09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (3802)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Það er rétt, að vegáætlun er nokkuð seint fram komin núna, eins og hæstv. ráðh. minntist á. Hitt er einnig staðreynd, að eftir fáu hefur verið beðið af meiri eftirvæntingu víða um land, enda snertir hún lífæð fjölmargra og flestra staða. Ég ætla nú við þessa umr. að takmarka mál mitt og aðeins minnast á fáein atriði.

Ég vil í upphafi segja það, að ég fagna þeirri nýbreytni, sem hér kemur fram, að taka saman í þessari þál. til vegáætlunar sem flest þau atriði eða öll, sem vegamál varða, eða allar framkvæmdir á vegamálum og veita þannig heillegra yfirlit en áður hefur legið fyrir. En í þessu sambandi virðist jafnframt ljóst, að nauðsynlegra verður að gera sér enn gleggri grein fyrir því, hvernig við viljum, að framkvæmdum í vegamálum sé háttað á næstu árum. Það má þá gera ráð fyrir því, að erfiðara verði að fá inn nýjar framkvæmdir, t.d. með sérstökum svæðisáætlunum.

Ég get ekki gert að því fyrir mitt leyti, að sú spurning vaknar hjá mér, hvort skipting, sem kemur fram í kaflanum 2.3, á milli hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta sé að öllu leyti eðlileg. Ég fagna því átaki, sem hefur verið gert hér á Suðvesturlandi í hraðbrautum, en engu að síður sýnist mér það sanngjarnt sjónarmið, að rétt sé að gera alla þjóðvegi um landið a.m.k. akfæra, áður en nálægt því helmingi fjármagns, sem varið er til nýrra þjóðvega, er varið til hraðbrauta. Ég held, að þetta hljóti að vera eðlileg krafa og ósk þess fólks, sem býr við það vegakerfi, sem víða er þannig, að vegir eru alls ekki lagðir eða ó akfærir eða illa akfærir, þótt í þjóðvegatölu séu komnir. Mér sýnist því full ástæða til þess að hugleiða þetta mál mjög vandlega, þegar gerð er fjögurra ára vegáætlun. .

En fyrst og fremst vildi ég ræða um tvö atriði. Annað er skipting þess fjármagns, sem til skiptingar er og talið er til þjóðbrauta og landsbrauta. Ég tek undir það, sem kom fram hér áðan hjá hv. 8. landsk. þm., að það þurfi að liggja til grundvallar nokkuð góðar upplýsingar til skiptingar á þessu fjármagni. Ég fyrir mitt leyti hefði talið eðlilegast, að fyrir lægju með þessari þáltill. góðar upplýsingar um ástand vega. Hvernig er ástand þjóðvega í hinum ýmsu kjördæmum landsins? Í grg. er að finna nokkrar upplýsingar um það, en þær eru langt frá því að vera fullnægjandi, þar sem þjóðbrautir og landsbrautir eru upp taldar á bls. 33 og greint frá, hvað sé akfært af þessum brautum og hvað ekki akfært. Ljóst er, að þetta þarf að vera miklu ítarlegra. Þarna eru mörg stig á milli, mikið sem þarf að endurbyggja, og raunar mikil spurning, hvenær nefnt er akfært og hvenær ekki. Raunar sýnist mér, að einna gleggstar upplýsingar um þetta komi fram á bls. 35, þar sem taldar eru óbrúaðar ár á þjóðvegum. Það getur varla talizt akfært í dag. Þar kemur fram, að langsamlega hæst í þessari tölu, svo að í sérflokki eru, eru tvö kjördæmi þessa lands, Vestfjarðakjördæmi með 19 ógerðar brýr 4—10 metra og færri lengri brýr og Austfirðir með 20 brýr, sem eru ógerðar, eins og hv. þm. geta séð og ég ætla ekki að fara að lesa hér upp. En það er ljóst t.d. af þessari einu töflu, að tvö kjördæmi eru þannig í algerum sérflokki og rík ástæða til þess að kanna langtum nánar en gert hefur verið, hvort ekki eigi að gera sérstakt átak í þessum tveimur kjördæmum til að koma þeim á eitthvert plan, sem er álíka og er í öðrum kjördæmum landsins.

Réttilega hefur verið minnzt á það, að Vestfjarðaáætlun svo nefnd var í framkvæmd fyrir örfáum árum, og nú er Austfjarðaáætlun í framkvæmd. Ég vil vænta þess, að Austfjarðaáætlun bæti töluvert úr fyrir Austfirðina. Hins vegar virðast margir vera þeirrar skoðunar, að vegamál á Vestfjörðum séu í hinu bezta ástandi eftir svonefnda Vestfjarðaáætlun, en eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. áðan, þá er víðsfjarri því, að svo sé, og gerir það þetta mál enn þá alvarlegra, að svo margar brýr skuli vera ógerðar eða ár óbrúaðar eftir Vestfjarðaáætlun.

Það var spurt að því áðan úr ritarasæti, hvar Vestfjarðaáætlun væri. Ég flutti nú nokkuð ítarlega ræðu um þetta um daginn í sambandi við þáltill. okkar þm. Vestf. og þá kom hv. 5. þm. Vestf. með þær upplýsingar, að Vestfjarðaáætlun mundi vera í skjalasafni utanrrn. Ég hef því miður ekki haft tíma til að láta leita að henni þar, en þóttu mér það góðar og gagnlegar upplýsingar.

Staðreyndin er vitanlega sú, að það er gífurlegt átak eftir í vegamálum Vestfjarða, sem ekki var ætlunin að ljúka með þeim þætti Vestfjarðaáætlunar, sem tekinn var fyrir, fyrir fáeinum árum. En þegar gerð er fjögurra ára áætlun, þá er það mikið alvörumál, að slíkir hlutir gleymist ekki og því miður er um marga þessa hluti í vegamálum Vestfjarða þannig ástatt, að þeir eru alls ekki áætlaðir. Það eru vegaframkvæmdir, sem taldar eru mjög líklegar og eðlilegar, yfir Dýrafjörð og yfir fleiri firði og sömuleiðis Vestfjarðavegur allur um Barðastrandarsýsluna, þar sem enn er eftir að gera, þá nauðsynlegustu úttekt, sem leggja verður til grundvallar við áætlunargerð. Ég fyrir mitt leyti mundi leggja á það ríka áherzlu, að verulegt fjármagn kæmi inn í þessu skyni, þegar þessi vegáætlun verður tekin til endurskoðunar eftir tvö ár.

En einn er sá vegur á Vestfjörðum, sem hefur verið allvel skoðaður og hafin er framkvæmd við einmitt með lánsfé. Það er hinn svo nefndi Djúpvegur. Það fékkst lán til Djúpvegar í fyrra, að upphæð 10 millj. kr. til viðbótar því fé, sem var á vegáætlun. Þá var unnið þar fyrir um 15—16 millj. kr. Til þess að ljúka þeim kafla Djúpvegar að Ögri, þar sem enginn vegur er nú, er áætlað, að þurfi um 100 millj. kr. Sýnist mér lágmark að gera þá kröfu, að haldið verði áfram þeirri framkvæmd, sem hafin var í fyrra með lánsfé, og lánsheimild veitt undir kaflanum: „Til nýrra þjóðvega,“ til þess að ljúka þessum vegarkafla að Ögri á þremur árum. Ég stóð því fyrst og fremst upp til þess að leggja á það ríka áherzlu við hv. fjvn., að hún skoði þetta vel. Alþ. samþykkti í fyrra að hefja þessa framkvæmd með lánsfé og Alþ. ber að standa við þá ákvörðun sína að halda framkvæmdinni áfram. Að öðrum kosti var skakkt að fara að setja þetta fé í Djúpveg á síðasta ári. Það kemur engum að góðu eins og er. Ég legg því ríka áherzlu á, að þetta verði athugað og á þessum árum, árunum 1973 og 1974, tekin inn lánsheimild til þess að ljúka Djúpvegi á þremur árum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vil taka undir það að lokum með hæstv. ráðh., að það er mikil nauðsyn að auka viðhaldsfé, en ég vil í því sambandi varpa fram þeirri spurningu, hvort ekki sé eðlilegt, að hið háa Alþingi líti nokkru nánar á ráðstöfun þessa fjár. Það hefur yfirleitt ekki verið gert. Það væri fróðlegt að fá skýrslu um ástand vega og til hvers þetta hrekkur. Við allir, sem ökum um íslenzka þjóðvegi, sjáum að þar er miklu ábótavant. Hvað telur vegamálaskrifstofan, að þurfi til þess að halda íslenzkum vegum í sæmilegu og viðunandi horfi, og hvernig er skipting þessa fjármagns á hin ýmsu kjördæmi, hina ýmsu landshluta? Ef til vill er þar einn þáttur, sem hv. þm. þyrftu að líta á.