18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í D-deild Alþingistíðinda. (4007)

68. mál, handbók fyrir launþega

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa eindregnum stuðningi mínum við þá þáltill., sem hv. 5. þm. Vesturl. hefur nú mælt fyrir, og taka eindregið undir þau rök, sem flutt voru fyrir þáltill., því að hér er um mikið vandamál að ræða, sem nauðsynlegt er að reyna að bæta úr svo sem í mannlegu valdi stendur. Mér er kunnugt um það af langri reynslu minni í störfum fyrir verkalýðsfélög, að á slíkri handbók sem till. fjallar um er mikil og brýn nauðsyn, og það er ekki hvað sízt nauðsyn á, að í slíkri handbók mætti a.m.k. finna allar almennar megin uppistöður í gildandi kjarasamningum. Þannig að ég hygg, að handbók af þessu tagi yrði að vera með nokkuð öðrum hætti en venjulegar handbækur, svo mjög breytileg sem bæði lög og reglugerðir settar af hálfu hins opinbera eru annars vegar og svo hins vegar hinum síbreytilegu kjarasamningum verkalýðsfélaga og vinnuveitenda. En allt eru þetta atriði, sem nauðsynlegt er að íhuga við samningu slíkrar handbókar, sem ég vona, að ekki verði ágreiningur um hér á Alþ. að stofna til, svo nauðsynlegt sem málið er. Ég held, að það sé erfitt að gera því fólki skiljanlegt, sem á aðgang daglega að lagasöfnum og kjarasamningum, hve miklum erfiðleikum slík gagnasöfnun fyrir einstaka félagsmenn veldur starfsfólki verkalýðsfélaga og forustumönnum þeirra nánast á hverjum degi og oft á dag. Ef þessi bók mætti að einhverju leyti leysa þann vanda, þá hefði hún áreiðanlega sannað gildi sitt. Ég ítreka því samstöðu mína með þessari till. og vænti þess, að hv. Alþ. afgreiði hana á jákvæðan hátt.