18.04.1972
Sameinað þing: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (3478)

12. mál, samgöngumál Vestmannaeyinga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þessi till., sem hér var til umr. fyrir alllöngu í vetur, hefur nú sætt gagngerðri meðferð í hv. fjvn. og er nú hér aftur í mjög breyttri mynd. Ég skal taka það strax fram, að ég get vel fellt mig við þessa afgreiðslu á till., að samgrn. fái það verkefni að skipa fimm manna nefnd, sem fjalli um, með hvaða hætti samgöngur við Vestmannaeyjar verði bezt tryggðar, og er þá ekki óeðlilegt, að nefnd, sem slíku verkefni á að sinna, sé skipuð með þeim hætti, sem hv. fjvn. leggur til, að þar séu fulltrúar frá bæjarstjórn Vestmannaeyja, frá Skipaútgerð ríkisins, sem annast gildan þátt þessara samgöngumála, og einnig fulltrúi frá flugmálastjórn og að formaður nefndarinnar sé frá samgrn., sem samvinnu hafi við þessa aðila. Ég get þannig vel fellt mig við afgreiðslu fjvn. á málinu. Hins vegar var till. upphaflega í allt öðru formi, og ég lét það strax í ljós í vetur, að fyrsti liður hennar ætti lítið erindi inn á Alþ., en hann var um það að fela Skipaútgerðinni að semja ferðaáætlun til einnar hafnar á landinu. Ef svo ætti að vera, að flutt væru þingmál um samningu ferðaáætlana á hinar ýmsu hafnir, þá væri þar um mál að ræða, sem hægt væri að leysa utan þings.

Eins og málið blasir við, hef ég sem sé ekkert við till. um afgreiðslu málsins að athuga. En um till. urðu upphaflega miklar umr., og margir hv. þm. tóku til máls, þ.á.m. 2. flm. till., hv. 5. þm. Sunnl., sem hér lauk máli sínu rétt áðan. Í ræðu sinni, sem var jómfrúræða hans, fór hann mjög hörðum orðum og óviðurkvæmilegum um starfsfólk samgrn. í sambandi við þetta mál, og kemst ég ekki hjá því að mótmæla þeim ásökunum og aðdróttunum, sem þá voru bornar fram í garð þessa fólks, sem hér hefur enga aðstöðu til þess að bera af sér sakir. Ég hlýt því að gera það fyrir þess hönd og skýra frá málsatvikum.

Í þessari ræðu nefndi þm. starfsmenn rn. skrifstofublækur, sem teldu sig þess umkomna að stinga áríðandi bréfum undir stól. Nokkur fleiri ærumeiðandi ummæli voru í ræðu þm. um þetta starfsfólk rn., þar sem talað var um menn í kerfinu, sem ekki hreyfðu sig nema undan þrýstingi að ofan, hversu mjög sem á þá væri gengið af þeim, sem þjónustunnar ættu að njóta. Hér var fólk sakað um það í rn. að hafa stungið áríðandi bréfi undir stól, og hvað er hæft í því? Bréfið, sem starfsmenn rn. áttu að hafa stungið undir stól, er myndrit af endurriti úr fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja, dags. 19. sept. 1971. Endurritið var dags. 21. sept. 1971, óundirritað, en frumrit þess, sem rn. barst ekki, - það var eingöngu ljósrit af þessari bókun hjá bæjarstjórn Vestmannaeyja, sem okkur barst,— var staðfest af bæjarritara. Engin grg. eða nokkur skýring fylgdi þessu ljósriti af samþykktinni og ekkert bréf til rn. Neðan á þessu plaggi stóð, að samrit af þessu hefði verið sent Skipaútgerð ríkisins. Nokkrum dögum eftir að við höfðum móttekið þetta myndrit skrifuðum við í rn. Skipaútgerð ríkisins og báðum um umsögn Skipaútgerðarinnar um málið. Svona liggur þetta fyrir. (Gripið fram í: Hvað sagði Skipaútgerðin?) Skipaútgerðin sendi umsögn um málið, og ég hygg, að hún hafi m.a. farið til fjvn.

Ég fæ ekki séð, að starfsfólk samgrn. sé í neinni sök í þessu máli, og mótmæli þess vegna þeim ærumeiðingum, sem þetta fjarstadda fólk varð fyrir. Ég tel það alveg óviðurkvæmilegt að draga hér inn í umr. á hv. Alþ. fjarstatt fólk, þar sem það hefur enga möguleika á að bera af sér sakir, og allra helzt mega sakirnar þá ekki vera ósannar og tilefnislausar með öllu.

Staðreyndir þessa máls eru þessar, og þær eru næsta einfaldar:

1. Það hefur ekkert bréf komið, sem kallazt getur því nafni, til samgrn. um þetta mál.

2. Myndritinu frá 21. sept. 1971 var alls ekki stungið undir stól.

3. Enda þótt sjálfsagt hafi þótt að hafa tíðar ferðir s.l. sumar milli Eyja og Þorlákshafnar vegna bifreiðaflutninga, gildir ekki það sama á vetrum, og ferðirnar milli lands og Eyja eru sannarlega í athugun hjá rn. En þessum sumarferðum var haldið áfram fram í des., og ég heyrði það nú á ræðu hv. þm., að hann telur ekki auðvelt að koma við vetrarferðum milli Eyja og Þorlákshafnar, enda er það næstum ógerningur. Málið var auk þess rætt af mér persónulega við hafnarstjórann í Þorlákshöfn, sem upplýsti ásamt öðrum, sem þá voru þar viðstaddir, m.a. ýmsir þm. Sunnl., að það væru slík ofurþrengsli í höfninni í Þorlákshöfn á vertíðinni, að það væri mjög mikið vandamál að koma þeim fiskibátum fyrir, sem eiga að njóta skjóls og starfsaðstöðu í höfninni. Taldi hann því mjög erfitt um vik að ætla Vestmannaeyjaskipinu pláss í höfninni, a.m.k. yfir vetrarmánuðina, og kemur þó fleira þar til, veðrátta og annað.

Ég tel, að málið sé sjálft fyllilega þess virði, að það sé athugað af fulltrúum Vestmanneyinga, Skipaútgerðar, flugmálastjórnar og samgrn., og í þeim farvegi er málið nú. En ég komst ekki hjá að bera blak af starfsfólki rn. að því er þetta mál snertir, sem ég tel algerlega ómaklega hafa orðið fyrir ærumeiðingum og árásum.