilbrigðismálum landsmanna. Á því er enginn vafi. Þess vegna fagna ég því, að þetta frv. er fram komið, enda þótt ég hafi gert við það nokkrar aths.