16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (3757)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Það er að bera í bakkafullan lækinn að ræða þetta mál miklu meira. Mér eru það nokkur vonbrigði, að ekki hefur tekizt að skýra málið svo, að tekizt hafi að sannfæra hæstv. félmrh. um ágæti þessarar till., og má segja, að sannist hið fornkveðna, með svona smávægilega breyttu orðalagi mínu, að það sé erfitt að kenna gömlum manni að sitja, en ég ætla aðeins að freista þess að minnast á örfá atriði. Það er í fyrsta lagi, að við síðustu umr. um þessi mál gat ég þess sérstaklega, að í 8. gr. húsnæðismálalöggjafarinnar væri ætlazt til þess, að lána mætti út á leiguíbúðir, en við teldum það ekki fullnægjandi. Ég ræddi það sérstaklega og gat einnig um þá reglugerð, sem um það gildir, og þetta er þegar komið fram í umr.

Hæstv. ráðh. finnur að því, að í till. er gert ráð fyrir því að gera fjárhagslega kleift að byggja og reka leiguhúsnæði. Ég vil aðeins skýra það, að í mínum huga a.m.k., og ég hygg annarra flm., er það svo, að rekstur leiguhúsnæðis er að sjálfsögðu mjög og fyrst og fremst háður því, með hvaða kjörum fjármagn er veitt til byggingarinnar, því að það eru vextir af byggingarkostnaði, afborgun lána, sem þarna eru langsamlega erfiðastir liðir, og mér þykir leitt, ef þetta má misskilja, en að sjálfsögðu var ekki ætlunin, að lánað yrði áfram til slíkra leiguíbúða vegna rekstursins. Ég viðurkenni, að þetta er ekki nógu skýrt fram tekið í till., en við þetta var átt, að það væri með þeim kjörum, að reksturinn yrði bærilegur einnig.

Hæstv. ráðh. taldi, að um misrétti gæti orðið að ræða, þar sem svo sérstaklega hagstæð lán væru ætluð til þessara leiguíbúða. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að þegar í dag er gert ráð fyrir því að veita lán með mjög hagstæðum kjörum og miklu meiri lán en almennt er t.d. til verkamannabústaða og til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði, og er það vel, ég fagna því, þannig að þetta mál hér er ekki einsdæmi. Það eru þarna fordæmi um slík sérstök lánakjör. Auk þess tel ég og við flm., að hér sé um svo mikið byggðamál að ræða, að það falli raunar undir vilja hæstv. Alþingis að veita fjármagn með sérstökum kjörum, þar sem ástæða er til, af byggðaástæðum.

Brtt. hefur hv. frsm. allshn. rætt, og ætla ég ekki að fjalla um þær. Þar er m.a. gengið til móts við það sjónarmið, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. taldi, að í grg. væri til þess ætlazt, að fullnægja ætti húsnæðisþörf þeirra, sem til viðkomandi staða flytja, en ég vil vekja athygli á því, að setningin heldur áfram og þar er grg. „eða hefja þar búskap og þátttöku í atvinnulífi“. Vitanlega er þar alveg eins átt við heimamenn, sem hefja búskap á viðkomandi stað og þátttöku í atvinnulífi. Þetta á bæði við heimamenn og sömuleiðis þá, sem til viðkomandi staða vilja flytjast. Ég sé að sjálfsögðu enga ástæðu til að gera þar greinarmun á.

Ég vil að lokum lýsa ánægju minni með það, að hæstv. ráðh. viðurkennir nú þörfina og telur, að hún muni koma í ljós í þeirri athugun, sem þarna er lagt til í 1. lið, að gerð verði. Það er sannfæring mín, að þessari þörf sé hægt að fullnægja. Ég geri ráð fyrir því, að fyrir Alþ. verði lagt frv. um útvegun fjármagns og þar komi eflaust fram fleiri atriði í þessu sambandi. Við höfum fullnægt meiri þörf og leyst meiri vanda en þennan. Ég treysti því, að svo verði einnig í þetta skipti.