16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (3844)

123. mál, endurgreiðsla söluskatts til rithöfunda

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ákvað að kveðja mér hljóðs, þegar hv. frsm. minni hl. var að tala hér áðan, því að hann lét orð falla, sem ég, þótt ég meti hann mikils, vil ekki láta standa ómótmælt í þingtíðindunum, þó að þau snerti ekki beinlínis þetta mál, sem hér liggur fyrir. En hv. þm. sagði, að sú tíð væri liðin, að menn gætu unnið verk sitt vel nema gefa sig að því alveg óskipta, og ætti það við um rithöfunda. Ég vil ekki láta þetta standa ómótmælt með öllu, sakir þess að ég hygg, að a.m.k. í þeirri grein bókmenntanna, þar sem Íslendingar hafa náð lengst, í ljóðlistinni, þá hafi allt það bezta, sem þar hefur verið gert, verið unnið í tómstundum, unnið án þess að gefa sig alveg óskiptan að því. Og grun hef ég um það, að svo sé enn, að mikið af því bezta í bókmenntum okkar sé einmitt unnið í tómstundum, þannig að menn gefi sig ekki óskipta að því verki. Menn vinna að list, vegna þess að þeim er áskapað að vera listamenn og af því að þeir hafa gleði af listinni. Það hefur alltaf verið svo og mun verða svo. Þjóðin kaupir sér ekki listamenn, þó að hitt sé að sjálfsögðu ánægjulegt og rétt að veita listamönnum viðurkenningu.

Það er rétt, að það hefur borizt bréf til allra þm., þetta bréf hérna, undirritað af 12 rithöfundum. og þetta eru allt saman þekkt nöfn og „enginn skyldi skáldin styggja, skæð er þeirra hefnd.“ stendur einhvers staðar. Mig undrar það ekki, þó að einhverjir hér gerist nú bljúgir í andanum. þegar þeir fá svona bréf, sem slík nöfn standa undir. En ég tek undir það með hv. þm., sem hér talaði síðast, hv. 3. þm. Sunnl., að heldur kann ég nú illa við það, þegar verið er að segja frá því sérstaklega eða vekja sérstaka athygli á því, að fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. í allshn. hafi lagt til, að till. yrði vísað til ríkisstj. Þegar ég tók afstöðu til þessarar till., þá hafði ég nú ekki neitt í huga um það, í hvaða flokki ég væri. Ég tel, að þetta sé ópólitískt mál, og þau eru mörg mál slík hér á þingi. sem mér kemur ekki til hugar að taka afstöðu til sem flokksmaður. En þessir ágætu rithöfundar virðast hugsa þetta mál meira í flokkum en ég geri.

Það er ekki til þess að ætlast, að hv. 1. flm. þessarar till. geti upplýst það, hvernig þessu fé verði varið, sem þarna er um að ræða, söluskattinum eða andvirði hans, vegna þess að það kemur að sjálfsögðu ekki til kasta þessa hv. þm. að ákveða það. Till. fjallar aðeins um það að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að andvirði söluskatts af bókum renni til rithöfunda og höfunda að fræðiritum, sem viðbótarritlaun. Tillögumaður hefur ekkert lagt til um það í till. sjálfri, hvernig þessu verði svo úthlutað. En ég verð nú að segja það, að ég hef leyft mér að ganga út frá því, að ef þetta yrði gert á annað borð að verja þessu fé þannig, þá yrði það þannig, að hver rithöfundur fengi þann söluskatt, sem inn kemur af bók, sem hann hefur ritað. Og ef einhverjir eru annarrar skoðunar, þá væri gott, að það kæmi fram. Það er hins vegar í brtt. hv. 5. þm. Reykv. nokkuð nánar að þessu vikið og sagt, að þetta skuli vera viðbótarritlaun eftir reglum, er samdar verði í samráði við Rithöfundasamband Íslands og félög rithöfunda. En félög rithöfunda eru í Rithöfundasambandinu, að ég ætla. Nánar er það nú ekki fram tekið. En þennan skilning vil ég láta fram koma, og ef það ætti að gerast á þennan hátt, þá finnst mér persónulega, að það væri miklu hreinlegra að afnema þennan söluskatt hreinlega. og því mundi ég ekki vera andvígur, síður en svo.

En niðurstaða meiri hl. n., sem ég var að mæla fyrir, er hins vegar þessi, að málinu verði skotið á frest til athugunar í ríkisstj. Ég treysti rn. vel til þess, eins og ég treysti ríkisstj. í heild til þess að fara með þetta mál og hef þar kannske ekki alveg sama viðhorf og hv. 4. þm. Austf., sem hér talaði áðan. Ég treysti ríkisstj. vel til þess að láta íhuga þetta mál nánar, kosti þess og galla.