17.12.1971
Efri deild: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

119. mál, verðlagsmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það er aðeins til að svara hér með örfáum orðum þeim fsp., sem fram hafa komið, en tími er nú ekki til þess að ræða þetta mál hér ítarlega, enda sé ég ekki beina ástæðu til þess, áður en málið fer til n., að slíkar umr. fari fram.

Hv. 1. landsk. þm. spurði um það, í hvaða tilfellum mundi helzt koma til greina, að verðhækkanir yrðu leyfðar. Það er ekki auðvelt að svara því á þessu stigi málsins. Í meginatriðum verður þannig staðið að þessum málum nú eins og áður, að hvert einstakt tilfelli fyrir sig verður skoðað og metið, hvort talið verður óhjákvæmilegt að leyfa verðhækkun, en ætlunin er að veita ekki aðrar verðhækkanir en þær, sem talið er óhjákvæmilegt að veita. Samkv. lögunum er það svo, að til þess er ætlazt, að vel rekin fyrirtæki fái aðstöðu til þess að halda áfram eðlilegum rekstri innan þeirra marka, sem ákveðin eru með verðlagsákvæðum, og við það verður auðvitað að miða. Það gefur auga leið, að eftir slíkar launabreytingar, eins og nú hafa átt sér stað, og þegar það er einnig samhliða nokkrum verðhækkunum erlendis, m.a. af gengismálum viðskiptaþjóða okkar, og þar að auki eftir rúmlega eins árs verðstöðvun, þá hljóta að vera ýmis tilfelli þannig, að ekki verði hjá því komizt að heimila einhverjar verðhækkanir. Sérstaklega verður þarna t.d. um það að ræða eftir þessa nýgerðu launasamninga, að þar sem um er að ræða beinlínis framselda vinnu, þar sem fyrirtæki eru að selja áfram vinnu annarra aðila, sem nú taka allt önnur laun en þeir hafa tekið, þá er auðvitað óhjákvæmilegt, að leyfðar verði einhverjar hækkanir í slíkum tilvikum.

Í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér, vil ég taka það fram, að það er yfirlýst stefna ríkisstj. að halda áfram ströngu verðlagseftirliti, og hún telur, ekki sízt eins og nú háttar til í þjóðfélaginu, að ekki verði undan því vikizt að standa þar nokkuð fast í ístaðinu gegn öllum tilraunum til óeðlilegra verðhækkana. Það er skoðun ríkisstj., að það sé ekki hægt að komast hjá því að hafa hér fullar hömlur á, þannig að engir aðilar í landinu geti einhliða ákveðið verðhækkanir eða hækkanir á þjónustu, án þess að um það hafi farið fram athugun og til komi samþykki víðkomandi yfirvalda.

En nánari upplýsingar, ef óskað verður, er vitanlega hægt að gefa við nánari athugun á málinu í n. eða við 2. umr. málsins.