18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (3817)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Á þskj. 921 hef ég leyft mér að flytja brtt. við brtt. fjvn. um vegáætlun fyrir árin 1972-1975 ásamt nokkrum þm. úr Reykjaneskjördæmi og þm. úr Suðurlandskjördæmi. Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál hér. Menn rekur minni til þess, að veggjald var fyrst tekið, þegar Reykjanesbraut var lokið. Menn gerðu sér grein fyrir því, þegar lagt var út í þá dýru framkvæmd á þeim tíma, og á það var bent af ýmsum, að hægt yrði að fjármagna þá framkvæmd m.a. með veggjaldi. Það datt þá nánast engum í hug, að innan örfárra ára yrði svo miklu fjármagni varið í hraðbrautir sem raun ber vitni nú á þessari vegáætlun og þeirri síðustu. Menn létu sér jafnvel detta í hug, að þetta yrði eini vegurinn um langan tíma, sem byggður yrði úr varanlegu efni.

Strax í upphafi lýstu þeir, sem um þennan veg fara, mikilli andstöðu við veggjaldið svo og ýmsir þeirra, sem sátu á Alþ., en þeir vildu þó ekki tefja fyrir framkvæmd málsins og létu þar við sitja. Alþ. veitti samhljóða samgrh. heimild í 95. gr. vegalaga til þess að leggja á veggjald, ef honum sýndist og talið væri rétt að gera. Þetta var hins vegar gert gegn miklum mótmælum. Frá þeim tíma, að veggjaldið var lagt á, má segja, að það hafi verið að lækka og þá í upphafi verið mótuð sú stefna, að veggjaldið skyldi með tímanum hverfa. Hefur það m.a. komið fram í því, að veggjaldið hefur ekki hækkað.

Það var strax í öndverðu gerð grein fyrir því, að veggjaldið mundi aldrei geta verið á þessum vegi einum, ef til þess kæmi, að aðrir vegir á landinu mundu gerðir úr svipuðu efni, þ.e. með varanlegu slitlagi. Þegar nú þannig er komið, að við horfum fram á, að slíkir vegir verða ekki aðeins hér í næsta nágrenni við Reykjavík, heldur víða um landið, sem betur fer, þá verður Alþ. að ákvarða það, hvort veggjald skuli áfram haft á þessum vegi eða hvort það skuli lagt niður.

Ég skil mætavel þá till., sem fjvn. leggur hér fram. Ég er að vísu ekki sammála fjvn., en að mínum dómi leggur hún till. fram meira til að gera þm. grein fyrir því, að Reykjanesbraut ein yrði ekki skattlögð í framtíðinni, heldur þá aðrir vegir um leið og ámóta vegakaflar eru fullgerðir og sá kafli Reykjanesbrautárinnar, sem fullgerður hefur verið, u.þ.b. 40—50 km suður til Keflavíkur.

Þeir þm., sem flytja þessa brtt., eru þeirrar skoðunar, að það eigi að afnema veggjaldið í eitt skipti fyrir öll. Hvort einhverjir hafa látið gott heita á meðan þessi framkvæmd komst á, það má vel vera, að hægt sé að senda þeim kærar kveðjur, en ég kippi mér hins vegar ekki upp við það. Ég stóð að því, að samgrh. hefði þessa heimild, sem ég gat um áðan, í 95. gr. vegalaga, en ég hef ætíð sem þm. þessa kjördæmis látið í ljós óánægju mína yfir þessu. Þegar nú vegáætlun er afgreidd, þá tel ég sjálfsagt, að þeirri stefnu, sem farið var eftir og hæstv. fyrrv. samgrh. mótaði og gaf yfirlýsingu um á s.l. ári, verði fylgt, og þessi till. er flutt til þess, að Alþ. geti tekið ákvörðun um það mál.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þessa till. Ég vonast til þess, að hv. alþm. sjái sér fært að greiða henni atkv.