06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í D-deild Alþingistíðinda. (4205)

46. mál, öryggismál Íslands

Halldór Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að vekja hér, áður en umr. lyki, athygli á tveimur meginatriðum í málflutningi hv. stjórnarandstæðinga, en hv. 7. þm. Reykv. minnti hér áðan á það vantraust, sem flutt var og samþ. á Alþ. 1950 og mér finnst það hafa verið á þann hátt, að ástæða væri til að auka nokkru við. Sú ríkisstj., sem vantraustið var borið fram á, var minnihluta stjórn Sjálfstfl. Mér hefur skilizt, að það væru þingræðislegir siðir og raunar þingræðisleg skylda að láta sitja meirihluta stjórn á þingi, ef möguleiki væri til og ef komin er minnihluta stjórn og vill ekki víkja af sjálfsdáðum, þá þurfi að ýta við henni og það verði ekki gert öðruvísi en með vantrausti. Þess vegna held ég, að það hafi ekki verið neitt afbrot við þingræði, að það vantraust var flutt.

Hv. 7. þm. Reykv. lét fylgja þessari sögu, að Framsfl. hefði flutt þetta vantraust, en svo jafnharðan og stjórnin var fallin, þá hefði hann tekið höndum saman við Sjálfstfl., farið í stjórn með honum til þess að framkvæma það sama, sem hann felldi stjórn Sjálfstfl. fyrir að ætla sér að gera: Gengislækkun. Nú hygg ég, að flestir viti það, að það er ekki sama, hvernig gengislækkun er framkvæmd og hér var ekki einungis um gengislækkun að ræða, heldur ýmsar hliðarráðstafanir. Það voru gerðar breytingar, m.a. var um að ræða skatt, sem lagður skyldi á þann gróða eða eign, sem skapazt hafði á undanförnum árum. Samkv. því frv., sem minnihluta stjórnin flutti þá, átti að leggja þetta á félög eins og einstaklinga, en þessu var breytt þannig, að það var lagt á félög í hlutfalli við félagsmannafjölda og þetta þýddi það, að samkv. frv. hefðu varasjóðir kaupfélaganna verið gerðir upptækir, en því var breytt og ég hélt, að þetta út af fyrir sig væri veruleg breyting. Auk þess var svo gerður málefnasamningur um stjórnarstefnu yfirleitt milli Sjálfstfl. og Framsfl., svo að það var dálítið annað en bara að taka höndum saman til að framkvæma það, sem stjórnin var felld fyrir að ætla sér. Ég er oft búinn að heyra Alþfl.–menn tala um þetta vantraust og stjórnarsamstarf, sem á eftir fór og því þótti mér þetta kærkomið tækifæri til þess að minna á aðalatriði þessarar sögu, því að það er annaðhvort alvarlegur sögulegur misskilningur eða þá tilraun til sögulegrar fölsunar að segja frá þessu eins og þeir hafa gert og gert var hér áðan.

Hv. 7. þm. Reykv. segist ekki hafa orðið var við neina breytingu á stefnu eða stjórnarandstöðu Alþfl. frá því að þing kom saman í haust og þangað til nú. Ég skal ekki dæma um það, hvort þar hefur breyting á orðið, en það eru fleiri en einn og fleiri en tveir, sem hefur fundizt, að þar yrði breyting á og t.d. var það einn af trúnaðarmönnum Alþfl. vestur á fjörðum, sem sagði mér í óspurðum fréttum um jólaleitið í vetur, að sér fyndist stjórnarandstaða formannsins einkennast af beiskju, geðvonzku og hefnigirni. Þetta voru hans orð, en vegna þess að formanni er ekki kunnugt um eða honum ekki ljóst, að nein breyting hafi á orðið, þá vil ég láta hann vita, að það hefur verið til meðal flokksmanna hans tilfinning fyrir því , að það muni einhver breyting hafa orðið þarna á.

Nú segir hann, að það séu engar deilur uppi um það, hvaða stefnu flokkurinn eigi að fylgja. Ekki vil ég brigzla honum um ósannindi eða bera honum það á brýn, en sé þetta rétt, þá hygg ég, að það megi segja, að ýmsir þeir menn, sem í Alþfl. voru ekki alls fyrir löngu, hafi annaðhvort skipt um skoðun eða skipt um flokk. Það var athyglisvert líka að heyra það, að hv. 7. þm. Reykv. sagði, að í jafnaðarmannaflokki á breiðum grundvelli gæti menn greint á í góðu og þar gæti verið ágreiningur um varnarmál og utanríkismál og þess háttar, en innan ríkisstj. væri slíkt ekki hugsanlegt. Ef þar eru einhver skoðanaskipti, þá þýðir það, að ráðh. séu að flengja hver annan. Það gerðu þeir ekki í gömlu stjórninni. Það á víst við um viðreisnarstjórnina líkt og Laxness lýsir partíinu í Atómstöðinni: Það var eins og allir væru trúlofaðir öllum, allir kysstu alla. Við héldum sumir, að það væri dálítill munur á stefnu viðskrh. og landbrh. í landbúnaðarmálum. Nú, þetta hefur kannske ekki verið, en svo mikið er a.m.k. víst samkvæmt því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði hér áðan um stefnu landbrh., að ríkisstj. í heild bar stjórnskipulega ábyrgð á henni. Það er gott til minnis.

Þó að við höfum fengið margt að heyra hér í dag við þessar umr., þá höfum við ekki fengið að heyra, hvers vegna stjórnarandstæðingar vilja láta endurskoða varnarsamninginn, en það vilja þeir allir og ég er hræddur um, að ýmsum, sem fylgjast með þessum umr. og frétta til þeirra, finnist málflutningur þeirra nokkuð vandræðalegur og spyrji sem svo: Til hvers vilja þessir menn láta endurskoða varnársamninginn, ef þeir eru sannfærðir um það fyrir fram, að herinn eigi að vera og verði að vera um ófyrirsjáanlega framtíð?

Í öðru lagi er það annað, sem einkum einkennir málflutning stjórnarandstæðinga hér, en það er sú viðleitni að vilja gera mikið úr ágreiningi og þá helzt átökum innan ríkisstj. Þetta þýðir á gömlu alþýðumáli að reyna að rægja menn saman, en það hefur nú löngum þótt vænlegra að gera slíkt á litlum fundum úti í bæ eða úti á landi, en þar sem mennirnir heyra allir til. Þegar ríkisstj. var mynduð, þá gat maður lesið í Morgunblaðinu nokkra daga, að lítið legðist nú fyrir hæstv. félmrh.. að þiggja óbreyttan ráðherrastól í þeirri ríkisstj., sem honum hefði borið forsætið í og þótti Morgunblaðinu þá, að þetta geðleysi væri slæmur ljóður á jafnröskum manni og sigursælum. Þetta tal hjaðnaði nú fljótlega, en alla tíð síðan hefur Morgunblaðið hamrað á því sýknt og heilagt, að þetta væri ekki nokkru lagi líkt, hvernig Framsfl., svo stór flokkur, léti kommúnistana, eins og Morgunblaðið orðaði það, í ríkisstj. fara með sig, beygja sig og kúska og kúga, en nú er það allt í einu orðið svo, að Framsfl. er farinn að kúga ráðh. Alþb., þannig að þeim er brigzlað um geðleysi, að þeir skuli sitja í ríkisstj. eftir þá meðferð, sem þeir hljóta þar. Sem sagt, kenningin er sú, að í þessari ríkisstj. kúga allir alla. Ég held satt að segja, að inn í þetta dæmi séu hv. stjórnarandstæðingar búnir að láta nægilega marga plúsa og mínusa til þess, að þeir eyði hver öðrum og útkoman verði núll og sem stjórnarsinni og framsóknarmaður vil ég ljúka máli mínu með því að lýsa yfir ánægju minni með, hversu mikinn greiða stjórnarandstaðan hefur gert okkur, sem viljum tala máli þessarar ríkisstj., með því að láta sínar aðfinnslur og ádeilur og sitt nöldur og sitt nag stangast svona rækilega á, þannig að þar étur eitt annað upp til agna.