25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í D-deild Alþingistíðinda. (4399)

179. mál, Vestfjarðaáætlun

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti: Á þskj. 343 leyfum við óbreyttir þm. Vestf. okkur að leggja fram till. til þál. um annan áfanga í samgönguþætti Vestfjarðaáætlunar. Svonefnd Vestfjarðaáætlun hefur alloft verið til umr. á þessu þingi og er nokkur saga, en aðalástæðan fyrir því, að við leggjum þessa till. fram, er hins vegar sú, að sú skoðun virðist vera afar ríkjandi nú, þegar rætt er um heildaráætlun um samgöngumál í okkar landi, að samgöngumál á Vestfjörðum séu öll komin í hið bezta horf og sé þar nánast lokið því, sem gera þurfi með sérstökum vegáætlunum. Þetta er alger misskilningur, eins og ég vil leyfa mér og leitast við að benda á hér á eftir.

Fyrst vil ég fara örfáum orðum um aðdraganda þessa máls og sögu þess. Ég hygg, að því hafi fyrst verið hreyft á þingi 1959 með frv. til l. um auknar framkvæmdir í vegagerð á Vestfjörðum og Austfjörðum, sem flutt var af hv. þm. Hermanni Jónassyni, Sigurvin Einarssyni og Páli Þorsteinssyni, að taka sérstakt lán til vegaframkvæmda. Gert var ráð fyrir að verja 10 millj. kr. í því skyni, sem var allveruleg upphæð í þá tíð. Frv. þetta var flutt fjórum sinnum á þingi, 1959, 1960, 1961 og 1962 og var að lokum vísað til ríkisstjórnarinnar.

Næsti þáttur þessa máls er samþykkt þáltill. um fimm ára framkvæmdaáætlun til stöðvunar fólksflótta frá Vestfjörðum, sem hv. þm. Gísli Jónsson var 1. flm. að og samþ. var 19. apríl 1963. Þar var gert ráð fyrir, að í lok þess árs lægi fyrir slík áætlun og yrði hún til fimm ára. Málinu var einnig hreyft með brtt. við fjárlög ársins 1964, 1965, 1966 og 1967, þegar hv. þm. Vestf„ Hermann Jónasson og Sigurvin Einarsson, báru fram brtt. um 10 millj. kr. framlag til vega og 10 millj. kr. til stöðvunar á fólksflótta í samræmi við þá þáltill., sem samþ. hafði verið, eins og ég sagði áður, í apríl 1963.

Þessar aðgerðir allar koma málinu af stað og verða til þess, að hafin er framkvæmd við samgönguþátt Vestfjarðaáætlunar, sem við leyfum okkur að kalla svo, með lánsfjármagni að verulegu leyti frá ákveðnum sjóði Evrópuráðsins. Til undirbúnings þeim framkvæmdum voru fengnir hingað sérfræðingar, m.a. Norðmenn ásamt íslenzkum aðilum, sem unnu að þeirri áætlun, sem það fjármagn rann til. Í örfáum orðum var sú framkvæmd, sem þar var um að ræða, fyrst og fremst sú að leggja góða vegi, bætta vegi út frá þéttbýliskjörnum Vestfjarða, en að sjálfsögðu skilst öllum, að sú framkvæmd er ekki nema lítill þáttur í nauðsynlegri lagfæringu vega í kjördæminu í heild. Ég vil taka það fram, að mér sýnist, að það sem þarna hefur verið gert, sé mjög góðra gjalda vert og er nú ástandið víða á fjallvegum á Vestfjörðum á milli þéttbýlisstaða stórum bætt og vel viðunandi, þó að víða séu stórátök, sem enn er ólokið.

Í þessari þáltill., sem við nú flytjum, leggjum við hins vegar höfuðáherzlu á það, að þessir bættu vegir og aðalbyggðir Vestfjarðakjördæmis verði tengdir við vegakerfi landsins. Ég leyfi mér að fullyrða, að ekki mun í öðrum landshluta svo stór hluti af íbúum kjördæmis vera í nánast engu vegasambandi við þéttbýli og aðalvegakerfi landsins eins og á Vestfjörðum, nema e.t.v. kunni að vera á Suðausturlandi. En þar á nú að bæta úr, eins og menn vita, með mjög myndarlegu átaki.

Við gerum með þessari þáltill. ekki ráð fyrir því, að með sérstakri áætlun verði unnið að fjölmörgum nauðsynlegum verkefnum eins og lagfæringum vega í byggð og milli þeirra góðu vega, sem nú hafa verið lagðir. Það teljum við vera verkefni vegáætlunar. Hins vegar hefur komið mjög átakanlega í ljós við störf okkar þm. Vestfjarða, að undirbúningi að vegáætlun eða kafla hennar, sem fjallar um Vestfjarðakjördæmi, að afar stórum þáttum þar verður alls ekki sinnt á hinni venjulegu vegáætlun. Ég vil aðeins nefna þar örfá dæmi.

Tengsl Vestfjarða við aðalvegakerfi landsins verða að öllum líkindum með tvennu móti. Annars vegar tengist suðurhlutinn með vegi, sem nú er um Barðastrandarsýslu, en norðurhlutinn tengist með nýjum vegi um Djúpið, nýjum vegi að Ögri og lagfæringu vegar, sem þaðan er og breytingum sem á þarf að gera. Engin af þessum framkvæmdum er nánast hugsanleg á vegáætlun. Af Djúpvegi er mér sagt að nú sé aðeins lokið 8—9%. Af vegaframkvæmd á Djúpvegi aðeins að Ögri, þar sem enginn vegur er, er áætlað ólokið um 90 millj. kr. Það hefur verið rætt um að ljúka þeirri framkvæmd á þremur árum og ég vil lýsa eindregnum stuðningi mínum við þá ráðagerð og mun gera það, sem ég get og við allir þm. Vestfjarða, til þess að svo megi verða. En það verður ekki gert á vegáætlun.

Um syðri leiðina er raunar nokkuð svipaða sögu að segja, þótt þar sé gamall og mjög erfiður vegur. Það eru stórkostlegar framkvæmdir, sem ekki hefur verið hreyft við þar, vegagerð um eða yfir Þorskafjörð eða innfirði Þorskafjarðar, vegagerð um hálsa þar, sem ávallt lokast í fyrstu snjóum og vegagerð um firði, sem eru snjóþungir, eins og Vattarfjörður og fleiri. Ég ætla ekki að telja upp alla kafla, sem þar er ólokið og ekki verður gert á hinni venjulegu vegáætlun. Ég vil nefna þar þó sem dæmi, að ágætur vegur hefur verið lagður yfir eina erfiðustu heiðina, Þingmannaheiði, en þó er það svo, að hann situr þar eins og nokkurs konar eyja, beggja vegna er ólokið köflum, m.a. kafla út á svonefnt Hörgsnes, sem þar er og er áætlað, að sá vegur kosti einn 15 millj. kr. og er hann þó ekki nema tiltölulega mjög lítill kafli af því, sem ólokið er á þessari leið. Það hefur einnig komið mjög í ljós, þegar rætt hefur verið um vegaframkvæmdir t.d. í Dýrafirði og í Önundarfirði, sem eins og ég sagði áðan mætti ætla að framkvæma yrði á hinum venjulegu vegalögum og vegáætlun, að þar eru stórkostleg átök nauðsynleg, athuganir og framkvæmdir, til þess að unnt sé að vinna skipulega að endurbótum á þeim vegum. Í Dýrafirði hefur komið til greina og er í athugun að leggja veg yfir Fjörðinn innanverðan, þar sem grynning er og nes beggja vegna. Það er í fljótu bragði skoðun verkfræðinga, að sú framkvæmd sé hagkvæm. Hún sparar mikla vegalögn um óbyggð svæði fyrir innan þessa vegi yfir fjörðinn og mundi verða arðbær á skömmum tíma. En það er ljóst, að slík framkvæmd, sem gæti kostað 30–40 millj. kr., verður ekki heldur gerð á hinni almennu vegáætlun. Aftur á móti er einnig ljóst, að vegagerð öll í Dýrafirði bíður að meira eða minna leyti eftir því, að lokið verði þessari athugun og ákvörðun tekin um það, hvort fara beri þarna yfir fjörðinn eða fyrir hann.

Mjög svipaða sögu er unnt að segja úr Önundarfirði. Í Önundarfirði kemur til greina að fara yfir fjörðinn á þremur stöðum, yfir vaðalinn og yfir útfall hans eða ósinn á tveimur stöðum. Verkfræðingar telja einnig, að þessi framkvæmd sé hagkvæm og arðbær, en þarna er aftur sömu söguna að segja. Það verður ekki ráðizt í nauðsynlegar endurbætur á vegum í Önundarfirði fyrr en ákveðið er, hvaða leið verður þarna farin.

Ég nefni þetta sem dæmi um mjög mikilvæga áfanga í vegamálum Vestfjarða, sem ekki verða framkvæmdir á hinni almennu vegáætlun, en er ólokið og standa beinlínis í vegi fyrir eðlilegri framkvæmd vegamála í þessu kjördæmi. Ég vil einnig nefna það, að á þeirri áætlun, sem unnið var að fyrir 3–4 árum, er enn ólokið vissum köflum, eins og frekari lagfæringu Bolungarvíkurvegar. Það er ekki lokið malbikun Ísafjarðarflugvallar, það er ekki lokið vegaframkvæmdum á Breiðadalsheiði, svo að eitthvað sé nefnt og tökum við sérstaklega fram í þessari till., sem við leggjum hér fram, að þessum þáttum verði lokið hið fyrsta.

Þá vil ég segja örfá orð um Strandasýslu. Strandasýsla hefur að okkar viti af einhverjum óskiljanlegum ástæðum verið skilin frá okkar kjördæmi að verulegu leyti. M.a. er hún nú í Norðurlandsáætlun og við erum þeirrar skoðunar einróma, að þessi aðgreining sé mjög til óhagræðis. Við teljum eðlilegra, að hún fylgi því kjördæmi, þar sem henni hefur verið skipað. Við viljum hins vegar ekki verða til þess að tefja vegaframkvæmdir í Strandasýslu, hvaðan sem fjármagnið fæst, hvort sem það er af Norðurlandsfé eða öðru, en leggjum áherzlu á það hins vegar, að í þeirri áætlun, sem gerð yrði um vegamál í Vestfjarðakjördæmi, verði lögð áherzla á að tengja Strandasýslu betur en nú er við aðra hluta kjördæmisins með vegum þar yfir heiðar, Tröllatunguheiði eða Laxárdalsheiði. Og við leggjum sömuleiðis áherzlu á, að ef einhverjum hlutum Strandavegar verður ekki lokið með því fjármagni, sem fáanlegt verður til Norðurlandsáætlunar, verði gert ráð fyrir því að taka það með í þennan þátt Vestfjarðaáætlunar í samgöngumálum.

Ég vil svo að lokum leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa niðurlagsorð þessarar þáltill., sem skýra ýmislegt af því betur, sem ég hef nú lauslega drepið á. Þar segjum við:

.,Jafnhliða því, sem unnið er að hinum stóru framkvæmdum samkv. sérstakri áætlun, m.a. á sviði vegamála, verður að leggja áherzlu á endurbætur á vegum í hinum ýmsu hreppum samkv. hinni almennu vegáætlun. M.a. er mjög áberandi á Vestfjörðum. eftir að góðir fjallvegir hafa verið lagðir á milli fjarða, hve vegir um byggð eru lélegir. Víða eru þeir ófærir fram eftir vori vegna skafla og bleytu, þótt hinir nýju fjallvegir séu opnir. Veldur þetta að sjálfsögðu miklum erfiðleikum og lélegri nýtingu fjallveganna. Úr þessu er nauðsynlegt að bæta hið fyrsta, ef hinir nýju vegir eiga að koma að fullum notum, en eðlilegt virðist, að það sé gert samkv. hinni almennu vegáætlun.

Ekki hefur heldur verið gert ráð fyrir svonefndri varanlegri vegagerð í þeirri áætlun, sem hér er lagt til, að gerð verði. Vegna sjávarútvegsins og fiskvinnslu er þó orðið nauðsynlegt að leggja olíumöl, malbik eða steypa vegakafla í kringum fiskvinnslustöðvar. Svo mun þó vera víðar, m.a. af þessari sömu ástæðu og vegna mikillar umferðar, t.d. frá Ísafjarðarflugvelli og út í Hnífsdal. Slíkt þarf að kanna sérstaklega.

Höfuðtilgangurinn með þessari þáltill. er að fá unnið skipulega að því að tengja þá nútíma vegakafla, sem hafa verið lagðir á undanförnum árum út frá þéttbýliskjörnum á Vestfjörðum og á fáeinum stöðum í Strandasýslu, vegakerfi landsins sem fyrst og sem bezt.“

Ég vona, að með þessum orðum hafi mér tekizt að sýna fram á, að víðs fjarri er því, að lokið sé þeim framkvæmdum í vegamálum Vestfjarða, sem ber að gera með sérstakri vegáætlun. Ég vona, að mér hafi tekizt að hrekja þann misskilning, sem eins og ég sagði í upphafi, mér virðist nokkuð ríkur í þessu sambandi. Með þessum orðum vil ég svo að lokum mælast til þess, að till. verði vísað til hv. allshn.