17.12.1971
Efri deild: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

119. mál, verðlagsmál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., m.a. vegna þess að ég tek undir þá ábendingu hv. 1. landsk. þm., að ástæðulítið er fyrir okkur stjórnarandstæðinga að halda hér uppi fundi, úr því að stjórnarsinnar hafa ekki áhuga á því.

En ástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs, er sú, að ég vil gera fyrirvara um afstöðu mína til ákvæðis til bráðabirgða sérstaklega og áskilja mér rétt til athugunar á efni þess ákvæðis. Ég tók að vísu eftir þeirri skýringu hæstv. viðskrh., að það væri í þessi lög sett, en ekki í framlengingu verðstöðvunarlaganna, vegna þess að ekki væri unnt að halda uppi áfram verðstöðvun. Nauðsynlegt hlyti að verða að leyfa einhverjar verðhækkanir.

Ég get vel fallizt á þessa skýringu hæstv. ráðh., og án þess að ganga á bak orða minna hér í upphafi máls míns þá vil ég þó rifja það upp, að þegar verðstöðvunarlögin voru sett 1. nóv. á siðasta ári, þá var því yfir lýst, að þau væru vitaskuld tímabundin, og það væri hvorki unnt, mögulegt eða æskilegt, aðslík lög væru sett til allrar frambúðar. Það væri eðlilegt, að verðbreytingar ættu sér stað, m.a. til þess að tryggja hagkvæmustu nýtingu framleiðsluþáttanna í þjóðfélaginu, vinnu, fjármagns og tækja.

Ég minni enn fremur á það, að núv. hæstv. ríkisstj., þótt hún s.l. vor sem stjórnarandstæðingar héldi því fram, að verðstöðvunin væri óframkvæmanleg og ekki unnt að framlengja hana til áramóta, eins og þáv. stjórn taldi stefnu sína, gerði það nú samt að till. sinni eftir kosningar að framlengja hana til áramóta. Og ég tel það að vísu út af fyrir sig góðra gjalda vert með fyrirvörum þó, að því er tekur til einstakra ákvæða þeirra framlengingarlaga.

Ég vil loks minna á, að það var yfirlýst stefna Sjálfstfl., að þessari verðstöðvun skyldi létt af stig af stigi, skref fyrir skref, nú eftir áramótin. Ég tel því rétt, að í n. verði þetta ákvæði til bráðabirgða nánar kannað og frekari upplýsingar fengnar, m.a. frá hæstv. viðskrh., hvernig hugsað er að beita þeirri heimild, sem ríkisstj. hefur samkv. þessu ákvæði, að leyfa verðbreytingar, eftir að þessi lög taka gildi.