24.02.1972
Sameinað þing: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (3730)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Fyrst og fremst vil ég þakka hv. þingnefnd ágæta afgreiðslu þessa máls og góðar undirtektir. Ég get lýst mig fyllilega sammála þeirri brtt., sem n. flytur. Það var aldrei hugmynd okkar flm., að dregið yrði með þessu úr því fjármagni, sem veitt er til annarra íbúðarbygginga í landinu.

Ég get tekið undir það, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að vissuleg er það stefna okkar allra, að sem flestir eignist eigið húsnæði. En mér sýnist þó ekki með þessari till, í nokkurn máta frá því horfið, því að staðreyndin er sú, að leiguhúsnæði í mörgum af hinum smærri stöðum úti um land getur einmitt orðið mjög mikilvægur áfangi á þeirri braut. Við þekkjum það allir, sem þekkjum til þessara staða, að þar eru oft miklar sveiflur í atvinnulífi og töluverðar sveiflur í flutningi fólks til staðanna, og mjög oft hefur það verið einn erfiðasti þrándurinn í götu, þegar atvinnulíf hefur verið á uppleið, að ekki hefur verið tiltækt húsnæði þar fyrir ýmsa, sem þangað hafa viljað flytja, en treysta sér af eðlilegum ástæðum ekki til þess að ganga þegar í eigin íbúðarhúsabyggingu. Þessi till. er fyrst og fremst hugsuð til þess að brúa þetta bil, og þannig, eins og ég sagði, sýnist mér, að hún gæti orðið mjög mikilvægur áfangi einmitt í þeirri stefnu okkar Íslendinga, að sem flestir eigi sitt eigið húsnæði.

Ég get tekið undir það, að vitanlega á þetta við um allar sveitir og staði þessa lands, eins og fram kemur í till., en líklega er það þó svo, að í sjávarþorpunum, þar sem atvinnulíf er meira með þeim hætti, sem ég lýsti, kreppir skórinn nokkuð meira að.

Ég vil út af því, sem hér hefur komið fram um Byggðasjóð, segja örfá orð. Ég er einnig sammála því, sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, að vitanlega er það fyrst og fremst verkefni húsnæðismálastjórnar að beina fjármagni í byggingu íbúðarhúsa hér á landi. En það er þó staðreynd, að það er meginverkefni Byggðasjóðs að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og ég fyrir mitt leyti vil ekki varpa frá mér þeirri hugmynd, að vel geti komið til greina, að Byggðasjóður veiti eitthvert fjármagn til þeirra byggðarlaga, sem verst eru á vegi stödd að þessu leyti og þurfa sérstaka aðstoð umfram það, sem húsnæðismálastjórn og löggjöfin gerir ráð fyrir.

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega undirstrika það, sem kom fram hér áðan hjá hv. 1. þm. Vesturl. Þar talar maður, sem hefur mjög ríka reynslu á þessu sviði, og lýsti því, hvernig ástatt getur verið á smærri stöðum, þar sem vilji er jafnvel til að nota sér gildandi húsnæðismálalöggjöf, en fjárhagsgeta hins vegar ekki nægileg, því að lögin gera ekki ráð fyrir þeirri aðstoð, sem þyrfti að fást.

Ég get nefnt sem dæmi lítinn stað, þar sem kyrrstaða hefur verið lengi, Hólmavík. Þar hefur lítið verið byggt árum saman og atvinnulíf verið mjög erfitt. Nú er það heldur skárra. Rækjan hefur verið góð, og aflinn virðist vera að glæðast. Nú bregður svo við, að þangað vilja flytja nokkrir menn og taka þar upp sína atvinnu og búsetu. Tíu manns hafa lýst þeim vilja sínum að eignast verkamannabústaði. Sótt hefur verið um aðstoð húsnæðismálastjórnar til þess að byggja helzt átta bústaði, en lögin eru þannig úr garði gerð, að framlag úr verkamannabústaðasjóði getur ekki orðið meira en það, sem gert er ráð fyrir, að komi á móti heima fyrir, og það er bundið, eins og allir hv. þm. vita, við ákveðna krónutölu fyrir hvern íbúa. Þessi litli staður getur því ekki, þó að hann jafnvel vildi, lagt meira fjármagn af eigin fé til þessara framkvæmda en lögin gera ráð fyrir. Hins vegar er það lífsspursmál fyrir þennan stað, þegar loksins kemur þarna nokkur vaxtarneisti, að fá aðstoð til þess að þessi neisti fái nú að vaxa og staðurinn fái að njóta þess vaxtar, sem honum e.t.v. býðst nú að þessu leyti.

Ég gæti vel hugsað mér, að Byggðasjóður hlypi undir bagga í slíku tilfelli, og sýnist mér, að það sé vissuleg atriði, sem þyrfti að kanna.

Ég ætla ekki að hafa þetta fleiri orð, en aðeins endurtaka þakklæti mitt og flm. til hv. n., og sömuleiðis vil ég þakka þeim, sem hér hafa talað, fyrir góðar undirtektir við þetta mál.