17.12.1971
Neðri deild: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

119. mál, verðlagsmál

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína með það, að það virðist vera ætlun hæstv. ríkisstj. að halda áfram verðlagseftirliti. Ekki er vanþörf á í því dýrtíðarflóði, sem við blasir á næstu mánuðum. Ég er þeirrar skoðunar og vil láta það koma hér fram, að öflugt verðlagseftirlit á öllum sviðum sé vissulega brýn nauðsyn á komandi mánuðum, því að verðlagseftirlit er ekki aðeins vörn neytendans gagnvart óhóflegri verðlagningu, heldur má einnig líta á verðlagseftirlit sem ráð til þess að veita atvinnurekstri aðhald og til þess að auka framleiðni og bæta rekstur atvinnufyrirtækja. Verðlagseftirlit er þannig heppilegt tæki í baráttunni við verðbólguna, og sem slíkt hefur verðlagseftirlit verið notað í vaxandi mæli í ýmsum löndum undanfarið.

En tilefni þess, að ég er hér kominn í pontuna, er að biðja hæstv. ráðh. um að skýra það hér fyrir okkur alþm., hvað meint sé með því, sem segir hér í ákvæði til bráðabirgða, með leyfi hæstv. forseta:

„Verð á hvers konar vöru má eigi hækka frá því, sem var 1. nóv. 1970, nema með samþykki hlutaðeigandi yfirvalda, og mega þau ekki leyfa neina hækkun á vöruverði, nema þau telji hana óhjákvæmilega. Leyfi til slíkrar hækkunar skal vera háð samþykki ríkisstj.

Ég vil spyrja: Hvaða markmið mun ríkisstj. hafa varðandi væntanleg leyfi til verðhækkana, hvaða reglur hyggst hún setja til viðmiðunar í þessum efnum? Það væri gagnlegt að fá upplýsingar um þetta. Ég fyrir mitt leyti tel það mjög mikilsvert, að ríkisstj. sjái svo um, að haldið verði uppi ströngu og öflugu verðlagseftirliti á komandi mánuðum.