11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í D-deild Alþingistíðinda. (4415)

188. mál, fasteignaskráning og fasteignamat

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 355 um fasteignaskráningu og fasteignamat, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að leggja nú þegar fram á Alþ. frv. til l. um fasteignaskráningu og fasteignamat, sem tryggi áframhaldandi starfsemi á sama grundvelli og lagður var við gerð aðalmats fasteigna 1970.“

Eins og fram kemur í till., þá er lagt til, að ríkisstj. verði falið að leggja nú þegar fram á Alþ. frv. til l. um þetta efni, en satt að segja virðist það harla broslegt að vera að tala um að fela ríkisstj. ákveðin verk nú þegar, þegar slíkar till. hafa nú legið fyrir þinginu í nær 21/2 mánuð og verð ég að viðurkenna, að það eru mér mikil vonbrigði, að þessi till. hefur ekki fengizt rædd fyrr og ekki hafi verið gripið til einhverra ráðstafana, því að vissulega er fullt tilefni til.

Samkvæmt núgildandi lögum um fasteignamat, sem eru nr. 28 frá 1963, skal fara fram aðalmat á fasteignum 15. hvert ár og samkv. þessum lögum lauk síðasta aðalmati á miðju ári 1970. Það hófst strax upp úr gildistöku þessara laga, og munu ýmsar matsnefndir þegar hafa hafið störf á því ári og sumar þeirra reyndar lokið vissum matsstörfum fyrir árslok 1965. Öllum störfum aðalmatsins eða matsnefnda, sem framkvæmdu þetta aðalmat, lauk, eins og fyrr segir, á miðju ári 1970 og þetta aðalmat tók gildi nú í árslok 1971.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þá augljósu staðreynd, að eignir, sem metnar voru fyrir 7—-8 árum a.m.k. hafa af ýmsum ástæðum breytzt í verði, bæði vegna verðlags og eins hins, að sumar þessara fasteigna voru ekki að fullu byggðar og aðrar hafa síðan verið endurnýjaðar eða bætt við þær að kostum og gæðum. Þannig að það mat, sem fram fór á þessum tíma, er að mörgu leyti orðið úrelt í dag. Eftir að aðalmatinu lauk á miðju ári 1970, þá hafa að sjálfsögðu mjög margar byggingar risið og skipta þær ekki aðeins hundruðum heldur þúsundum um allt land. Þessar fasteignir hafa ekki verið metnar á sama grundvelli og aðalmatið, en samkv. lögum er gert ráð fyrir því, að fram fari millimat, sem framkvæmt er af sérstökum matsnefndum, svokölluðum úttektarmönnum, en það millimat er framkvæmt á allt öðrum grundvelli, á öðrum forsendum en aðalmatið. Af þessum ástæðum hefur þegar gætt mikils misræmis milli mats, sem framkvæmt er samkv. aðalmati og mats, sem framkvæmt er samkv. millimati. Þetta misræmi verður enn áþreifanlegra, þegar nú er gert ráð fyrir því, að fasteignamat sé lagt til grundvallar stórhækkuðum fasteignasköttum og þeir gerðir að mjög verulegum tekjustofnum hjá sveitarfélögum. Nú þegar á þetta reynir í fyrsta skipti, gjalddagi er ákveðinn 15. maí af fasteignasköttum á þessu ári, þá mun koma í ljós, ef ekkert verður að gert, mjög stórfellt misræmi á milli, ekki aðeins matsins, heldur líka þeirra skatta, sem lagðir eru á í samræmi við nefnd möt.

Mér er tjáð, að í Reykjavík einni séu frá því að aðalmati lauk á miðju ári 1970 a.m.k. á annað þúsund íbúðir, sem byggðar hafa verið og eru annaðhvort ekki metnar eða metnar samkv. millimati, þ.e. annars konar mati en allur meginþorri fasteigna eða íbúða hér í Reykjavík sem annars staðar. Það er engum vafa undirorpið, að ef þetta viðgengst, þá mun þetta misræmi koma í ljós og mjög ganga á þá réttarvitund, sem allur almenningur hefur hvað snertir slíkar opinberar framkvæmdir og eins hvað snertir álagningu skatta.

Af þessari ástæðu einni er augljóst mál, hversu þýðingarmikið er, að gripið sé föstum tökum fasteignamat og fasteignaskráning og það sett og gert á þann veg, að allir geti við unað, hvort sem okkur líkar við matið og hvort sem okkur líkar við skattana, þegar þeir eru á lagðir.

Í umr., sem fram fóru hér um skattafrv. fyrr í vetur, voru bornar fram ýmsar fsp. til ráðherra um framkvæmd þessara mála og spurzt fyrir um, hvernig ríkisstj. hygðist haga þessu, hvort hún hygðist ekki kippa þessum hlutum í lag og hvernig yfirleitt hún hygðist framkvæma álagninguna og afla þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar voru til þess, að álagning gæti farið fram. Við þessum fsp: bárust engin svör og var helzt að heyra, að viðkomandi ráðh. væri lítið sem ekkert inni í þessu máli og gerði sér ekki ljóst það vandamál, sem við blasti.

Í dag er kominn 11. apríl. Eftir rétt rúman mánuð er gjalddagi fasteignaskatta, 15. maí og eftir því sem fróðir menn telja og fyrir liggur, þá virðist næstum því útilokað, að sveitarfélög geti fengið upplýsingar frá fasteignamatsnefndum. svo að fullnægjandi sé og hægt sé að vinna úr þessum upplýsingum á þann veg, að hægt sé að leggja á skatta samkv. þeim. Má þar nefna t.d. þá samþykkt, sem gerð var með skattafrv., þar sem misjöfn álagning var gerð eða sett annars vegar á húsnæði undir atvinnu og hins vegar húsnæði fyrir íbúðir. Nú er það svo, að mjög margar eignir eru bæði notaðar til íbúðar og til atvinnurekstrar og þarna þarf mikla útreikninga og uppskiptingu, bæði á húsunum sjálfum og lóðunum og liggur fyrir, að það starfslið, þeir kraftar, sem fasteignamatsnefndir hafa yfir að ráða í dag, geta alls ekki sinnt þessu. Enn fremur þarf varla að taka fram. að lögin frá 1963 gera alls ekki ráð fyrir ýmsum þeim verkefnum, sem fyrir liggja samkv. nýjum frv. og samkv. þeim aðgerðum, sem nú eru fyrirhugaðar. Það væri því ástæða til þess að spyrja um það einu sinni enn, hvernig ríkisstj. hygðist framkvæma þessa hluti og harma ég það í því sambandi, að ekki skuli sjást hér hæstv. ráðh. við þessa umr. og er ekki að sjá, að neinn þeirra sjái ástæðu til að hlýða á þessar umr. hér inni í þingsalnum og er það kannske glöggt dæmi um þá virðingu, sem þeir sýna þeim málum, sem hv. þm. leggja hér fram og gera grein fyrir á þingi. (Gripið fram í.) Já, ég gat þess, að menn væru ekki í þingsal, en það er gott, að einhver hlustar þá úr fjarlægð. Enn fremur verður að gera ráð fyrir því, að þegar um fasteignaskráningu og fasteignamat er að ræða, þá þurfi slík stofnun sem hér er gerð till. um, fasteignamatsstofnun, að sinna ýmsum fleiri verkefnum, sem snerta fasteignamatið, en þeim, er varða skattlagninguna eingöngu. Það var í rauninni ein af grundvallarforsendum hins nýja fasteignamats og var hin fjölþætta gagnasöfnun og vélræna úrvinnsla matsins í rauninni miðuð við það.

Það er deginum ljósara, að ef störfum Fasteignamats ríkisins verður ekki breytt til samræmis við þann starfsgrundvöll, sem lagður var við gerð aðalmatsins og hér hefur verið lýst, þá mun þessi mjög mikilvægi möguleiki glatast. Núgildandi lög skilgreina ekki ofan nefnd verkefni né heldur önnur þau, sem upp kunna að koma og gera verður ráð fyrir, að falli í verkahring fasteignamats. Eins og fyrr segir, þá eru þessi lög sett fyrir tæpum áratug og fasteignaskráning og fasteignamat hefur tekið miklum breytingum á þeim tíma, jafnframt því sem aukin tækni og vélakostur býður upp á aðra og fjölþættari úrvinnslu. Þetta hefur mönnum reyndar verið ljóst, enda hafa nefndir á vegum hæstv. rn. starfað að samningu frv. og mér er kunnugt um, að fyrir liggja drög að frv. til l. um fasteignamat og fasteignaskráningu og verð ég reyndar með tilliti til allra aðstæðna að lýsa undrun minni á því, að ekki skuli hafa verið gerð gangskör að því að leggja þetta frv. fram á þessu þingi og virðast ekki vera nein merki þess, að það sé í vændum.

Nú hefur þessi till. mín legið hér fyrir þinginu, eins og fyrr segir, í 21/2 mánuð og það var gerð till. um, að þetta frv. yrði lagt fram nú þegar, en ekki bólar á neinu frv. Þess vegna er með tilliti til þessara aðstæðna, sem ég hef getið um, þeirra knýjandi aðstæðna, sem álagning fasteignaskatta gefur tilefni til, svo og hinna margvíslegu annarra hlutverka slíkrar stofnunar full þörf og full ástæða til þess að knýja enn á um, að slíkt frv. verði lagt fram sem allra fyrst, svo að eðlilegt framhald og full úrvinnsla eigi sér stað á því aðalmati, sem lauk á árinu 1970 og tók gildi 31. des. s. l.