30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (3449)

82. mál, atvinnu- og framkvæmdaáætlanir fyrir Austurlandskjördæmi

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt fjórum öðrum austanþingmönnum flutt till. til þál. um atvinnu– og framkvæmdaáætlanir fyrir Austurland. Till. er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj.:

1. Að láta gera atvinnumálaáætlun fyrir Austurlandskjördæmi.

2. Að láta undirbúa áætlun til langs tíma um opinberar framkvæmdir í Austurlandskjördæmi.

Verk þessi verði unnin í náinni samvinnu við Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi.“

Ég þarf ekki að hafa langa framsögu með þessari till. Ég vil þó vekja athygli á því, að það er alveg fyrirsjáanlegt að á Austurlandi hljóta að fara fram á næstu árum miklar aðgerðir til uppbyggingar í atvinnulífi. Aðstaða Austurlands í þessu efni er með nokkrum hætti sérstæð. Þegar síldarævintýrið gerðist hér á árunum, varð mikið umrót í atvinnulífi Austurlands, ör vöxtur á þeim kanti, er að síldinni sneri, en nokkur stöðnun á ýmsum öðrum sviðum. Það var í sjálfu sér mjög merkilegt. hversu tókst með hörðu viðbragði að koma í veg fyrir hrun og atvinnuleysi, þegar síldin þvarr. En þrátt fyrir þau hörðu viðbrögð, fer því víðs fjarri, að viðfangsefnið sé tæmt eða að nokkur varanleg lausn hafi náðst á atvinnumálum Austurlands á því tímabili, sem liðið er, síðan síldin hvarf af miðunum. Það má rétt aðeins minna á það, að frystihúsin eystra eru, eins og víðar á landinu, mjög vanbúin á ýmsan hátt og það þarf mikið átak til þess að koma þeim í viðunandi horf. Einnig er, þrátt fyrir þau bátakaup, sem átt hafa sér stað til Austurlandsins síðan síldin hvarf, mikið óunnið á því sviði að tryggja hráefnisöflun fyrir vinnslustöðvarnar. Og uppbygging annars iðnaðar en frumvinnslu úr sjófangi er aðeins á byrjunarstigi, þó að vissulega hafi verið hafizt þar handa um merkilega hluti bæði í skipasmíðum og í fleiri greinum. Eins má auðvitað minna á það, að á sviði landbúnaðarins eru mörg viðfangsefni í miðjum klíðum eða óleyst. Sláturhúsamálið er þar þýðingarmikið mál, eins og annars staðar á landinu. Austfirðingar hafa sín áform varðandi eflingu fóðurframleiðslunnar, varðandi kynbætur búfjárins o.s.frv. Það má minna á það í þessu sambandi, að talið er, að Austurland sé eini landshlutinn, sem enn þá er ekki ofbeittur. eins og nú er háttað ræktun lands og meðferð afrétta. Og það hvetur til þess að efla landbúnaðarframleiðslu í þessum landshluta, að svo er ástatt. Það er þess vegna alveg sýnilegt, eins og ég sagði í byrjun, að það hlýtur að verða varið æði miklu fé til atvinnuuppbyggingar í þessum landshluta á allra næstu árum. Það verður ekki komizt hjá því ef á að tryggja og efla byggðina, og ég held, að það blandist engum hugur um það, að það er þýðingarmikið frá þjóðhagslegu sjónarmiði að efla byggð og atvinnulíf á Austurlandi. Það er auðvelt og hefur raunar verið gert að sýna með tölum. að framleiðsla byggðanna á Austurlandi, t.d. sjóþorpanna, er mjög þýðingarmikill þáttur í þjóðarbúskapnum og ekki sízt ef miðað er við mannfjölda á þessu svæði. Og engin ástæða er til annars en ætla, að hún geti orðið það áfram, ef myndarlega verður staðið að þeirri uppbyggingu atvinnulífs, sem þar þarf að fara fram. Það varðar þess vegna miklu með tilliti til meðferðar fjármagnsins, að þarna sé skipulega að unnið.

Á Austfjörðum eru einnig á annan hátt nokkuð sérstakar aðstæður. Á Austfjörðum eru 13 þéttbýlisstaðir. Margir þeirra eru tiltölulega líkrar stærðar. Þetta svæði, Austfirðir, er ákaflega sundurskorið frá náttúrunnar hendi. Nú er mjög myndarlega að því unnið að tengja þessa staði með vegi, sem ætti að geta verið fær að vetri. Þessar landfræðilegu aðstæður og svo jafnframt það, að verið er að tengja staðina, kallar á skipulegar aðgerðir í uppbyggingu atvinnulífs. Í því sambandi þarf að gera hvort tveggja, að taka tillit til hinnar dreifðu byggðar, eins og hún hefur verið og er raunar enn, og svo einnig að leitast við að nýta þá möguleika til samstarfs og samhæfingar á milli nálægra byggða, sem vetrarfær vegur skapar. Og þessir staðhættir varða auðvitað einnig þróun opinberra framkvæmda margs háttar alveg eins og þróun atvinnulífsins. T.d. má benda á það, að ýmsar opinberar stofnanir veita mjög verulega atvinnu, þar sem þær hafa sinn rekstur, mjög verulega atvinnu, sem getur haft mikla þýðingu fyrir vöxt og viðgang jafnvel stærri staða, stærri byggðarheilda, en til er að dreifa á Austurlandi í dag. Einnig á því sviði er þess vegna þörf skipulegra vinnubragða. Við teljum það eðlilegt flm. þessarar till., að um slíka áætlanagerð og slíkt skipulag verði náið samstarf með ríkisvaldinu og heimaaðilum. Og við teljum það sjálfboðið, að sá aðili, sem kemur fram fyrir heimamenn við slíka áætlunargerð, verði Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Það er eitt með elztu landshlutasamtökunum og hefur í nokkuð mörg ár haft fastan starfsmann og rekið sína skrifstofu eystra.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vil aðeins árétta það, að það er skoðun okkar flm. þessarar till., að hér sé þörf skipulagslegra vinnubragða, bæði með tilliti til nýtingar fjármagnsins út af fyrir sig og með tilliti til aðstöðu byggðanna heima fyrir.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þessari till. verði vísað til allshn.