09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í D-deild Alþingistíðinda. (3804)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður í sambandi við þessa till. um vegáætlun fyrir árin 1972—1975, sérstaklega vegna þess, að ég á sæti í þeirri n., sem fjallar um vegáætlunina, fjvn., og þar gefst tækifæri og hefur gefizt undanfarna daga til þess að ræða þessa vegáætlun og síðar um skiptingu á því fé, sem hér er um að ræða.

Þegar við lítum á þessa vegáætlun, er hér reiknað með, að tekjur séu 1.745 millj. á þessu ári, 1972, en ef við berum áætlunina saman við tekjuáætlun vegáætlunarinnar frá árinu 1971—1972, eins og hún liggur hér fyrir, var tekjuáætlun eða tekjupóstar vegáætlunarinnar, bæði benzín gjöld, þungaskattur, gúmmígjald og ríkisframlag, 901.8 millj. kr. á árinu 1971, en er nú áætlað 1.140.8 millj. kr. á árinu 1972. Ég fyrir mitt leyti tel þá áætlun, sem hér liggur fyrir, í sambandi við tekjurnar mjög varhugaverða, sérstaklega hvað snertir benzín skattinn og þá einnig um leið bæði þungaskatt og gúmmígjald. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum. að tekjuáætlun hefur ekki staðizt í reynd, og ég held, að það sama komi til með að eiga sér stað einnig hvað snertir tekjuáætlun fyrir þetta ár, en samkv. áætlun á benzín gjaldið að hækka um 67 millj. kr. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum, að oftast hefur orðið halli á vegáætlun, sem hefur nokkuð verið ræddur hér, bæði af hæstv. ráðh. og hv. 1. þm. Sunnl. Út af þeim halla, sem orðið hefur á vegáætlun og auðvitað er mjög illt að ráða við, bæði á undanförnum árum og sömuleiðis í framtíðinni, þá hefur það komið í ljós, að reynt hefur verið að láta þennan halla ekki verða mjög mikinn ógreiddan, eins og hv. 1. þm. Sunnl. benti réttilega á, en hann er á þessum tveimur árum, árunum 1970 og 1971, 137 millj. kr. Við afgreiðslu áætlunarinnar fyrir árið 1970 var tekin upp greiðsla á halla ársins 1969, og ef það sama hefði verið viðhaft hér nú, þá hefði auðvitað átt að greiða hallann á árinu 1970, en velta eðlilega áfram hallanum á árinu 1971. Það er rétt hjá hæstv. samgrh., að það væri ekki svo erfitt að velta þessum halla á undan sér, ef það væri nú öruggt og tryggt, að við mundum að lokum afgreiða vegáætlun, sem fengi staðizt með öllu. En því er ekki að heilsa með þessari tekjuáætlun, sem hér liggur fyrir.

Sömuleiðis má eiginlega segja það, að þó að áætlunin geri að nafninu til ráð fyrir að greiða 17 millj. upp í 137 millj. kr. greiðsluhalla, þá er í raun og veru verið að afgreiða þessa till., ef hún yrði afgreidd óbreytt, með 33 millj. kr. greiðsluhalla, því að 50 millj. kr. sérstök lánsfjáröflun, eins og fram kemur í tekjulið till., er ekki til neinnar ákveðinnar framkvæmdar, heldur er því fyrst og fremst tyllt upp í þessa áætlun til þess að láta enda mætast, til þess að tekjur og gjöld mætist, svo að það má segja, að með slíkri lánsfjáröflun vanti 33 millj. kr. upp á, ef hún væri ekki inni.

Það er auðvitað ekki nýtt, að tekin séu stórlán til vegagerðar, og það hefur verið gert á undanförnum árum. bæði til vegagerðar úti um land og til margumræddra hraðbrautaframkvæmda, og nú á þessu ári er mjög mikið um aukið lánsfé að ræða og sérstaklega þó skuldbindingar um enn meira lánsfé á síðari árum þessarar vegáætlunar. Hins vegar er eðlilegt, að það komi í ljós, að menn eru ekki ánægðir með skiptinguna á þessu fé. Ég verð nú að segja það eins og er, að mér finnst mjög eðlilegt, að gengið hafi verið til sérstakrar áætlunar um að bæta vegakerfi þess landshluta, sem einna verst hefur orðið úti, Austfjarða, en þar var áætlað á síðastliðnu ári, að yrði varið með sérstakri lánsfjárheimild 300 millj. kr., þar af 60 millj. kr. á árinu 1971, sem er með þeirri tölu, sem hér er inni í þál., komin í 360 millj. kr. Sömuleiðis verð ég að segja, að það er mjög eðlilegt, að því hafi verið fylgt mjög eftir að hraða vegagerð um Skeiðarársand, og það er eðlilegt, að sú vegagerð sé tekin inn í þessa vegáætlun.

Ég verð að segja það, að ég er mjög ánægður með þá uppsetningu, sem er á vegáætluninni, að taka allar vegaframkvæmdir og allt lánsfé til þeirra, þannig að við höfum það á einum og sama stað. Það tel ég til bóta frá því sem verið hefur. Þegar talað er um fjárframlög ríkisins, er oft nefnd talan 47 millj. kr., sem við erum búin að heyra ótal sinnum. Er þá borið saman við 100 millj. kr. á fjárlögum fyrir 1972 og svo tekjuöflun með sérstökum skatti, 100 millj. kr., nú á þessu ári. En þá verðum við einnig að hafa í huga, ef við viljum vera sanngjarnir og meta þessi framlög á réttan hátt, að ríkið tók á sig öll lán, sem höfðu verið tekin til vegagerðar til ársloka 1969, á árinu 1971. Það væri því fróðlegt í raun og veru að fá það upp, hve mikið ríkissjóður hefur tekið á sig í sambandi við þessi lán á liðnum árum. Mér hefði fundizt, að það hefði mjög gjarnan mátt gera meira og ganga lengra í þá átt, að ríkissjóður héldi þessari stefnu áfram algjörlega, þó að hann hafi gert nokkuð í þeim efnum.

Það hefur verið minnzt á eina áætlun, sem er nú búið að minna æði oft á hér í sölum Alþ. á liðnum árum. en það er hin svo kallaða Vestfjarðaáætlun, sem tveir hv. þm., meira að segja annar ráðh., hæstv. samgrh., og 1. þm. Vestf. gerðu nokkuð að umræðuefni. Hv. 1. þm. Vestf. benti á, að þessa áætlun væri nú hvergi að finna nema í skjalageymslu utanrrn. og ég óska honum sérstaklega til hamingju með það, að hann skuli nú vera búinn að fá upplýsingar um það, hvar sá skápur er, sem þessi áætlun er geymd í. Því að ekki hefur nú hv. þm. haft svo litlar áhyggjur af þessari áætlun á undanförnum árum, svo að ég vona, að hæstv. utanrrh., sem er lipurmenni hið mesta, ljúki nú upp þessum skáp fyrir 1. þm. Vestf. og lofi honum að sjá þessa áætlun.

Hæstv. samgrh. sagði, að það væri líkt farið með þessa áætlun og með hús, sem væri byggt fyrst, en teiknað á eftir. Ég verð nú að segja, að það er kannske hægt að leyfa sér að bregða á leik endrum og eins og þá alveg sérstaklega, þegar menn eru í stjórnarandstöðu en þegar menn sitja í jafnvirðulegu sæti og ráðherrasæti, þá held ég, að það verði nú að meta og vega þessi mál frá nokkuð öðrum sjónarhóli og af nokkru meiri ábyrgð. Það er hægt að karpa á venjulegum þingmálafundum um þetta, en ég verð að segja, að ég fer nú að verða hálfleiður á því karpi. Sérstaklega fyrir þá, sem ókunnugir eru, vil ég benda á, að hin svo kallaða Vestfjarðaáætlun, sem náði yfir þrjá flokka samgangna, vegagerð, hafnagerðir og flugvelli og flugmál, tók ekki nema til hluta Vestfjarða. Var þessi áfangi þeirrar áætlunar ekki hugsaður nema til þessara hluta, m.ö.o. það átti að gera fullkomnari vegi á milli þéttbýlustu staða Vestfjarða. Sýslur eins og Strandasýsla, öll Austur-Barðastrandarsýsla og meginhluti Norður-Ísafjarðarsýslu voru utan við þessa áætlun, og það má segja, að hún hafi eingöngu verið í þeim vegaflokki, sem þjóðbrautir heita, að undanskildum veginum til Súgandafjarðar, sem er landsbraut. Þessari áætlun var lokið að fullu og öllu á sex árum að öðru leyti en því, að ólokið er smákafla í nánd við Ísafjörð, og horfið var frá, eins og hæstv. samgrh. gat réttilega um, jarðgöngum gegnum Breiðadalsheiði, en í þess stað voru gerðar miklar endurbætur á heiðinni sjálfri. Það má því segja, að stór hluti Vestfjarða hafi enga sérstaka fyrirgreiðslu fengið í vegamálum eða framkvæmd vegamála að öðru leyti en því, sem veitt er á vegáætlun hverju sinni, sem allir þm. eru sammála um, að hafi verið heldur litlar upphæðir, sem kannske eðlilegt er. Það er miklu fé varið til vegamála og hefur verið varið til vegamála, því að þarfirnar eru mjög ríkar.

Það er þó einn vegur, sem kostar mikið fé, sem hefur orðið utan við þessa vegáætlun, á sama tíma og Austfirðir og Norðurland er komið inn og Skeiðarársandur er tekinn með sem hringvegur. Þessi vegur er Djúpvegur. Þegar hann er kominn, skapast hringvegur um Vestfirði, en ég leyfi mér að halda því fram, að hringvegur sé ekki kominn um landið, á meðan hringvegur er ekki kominn um Vestfirði, því að hvort sem mönnum þykir það ljúft eða leitt, þá verða menn að sætta sig við það, að Vestfirðir tilheyra Íslandi, þó að mér fyndist gæta nokkurs trega hjá einum hv. þm. áðan, þegar hann sagði, að meira að segja væri hraðbraut á milli Ísafjarðar og Hnífsdals.

Ég vil segja það, að það hefur tíðkazt í fjvn. að fá fjárlagafrv. til meðferðar og sömuleiðis vegáætlun, áður en Sþ. hefur vísað því til n. Þetta hefur verið gert á undanförnum árum til þess að spara tíma, sérstaklega þegar þarf að hraða málum, og mér er bæði ljúft og skylt að segja frá því, að um leið og vegáætlunin var til prentuð, kallaði formaður fjvn. þegar saman fund í n. til þess að kynna áætlunina og ræða hana og væntanlega samþykkt hennar. Ég get líka sagt frá því í tilefni af ummælum eða brýningu hv. 1. þm. Vestf. að við erum tveir þm. frá Vestfjörðum í fjvn., og við létum ekki lengi undir höfuð leggjast að benda á það, hvað illa er farið með okkur í þessum efnum, og ég verð að segja það nm. í fjvn. almennt til mikils hróss, að þeir hafa tekið ákaflega vel þessari málaleitun og skilið það, að þessi vegagerð hefur orðið gersamlega út undan, og jafnframt skilið það, að það fé, sem þm. fá til skipta í hverju kjördæmi, verður aldrei mikið. Annaðhvort yrði það fé allt að fara í þennan eina veg eða það yrði að halda áfram með svipuðum hætti um fjárveitingu á vegáætlun og verið hefur. Þá mætti segja mér það, að ef þyrfti að grípa til þess, þá mundi taka upp undir 20 ár að ljúka þessum vegi, og ég hygg, að þm. Vestf. séu allir sammála um, að það komi aldrei til greina, að þeir muni nokkru sinni sætta sig við það, hvort sem menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þess vegna er það, að þegar mál eru kynnt, þá hafa þeir menn, sem hafa fjallað um málið, sérstaklega nm. í fjvn., þeir hafa séð það, að fyrir þessu er mjög illa séð. Þess vegna hafa þeir tekið mjög vel og drengilega á þessu máli, þó að engin endanleg niðurstaða liggi fyrir enn þá.

Mér þykir nú leitt, að hv. 1. þm. Vestf. tók hrapallega línufeil áðan í sambandi við óbrúaðar ár á þjóðvegum og sagði, að í Vestfjarðakjördæmi væru 19 ár óbrúaðar 4—10 m og sex brýr lengri en 10 m. Honum hefur orðið á þarna í messunni, því að þetta er eins og ástandið var 1. jan. 1969, en við höfum unnið mjög mikið á í þessu kjördæmi, sem ber sannarlega að þakka, því að 1. jan. 1972 eru þrjár brýr4—10 m óbrúaðar í Vestfjarðakjördæmi og fimm lengri en 10 m. Hann bætti því við, ég hefði nú ekki nefnt þetta, ef hann hefði ekki bætt því við — að Vestfjarðaáætlun hefði ekki séð fyrir miklum brúargerðum í kjördæminu. Menn verða bæði að líta á mannvirkin sjálf og sömuleiðis skýrslur, sem liggja fyrir, og þegar menn gera þetta svona í ró og næði og hleypidómalaust, þá komast þeir auðvitað að raun um það, að framkvæmdir hafa verið mjög miklar í þessu kjördæmi sem öðrum. Fyrst farið var að tala um óbrúaðar ár á annað borð, þá eru 95 óbrúaðar ár á þjóðvegum 1. jan. 1969, en 60 óbrúaðar ár 1. jan. 1972. Á sýsluvegum voru 1969 112 ár óbrúaðar, en nú er ekki eftir nema 71, svo að það hefur orðið í þessum efnum mjög ánægjuleg þróun, og ég vona, að þessi þróun haldi áfram. Við verðum auðvitað að sætta okkur við það Vestfirðingar, eins og allir aðrir landsmenn, að við getum ekki fengið allar framkvæmdir á einu eða tveim árum. Það verða auðvitað allir að sætta sig við það.

Ég vil svo að lokum benda á það, þó að ég hafi gert hér örfáar aths., að þegar við lítum á heildarfjárveitingar til vegamála, þá hygg ég, að þrátt fyrir þau brýnu verkefni, sem þar eru óleyst, þá höfum við tiltölulega betur séð fyrir fjárveitingum til vegamála en fjárveitingum til hafna í landinu, sem eru víðast hvar undirstaða atvinnurekstrar og þó sérstaklega og algjörlega undirstaða sjávarútvegsins.