17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í D-deild Alþingistíðinda. (4315)

113. mál, aðstoðarmenn lækna í byggðum landsins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil fyrst minna á það, að ljósmæður hafa um langan aldur verið starfandi í nálega öllum sveitarfélögum á Íslandi. Nú er hins vegar svo komið, að verkefni fyrir ljósmæður í hinum fámennari sveitarfélögum eru orðin sáralítil og í sumum tilvikum nánast engin árum saman, vegna þess hversu algengt er orðið, að konur fæði á sjúkrahúsum. Verkefnin eru þannig að fjara út, ef svo má segja, á hinum fámennari stöðum og þá virðist það gefa auga leið, að ljósmæðrum úti um landið verði fækkað mikið á næstunni. Nú var okkur flm. þessarar till. vitanlega kunnugt um þær athuganir, sem fram hafa farið á því að auðvelda ljósmæðrum að ljúka hjúkrunarnámi. Ég ætla, að það sé fyrst og fremst í tvíþættum tilgangi, annars vegar að fá aukinn fjölda hjúkrunarkvenna til starfa við sjúkrahúsin, þar sem það getur farið saman og hins vegar, að þær geti orðið héraðshjúkrunarkonur, en sú nýja stétt hefur gert stór mikið gagn, eins og hæstv. heilbrmrh. vék að. En það, sem fyrir mér vakir alveg sérstaklega í sambandi við þetta mál er, að sá möguleiki verði athugaður, hvort ekki sé hægt eftir einhverjum leiðum að efla þann þáttinn í starfi ljósmæðranna, sem alltaf hefur verið nokkur í gegnum árin, að veita hjálp og leiðbeiningar í ýmsum tilvikum öðrum en þeim, sem beint heyrðu til þeirra fagi og þá í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eða a.m.k. að draga úr fækkun í stéttinni, að það verði alveg sérstaklega athugað, hvort ekki sé hægt að koma því til leiðar, að sem allra víðast í strjálbýlinu verði áfram starfandi ljósmæður, sem hafi þá aukna þekkingu og aukna möguleika til starfa á þann hátt, sem greint er frá nánar í till.

Ég vildi aðeins með þessum örfáu orðum leyfa mér að leggja sérstaka áherzlu á þetta atriði.