02.03.1972
Sameinað þing: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í D-deild Alþingistíðinda. (4346)

170. mál, vistheimili fyrir vangefna

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 7. landsk. og hv. 5. þm. Austf. að flytja till. til þál. á þskj. 328, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því í samráði við Styrktarfélag vangefinna, að komið verði upp vistheimilum fyrir vangefna í þeim landshlutum, þar sem slík heimili eru ekki til nú.“

Í grg. með till. er nokkuð rakið, hver staða þessara mála er í dag og hverjar ástæður liggja að baki tillöguflutningnum. Við tillögumenn gerum okkur fullljóst, að hér eru ýmis ljón á veginum og að sumu af því er vikið sérstaklega í grg. Það má líka með nokkrum rétti spyrja, hvers vegna vangefnir eru teknir og stofnunar óskað fyrir þá út í landsfjórðungana, en ekki fyrir einhverja þá aðra, sem hart verða úti í samfélaginu, ef ekki er öllum tiltækum ráðum beitt. Ég vil undirstrika það, sem stendur í grg., að tvennt veldur þessum tillöguflutningi öðru fremur. Annars vegar mundu fleiri njóta umönnunar, því að foreldrar sendu börn sín hiklaust frekar á slíkt heimili í fjórðungnum, en alla leið hingað suður og þá jafnvel austur í Grímsnes, svo að nefnt sé dæmi. Hin ástæðan er sú fullvissa okkar, að hin nauðsynlegu og eðlilegu tengsl milli vistfólks og aðstandenda þeirra verði betur tryggð með vistheimilum úti í fjórðungunum og vitnum þar hiklaust til reynslu Norðlendinga af sínu ágæta heimili, Sólborg á Akureyri, sem er að vísu að miklu leyti þeirra eigin framtaki að þakka.

Smám saman hefur skilningur verið að aukast á því, að ekki mætti láta skeika að sköpuðu um framtíð þeirra allt of mörgu einstaklinga, sem ekki eiga með öðru fólki fulla samleið sakir andlegra vankanta. Lengi var það svo, að þetta fólk var hinn ákjósanlegasti skotspónn háðs og skemmtunar eða þá að öllu leyti vanhirt, hvað þá að reynt væri að koma því til hjálpar eða á nokkurn veg auka þroska þess. Á þessu hefur góðu heilli orðið mikil og giftusamleg breyting, ekki sízt fyrir tilstuðlan þess fólks, sem hefur átt um sárt að binda af þessum sökum. Það er þó ljóst, að hér er enn mikið starf óunnið. Enn eru mörg börn, sem ekki njóta þeirra möguleika, sem þó er hægt að veita þeim, ef rétt aðhlynning og þjálfun er látin þeim í té.

Í grg. er nokkuð að því vikið, á hvern veg þessum málum er nú í dag háttað, og skal það gert nánar hér í framsögu. Það væri þó kannske réttara að víkja stuttlega að því starfi, sem unnið hefur verið á undanförnum áratugum til hjálpar hinum vangefnu og þá aðeins getið um stærstu áfangana. Í leiðinni er svo minnt á vistmannafjölda einstakra hæla og heimila.

Fyrsta stofnunin, sem veitti vangefnum börnum viðtöku, var Sólheimahælið, sem Sesselja Sigmundsdóttir stofnaði 1931 og rekur enn. Vistmenn þar eru nú nær 50. Áður höfðu að vísu nokkur vangefin börn verið í Málleysingjaskólanum og voru það raunar fram yfir 1940. Árið 1936 voru lög samþ. á Alþ. um fávitastofnanir. Samkv. þeim skyldu stofnuð skólaheimili, hjúkrunarhæli og vinnuhæli jafnóðum og fé yrði til þess veitt á fjárlögum. Þeirrar fjárveitingar þurfti þó lengi að bíða.

Fræðslulögin frá 1946 kváðu m.a. á um það, að börnum skyldi séð fyrir stofnunum við sitt hæfi, ef þau skorti hæfileika til að stunda nám í almennum barnaskólum. Þessi ákvæði hafa því miður aldrei komið fyllilega til framkvæmda. Einkanlega á þetta þó við um landsbyggðina. Hér var þó stofnuð sérdeild við Miðbæjarbarnaskólann í Reykjavík, sem varð svo vísirinn að Höfðaskólanum. Það er ein merkasta stofnun og forustumaður þess skóla viðurkenndur sérstakur í þessari grein. En auðvitað eru svo hjálpar bekkir svokallaðir við flesta hina stærri skóla.

Þá er að geta fyrsta ríkishælisins fyrir vangefna, að Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði, stofnun, sem var rekin á árunum 1944—1958. Það voru um 20 vistmenn, sem þar dvöldust árlega, 1952 tók svo ríkishælið í Kópavogi til starfa. Allt frá þeim tíma hefur verið unnið að frekari uppbyggingu þess hælis. Þar munu nú vera um 150 vistmenn, sem eru nokkru fleiri, en byggt hefur verið fyrir. Þetta er eina stofnunin hér á landi, sem tekur við algerum örvitum, en oft hefur hælið orðið að taka við fávitum, þegar aðstandendur þeirra hafa fallið frá eða af öðrum knýjandi ástæðum. Þar er nú verið að vinna að byggingu barnadeildar, sem mun að því komið að taka í notkun.

Áiið 1954 stofnaði Góðtemplarareglan, umdæmisstúka nr. 1, heimili fyrir vangefin börn að Skálatúni í Mosfellssveit. Árið 1960 gerðist Styrktarfélag vangefinna meðaðili að rekstrinum og eru þar nú um 50 vistmenn. Það var 1958, sem Styrktarfélag vangefinna var stofnað og rekur það margháttaða starfsemi í þágu vangefinna. Fyrir atbeina félagsins fékkst samþykkt á Alþ. fyrir föstum tekjustofni til Styrktarsjóðs vangefinna. Tekjur sínar hlýtur sjóðurinn af gjaldi, sem lagt er á öl og gosdrykki. Þessi sjóður er í vörzlu félmrn. og ræður ráðh. styrkveitingum, en Styrktarfélagið gerir till. til ráðh. þar um. Samkv. fjárlögum þessa árs nemur framlag til sjóðsins um 24 millj. kr.

Styrktarfélag vangefinna rekur nú tvö dagheimili hér í borg, í Lyngási fyrir minni börn og eru þar 40—50 börn og í Bjarkarási, sem er nýtt dagheimili, ætlað fyrir eldri börn og munu þar verða um 50 dagvistarbörn. Ég vík ekki nánar að starfsemi þessa félags, hún er hv. alþm. það kunn og þessu félagi ber sérstaklega að þakka þann mikla árangur, sem unnizt hefur nú hin síðustu ár.

Árið 1962 tók til starfa gæzlu systraskóli við Kópavogshæli, sem sér um menntun stúlkna til að annast vangefna. Frá þeim skóla hafa margir góðir kraftar komið. Árið 1965 er svo reist hælið að Tjaldanesi í Mosfellssveit. Þar rúmast 15 piltar, en heimilið er stofnað af aðstandendum vangefinna drengja.

Árið 1967 voru samþ. á Alþ. lög um fávitastofnanir. Þar er Kópavogshælið gert að miðstöð og því um leið falin yfirumsjón með öðrum fávitastofnunum. Mörg nýmæli í lögum þessum eru til ótvíræðra bóta, m.a. um greiðslur ríkis og sveitarfélaga á kostnaði af dvöl vangefinna á hælum og dagheimilum.

1969—1970 var svo hafinn rekstur dag— og vistheimilisins Sólborgar á Akureyri, sem Styrktarfélag vangefinna þar rekur. Vistmenn þar munu nú rúmlega 50.

Hér hefur verið rakið nokkuð, hverjir stærstu áfangarnir hafa verið í baráttunni fyrir því að hlynna að hinum vangefnu. Ég hef í þessu stuðzt við ágætar upplýsingar frú Sigríðar Thorlacius, sem er mikil forustukona um þessi málefni.

Ég vil aðeins varðandi hin einstöku heimili, án þess að þar sé á nokkurn aðila hallað, lýsa því sem minni skoðun, að ríkið eigi hér að hafa sterka yfir umsjón og ásamt Styrktarfélagi vangefinna að móta starfsemi allra vistheimilanna, svo að tryggt sé, að þau séu sem jöfnust hvað alla aðstöðu og aðbúnað snertir. Þó að hér geti einkaframtak komið að liði, þurfa heilbrigðis– og menntamálayfirvöld að vera hér hinn ráðandi aðili.

Allt það, sem hér er nefnt að framan, styður hiklaust að þeirri till., sem við flm. höfum leyft okkur að leggja fram. Það er sérstaklega heimilið Sólborg á Akureyri, sem hefur opnað augu manna í öðrum landshlutum, þar sem engin slík heimili eru, opnað augu þeirra fyrir þeirri nauðsyn og réttmæti þess að reisa þessi heimili einnig þar. Sólborgarheimilið hefur ætíð haft ágætum starfskröftum á að skipa. Það hefur stöðugt verið fullskipað vistfólki úr fjórðungnum og reynt eftir megni að leysa annarra vandkvæði einnig.

Þær helztu mótbárur, sem koma fram gegn þeirri hugmynd, sem hér er hreyft, eru einmitt tengdar þessu tvennu, annars vegar að nægilega gott starfslið fengist ekki, hins vegar að tæplega væri um nægilegan fjölda að ræða í þessum fjórðungum til þess, að hægt væri af fullri reisn að reka slík heimili þar. Sólborgarheimilið hefur afsannað hvort tveggja að miklu leyti.

Fyrri mótbáran glymur reyndar sífellt um hverja þá stofnun, sem ekki er á Stór-Reykjavíkursvæðinu og þessi sónn kemur því miður hvarvetna að. Því virðist blátt áfram vera vísvitandi og óafvitandi haldið að fólki, að sem allra fæst starfsemi af nokkru tagi eigi rétt á sér úti á landsbyggðinni og nægir þar að benda á blessaða embættismennina okkar suma, sem ekki geta unað þar lífinu sakir skorts á andlegu samneyti við sitt hæfi.

Því miður er það svo, að fólkið, sem hérna á hlut að úti í hinum dreifðu byggðum, er sjálft farið að trúa því allt of margt, að þetta sé í raun og veru svo, allt eigi að reisa og reka í Stór-Reykjavík. Á móti þessu ber að hamla hiklaust. Þetta er að okkar viti, flm. þessarar till., hættuleg öfugþróun og dreifing valds, dreifing stofnana á að vera eins sjálfsögð og sú dreifing verðmætasköpunarinnar, sem öll þjóðfélagsbyggingin hvílir á og landsbyggðarfólk leggur til sinn ríflega hlut. Þetta kann nú að þykja út úr dúr, en þó hygg ég, að einmitt vantrúin á, að slík heimili geti risið og verið rekin af myndarbrag bæði á Austurlandi og Vestfjörðum, verði hér mestur þröskuldur í vegi, jafnvel að einhverju leyti vantrú þess sama fólks, sem hér er verið að ganga til móts við.

Það er rétt að víkja hér í framsögu stuttlega að vandamálum hinna vangefnu yfirleitt, þ.e. hve umfangsmikil þau eru og hversu margir það eru, sem áætla má að séu þurfandi fyrir samfélagslega aðstoð í einhverju formi. Um það eru all skiptar skoðanir, hve mörg prósent það séu, sem þurfi á aðstoð samfélagsins að halda sakir andlegra ágalla af þessu tagi. Svo að vitnað sé til Kristins Björnssonar sálfræðings, þá segir hann orðrétt:

„Af hverju þúsundi landsmanna eru að jafnaði 30 vangefnir. Af þeim eru 25 vanvitar, 4 eru fávitar og 1 er örviti.“

Um þessar tölur dæmi ég ekki, en heyrt hef ég frá áreiðanlegum heimildum, að a.m.k. 1% af þjóðinni megi teljast vangefið fólk í þröngri merkingu. Af þeim fjölda er talið, að um helmingur þurfi aldrei á verulegri séraðstoð að halda, aðeins sérstakri hjálp við t.d. allt nám. Hinn helmingurinn er svo talinn þurfa á ýmiss konar félagslegri aðstoð að halda og þar af þurfi helmingur þess fólks, þ.e. 1/4%, að dveljast á hælum einhvers konar. Þetta eru háar tölur, háar tölur miðað við þær, sem áður hafa verið nefndar um vistmannafjölda allra slíkra stofnana í dag. Þessar mjög svo vægt áætluðu tölur eru sem næst 1.500, 1.000 sem þurfa verulega aðstoð og 500 sem beinlínis þurfa hælisvist. Fullskipuð hæli í dag rúma eitthvað um 320 vistmenn, svo að mismunurinn er augljós og ekki ættu þessar tölur að vera til hindrunar í því, að till. okkar yrði rækilega athuguð og fullkönnuð þörfin á þessum heimilum.

Ég ætla ekki að ræða hér ítarlega um það, hver nauðsyn er talin á eðlilegum tengslum aðstandenda við vistfólk, einkanlega fyrstu mánuðina. Af samtölum mínum við ýmsa þá, sem að barnaverndarmálum hafa starfað, þykist ég vera fullviss þess, að hér sé um afar þýðingarmikið atriði að ræða og þeir, sem fengizt hafa við þessi mál eystra af einhverri alvöru, vilja einmitt gera mikið úr því, hve hin mikla fjarlægð geri foreldrum erfitt fyrir og þungbært að senda börn sín hingað suður, þótt brýn nauðsyn kalli á.

Nú er það spurning, sem margir þeir, er um þessi mál fjalla, hafa reynt að svara, hvort hin vangefnu börn eigi að vera heima eða ekki. Við þessu virðast engin algild svör, en ljóst er þó, að mikill fjöldi þeirra þarf af ýmsum ástæðum á séraðstoð að halda, sérstaklega í námi, sem ekki er alls staðar hægt að veita. Mér er t.d. kunnugt um það, að í hinum smærri skólum eru enn lakari og erfiðari aðstæður til séraðstoðar við þau börn, sem litla námsgetu hafa, en þær eru þó í hinum fjölmennari skólum. Það er án efa misjafnt, hvað einstakir skólamenn leggja á sig til hjálpar þessu fólki, en þrátt fyrir það veit ég fjölmörg dæmi þess, að mikið hefur á það vantað, að þessum börnum væri nægilega sinnt og mögulegt reyndist að koma þeim til þess þroska, sem þó hefði verið kleift með skipulegu sérnámi og þjálfun. Það er því ekki sízt úti í hinum dreifðu byggðum, sem þeirrar séraðstoðar og umönnunar er þörf, sem þessi heimili eiga að veita, ef vel tekst til. Misjafna dóma fá þessi heimili, satt er það og sitt sýnist hverjum um gagnsemi þeirra, hversu mikil hún er, en um gildi þeirra almennt er ekki deilt nú orðið. Og sem skólamaður um nær tveggja áratuga skeið hef ég oft fundið sárt til þess, hve vanmegnug við í skólunum höfum reynzt að hjálpa því fólki, sem erfiðast hefur átt og hversu oft við höfum átt þá ósk heitasta, að þetta fólk ætti kost betri umönnunar og aukinnar þjálfunar, í stuttu máli sagt, þeirrar hælisvistar, sem hér er fram á farið, að veitt verði í landsfjórðungunum, eða þá sérstakrar aðstoðar annarrar.

Allt hnígur þetta mjög í þá átt að renna stoðum undir tillöguflutning okkar. Ég þykist þess líka fullviss, að ekki muni standa á samtökum fólksins heima fyrir að vinna ötullega að þessum málum, ef á þau kæmist hreyfing frá hendi yfirvalda heilbrigðis— og félagsmála. En á stuðning beggja þeirra aðila treysti ég fullkomlega.

Ég vil að lokum aðeins benda á það, að hér er skorað á ríkisstj. að beita sér fyrir byggingu slíkra vistheimila. Auðvitað hlýtur það að verða rækilega kannað fyrst, hverjir möguleikar eru á rekstri þessara heimila og hver þörfin er. Ég þykist hins vegar þess fullviss og það erum við flm. allir, að einmitt rækileg könnun þessara mála leiði bezt í ljós réttmæti þessa tillöguflutnings og því skal treysta, að framkvæmdin verði í fullu samræmi við þær niðurstöður.

Herra forseti. Ég legg til, að, að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til hv. allshn.