22.02.1972
Sameinað þing: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í D-deild Alþingistíðinda. (4331)

130. mál, gjaldskrá Landsímans

Magnús H. Gíslason:

Herra forseti. Háttvirtu alþm. Það eru nú þegar orðnar æði langar umr. um þetta mál og kannske ekki ástæða til þess að lengja þær svo mjög, enda ætla ég ekki að gera það. En úr því að farið er að ræða hér ýmsa þætti í sambandi við þessi símamál á annað borð, þá þykir mér rétt að benda á eitt eða tvö atriði, sem ég tel, að ástæða sé til þess að leiðrétta, ef svo skyldi fara, að þessi till. fengi þá meðferð í n. eða kæmist á það stig við umr. í n., að þetta mál yrði fært eitthvað út á víðara svið en till. sjálf raunverulega markar. Hér á ég við það, að misrétti í þessum efnum er að sjálfsögðu með mörgu móti. Það þekkjum við vel, sem úti í sveitunum búum. T.d. er það staðreynd, að neyðarsímaþjónusta í landinu er víða með þeim hætti, að það er hreint og beint stórháskalegt. Ég hygg því, að það sé ástæða til þess fyrir hv. allshn., ef hún fær þetta mál til meðferðar, eða aðra ., sem kann að fjalla um það, að taka þetta til athugunar, ef málið skyldi komast á þann vettvang að verða eitthvað víkkað út.

Annað er það, sem ég vildi einnig drepa á og vekja athygli á og það er það misrétti, sem jafnvel ríkir innbyrðis í sveitum landsins um notkun símans. Við vitum það, að þar er um að ræða stöðvar, sem ýmist eru kallaðar l. 2. eða 3. flokks stöðvar. Ég hygg, að ég fari rétt með það, að símatíminn hjá 2. flokks stöðvum sé sex klst. á dag, þrjár fyrir hádegi og þrjár eftir hádegi, en hjá 3. flokks stöðvum, sem eru allmargar einnig í sveitum landsins, m.a. heima í mínu héraði, eru þær nokkrar, þar mun símatíminn, sem þeir menn hafa til ráðstöfunar, sem við þær aðstæður búa, ekki vera nema tveir tímar á dag. Ég hygg, að það séu ekki nema tveir tímar á dag, frá 9—10 fyrir hádegi og aftur frá 4—5 eftir hádegi. Þarna er vitanlega um að ræða hróplegt misrétti, sem fullkomin ástæða og fullkomið sanngirnismál er að leiðrétta, ef þetta verður tekið til meðferðar á annað borð og farið verður út í það að færa þetta eitthvað í jafnréttisátt. Ég er fullkomlega samþykkur þessari till., sem hér liggur fyrir, að þessi aðstaða verði jöfnuð. En ég vildi bara vekja athygli á því, að þegar við förum að kafa ofan í þetta, þá eru margar hliðar á þessu máli og misréttið í þessum efnum er margvíslegt og skal ég ekki orðlengja það frekar.