25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í D-deild Alþingistíðinda. (4400)

179. mál, Vestfjarðaáætlun

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er meðflm. á þessari till. ásamt 2. þm. Vestf. Mér þykir því rétt að segja nokkur orð. Ég vil taka það fram, að ég er sammála hv. 1. flm. um þau verkefni, sem blasa við í vegagerð á Vestfjörðum og ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða frekar um þann þátt málsins. En hv. þm. vék nokkuð að sögu Vestfjarðaáætlunarinnar og hann hóf mál sitt og lauk máli sínu með því að tala um, að það væri almennur skilningur eða almennt álit, að það væri búið að gera allt, sem þyrfti að gera í vegamálum á Vestfjörðum og þess vegna væri þungt fyrir fótum í þessum málum. Mér kemur þetta dálítið á óvart. Það hefur aldrei hvarflað að mér, að það væri nokkru lokið í þessu efni og ég hef heldur ekki orðið var við þá skoðun hjá Vestfirðingum, að þeir teldu, að það væri öllu lokið, búið að vinna allt, sem þyrfti að vinna í þessum málum. Mér liggur við að halda, að þessi skoðun sé bundin við einhverja hópa, sem hv. þm. umgengst meira, en almennt gerist og þá hljóta böndin að berast að stjórnarliðinu og ríkisstj. En ef þetta er skilningur þar, þá er þetta mjög alvarlegt mál og við þurfum að standa á verði gegn slíkum misskilningi. Og ég leyfi mér að efast um, að hér sé um misskilning að ræða, heldur gæti ég haldið, að hér væri tylliástæða til þess að standa á móti þeim eðlilegu till., sem hv. 1. þm. Vestf. og við aðrir þm. Vestf. berum hér fram.

Hv. 1. þm. Vestf. vék nokkuð að sögu Vestfjarðaáætlunarinnar. Ég ætla nú ekki að fara að fjölyrða um það mál hér. En ég get ekki látið hjá líða að skýra frá því, að hér heyrði ég ýmislegt, sem ég hef ekki áður heyrt sem þátt í sögu Vestfjarðaáætlunarinnar. Og ef á að segja sögu Vestfjarðaáætlunarinnar, þá var vissulega mörgu sleppt og því, sem ég held, að sé meira atriði en það, sem hv. 1. þm. Vestf. var að rifja upp. Ég hef aldrei heyrt það fyrr, ég hef aldrei heyrt því haldið fram fyrr, að till., sem borin var fram 1958 um aukið vegafé á Vestfjörðum og Austfjörðum, sé upphaf Vestfjarðaáætlunar. Ég leyfi mér að fullyrða, að fyrir 1958 hafi einstakir menn borið fram till. um auknar fjárveitingar, bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þetta er ekki upphaf Vestfjarðaáætlunar. Vestfjarðaáætlunin var hugsuð sem allt annað en smávegis aukafjárveitingar í einstaka vegi á Vestfjörðum og í leiðinni á Austfjörðum. Vestfjarðaáætlunin var hugsuð sem alhliða uppbygging þessa landshluta, ekki einungis í samgöngumálum og ekki þá einungis í vegamálum. Hvað varðar samgöngumálin, þá átti uppbyggingin að vera í vegamálum, í hafnarmálum og í flugmálum.

En samgönguþátturinn var ekki nema einn þáttur Vestfjarðaáætlunarinnar., eins og hún var hugsuð í upphafi. Í kjölfar samgönguáætlunarinnar átti að fylgja áætlun í atvinnumálum, í félagsmálum, í menningarmálum. Þegar við tölum um alhliða áætlun til að byggja upp og efla heilan landshluta, þá tölum við um þetta allt. Og það var í þessu efni, sem Vestfjarðaáætlunin markaði tímamót í viðleitni manna til þess að efla jafnvægi í byggð landsins. Og upphaf þessa er þáltill., sem borin var fram á Alþ. 1962 af Gísla Jónssyni, hv. 1. þm. Vestf. af Gísla Jónssyni o.fl. Nákvæmara er að segja af Gísla Jónssyni og Kjartani J. Jóhannssyni. Það voru ekki aðrir þm. Vestf., það voru ekki fleiri.

Næsti þáttur hv. 1. þm. Vestf. í söguskýringu hans á upphafi Vestfjarðaáætlunar eru brtt. við fjárlög. Jú, það datt einhverjum í hug á þessum árum. Það datt einstöku þm. í hug á þessum árum, eins og jafnan, að bera fram brtt. við fjárlög. Auðvitað. En mestar umr. um Vestfjarðaáætlunina voru á Alþ. 1964 og 1965 og það var vegna þess, að þá var ræddur sá þáttur þessara mála, sem allt veltur á og það er að afla fjár til framkvæmdanna. Ég ætla ekki að fara að rifja upp þær umr. Það mundi taka langan tíma.

Hv. 1. þm. Vestf. sagði, að það hefði komið fé frá ákveðnum sjóði Evrópuráðsins, eins .og hann orðaði það. Já, það kom fé frá ákveðnum sjóði Evrópuráðsins og þennan sjóð köllum við Viðreisnarsjóð Evrópuráðsins, við skulum nefna þetta með réttum nöfnum. En umr. 1964 og 1965 snerust ákaflega mikið um það, hvort rétt væri að taka þetta lán. Það voru menn, sem töldu, að þetta væri ekki rétt. Og þeir lögðu svo mikla áherzlu á andstöðu sína við það að skapa grundvöll fyrir Vestfjarðaáætluninni, að þeir sögðu, að það gæti verið þjóðhættulegt að taka lán í þessum sjóði, sem þeir skírðu Flóttamannasjóð. Og þeir tóku auðvitað sjálfa sig alvarlega, þessir menn. Þegar þeir voru búnir að skíra sjóðinn Flóttamannasjóð, þá sáu þeir flóttamenn streyma til Íslands hvaðanæva að, til Vestfjarða. Og það var meira að segja sagt, að hætta yrði á því, að Jamaicamenn brytu niður íslenzkt þjóðerni á Vestfjörðum, ef tekið yrði lán í þessum sjóði.

Ég sagði, að ég ætlaði ekki að fara að rifja upp þessa hluti og mig langar ekki til þess að fara að hefja allsherjarumræður um þetta. En síðan þetta skeði, held ég, að allir séu sammála um það, að rétt hafi verið að taka þetta lán og það hafi haft sína miklu þýðingu fyrir Vestfirði.

Nú er verið að tala um framhald Vestfjarðaáætlunar eða samgönguþáttarins. Ég vek athygli á því, að hv. 1. þm. Vestf. talaði aðeins um vegamálin. En eins og ég sagði áðan, þá var samgönguþáttur Vestfjarðaáætlunarinnar jafnt um vegamál, hafnamál og flugmál. Og það voru gerð stór átök í öllum þessum greinum. Og ég tel, að við megum ekki missa sjónar á því, að það er margt ógert enn á öðrum sviðum samgöngumálanna á Vestfjörðum en vegamálanna. En ég vil ekki draga úr því, sem hv. þm. sagði um nauðsyn þess að auka við það, sem gert hefur verið í vegamálum.

Í till. segir og hv. þm. lagði áherzlu á það réttilega, að gerð yrði framkvæmdaáætlun um veigamestu verkefnin og unnið skipulega að málunum. Auðvitað er þetta sjálfsagt. En þetta var ekki gert almennt, áður en Vestfjarðaáætlunin kom til. Að þessu leyti braut Vestfjarðaáætlun blað í sögunni. Nú er talað um framkvæmdaáætlanir, skipulegar framkvæmdir í framfaramálum allra landshluta. Nú þykir þetta alveg sjálfsagt. Og vegna þess að það er sjálfsagt, þá er þetta ekki aðalatriði þeirrar till., sem hér liggur fyrir. Aðalatriðið er það, að veitt sé sérstakt framlag umfram venjulegar fjárveitingar til þeirra framkvæmda, sem við erum að tala um, umfram venjulegar framkvæmdir. Og ef við meinum eitthvað með þessu, þá verðum við að gera okkur grein fyrir því, að það er ekki hægt að gera alla hluti í einu. Ef við höldum því fram og tölum þannig, þá er það lýðskrum og ekkert annað. Við getum ekki gert um allt land sams konar hluti, — og það er heldur ekki ástæða til þess — og við ætluðum að gera og upphaflega var hugsað með Vestfjarðaáætluninni. En það er ákaflega þýðingarmikið að ljúka því verki, sem hafið var með Vestfjarðaáætluninni. Það á að ganga á undan að ljúka því, áður en önnur verkefni eru tekin fyrir. Ef við fáum ekki sérstakt fjármagn í þessum skilningi til þeirra framkvæmda, sem hér um ræðir, þá er þessi till. harla lítils virði. En ég ætla að vona og ég ætla, að ég megi treysta því, að hæstv. ríkisstj. sjái til þess, að það verði veitt með einum eða öðrum hætti sérstakt fjármagn í þessu skyni, til þess að ekki þurfi að koma að því, að í framkvæmd hafi 1. þm. Vestf. og við hinir, sem fylgjum honum á þessari till., verið aðeins með sýndartillögu.