11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í D-deild Alþingistíðinda. (4425)

189. mál, menntun heilbrigðisstarfsfólks

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 359 till. til þál., sem er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að unnt verði að mennta hérlendis ýmsa starfshópa heilbrigðisþjónustunnar, er nú verða að sækja nám sitt til útlanda. Um er að ræða ýmsa hópa heilbrigðistækna, svo og sjúkra— og iðjuþjálfara, félagsráðgjafa og sálfræðinga. Enn fremur að auka og bæta aðstöðu til kennslu hjúkrunarfólks.“

Ég lít svo á, að okkar ágætu heilbrigðisstofnanir nýtist oft ekki til fulls vegna skorts á sérhæfðu starfsfólki. Þetta kom m.a. greinilega í ljós fyrir um það bil tveim árum, þegar heilbrigðisstjórnin hugðist leigja hótel til dvalar fyrir langlegusjúklinga, svo að sjúkrahúsin gætu stytt biðlista sína. En eftir að ráðamenn sjúkrahúsanna höfðu rætt allar hliðar þessara mála, þá varð það niðurstaðan, að slík ráðstöfun mundi ekki koma að haldi, vegna þess að sjúkrahúsin gætu ekki annað örari umsetningu nema þau fengju aukið starfslið af sérhæfðu fólki og slíkt væri ekki til.

E.t.v. er tilfinnanlegastur skorturinn á hjúkrunarkonum, bæði hjúkrunarkonum með almenna menntun og þá ekki síður hjúkrunarkonum sérmenntuðum. Af sérmenntuðum hjúkrunarkonum, sem skortir, mætti m.a. nefna sérmenntun í stjórnun, í hjúkrunarkennslu, í svæfingum, en sérmenntun í þessum greinum er tveggja ára nám. Þá þörfnumst við einnig sérmenntunar í eitt ár fyrir t.d. heilsuverndarhjúkrunarkonur, fyrir geðhjúkrun, fyrir barnahjúkrun, fyrir skurðstofuhjúkrun, fyrir röntgenhjúkrun o.s.frv. Þarna er því mikil nauðsyn á að skapa möguleika til framhaldsnáms fyrir hjúkrunarkonur. Ekki vil ég leyna því, að upphafið er þegar orðið til hér, en okkur vantar þessa aðstöðu í miklu ríkari mæli en nú er.

Varðandi almenna menntun hjúkrunarkvenna koma tvær leiðir til greina. Í fyrsta lagi stækkun þess skóla, sem fyrir er, Hjúkrunarskóla Íslands og í öðru lagi stofnun nýs hjúkrunarskóla. Stækkun skólans, sem fyrir er, hefur verið margrædd og mikið ritað um þetta mál, en það gengur ekki né rekur og er ekki séð, að það muni á næstunni bera neinn árangur. Aftur á móti hefur Reykjavíkurborg á undanförnum árum haft til athugunar að stofna sérstakan skóla í sambandi við Borgarspítalann og er mér nú tjáð, að það mál sé komið mjög langt á veg, þannig að Borgarspítalinn sé í raun og veru reiðubúinn, þegar tilskilin leyfi fást, til þess að stofna hjá sér nýjan hjúkrunarskóla og vonast ég til, að því máli verði sinnt þannig, að eitthvað rætist úr þeim bráða skorti, sem við eigum við að búa í þessum efnum.

En það eru ótal fleiri starfshópar, sem um er að ræða. Sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfarar eru starfshópar, sem eru nú starfandi við flestar heilbrigðisstofnanir. Það sjúkrahús er ekki reist, varla elliheimili, sem ekki þarf á starfskröftum sjúkraþjálfara að halda, og í a.m.k. tvö ár hefur verið í undirbúningi hér á landi að skapa möguleika til kennslu sjúkraþjálfa og iðjuþjálfa. En það gengur ekki né rekur með þetta heldur og er mér þó tjáð, að Háskóli Íslands hafi tekið til alvarlegrar yfirvegunar að stofna deild, þar sem þessu fólki væri gefinn möguleiki til náms og er ekki vafi á því, að það er eina leiðin til þess að bæta úr þeim skorti, sem hér er nú. Við þurfum a.m.k. á 100 sjúkraþjálfurum að halda í þessu landi innan skamms, en höfum ráð á aðeins 20—30. Eins og ég sagði áðan, fer þörfin fyrir þetta fólk ört vaxandi með aukinni endurhæfingu og sama er reyndar að segja um ýmsa aðra sérmenntaða hópa innan endurhæfingarinnar, að skortur á þessu fólki háir öllum störfum á þessu sviði.

Félagsráðgjafar og sálfræðingar eru enn fremur hópar, sem við þörfnumst mjög. Allir okkar félagsráðgjafar og sálfræðingar eru menntaðir erlendis og það er erfitt að ímynda sér, að þjóð, sem getur menntað og sérmenntað sína lækna, lögfræðinga og presta, geti ekki einnig menntað þessa starfshópa, sem ég er hér að ræða um. Þá þarf einnig að taka það til greina, að fjöldi af ungu fólki hefur hug á að komast í þetta nám. Það er svo, að við sumar verknámsdeildirnar, þar sem hjúkrunarsviðið er kjörsvið, er fjöldi af ungum stúlkum, sem hafa tekið þetta kjörsvið, en fá svo ekki aðstöðu til framhaldsmenntunar einmitt á sínu sviði og þetta er okkur mjög til haga.

Ýmsa hópa heilbrigðistækna, sem mjög fer í vöxt að nota innan heilbrigðisþjónustunnar, er ýmist byrjað að mennta hjá okkur með mjög góðum árangri, eða þá að nauðsyn er að gera slíkt hið allra bráðasta.

Eins og ég gat um áðan, þá verða okkar stofnanir ekki fullnýttar nema stóraukin menntun heilbrigðisstarfsfólks komi til. Varðandi sjúkra— og iðjuþjálfara, þá vil ég geta þess, að eins og ástandið er í dag, þá skortir okkur ekki húsnæði eða tæki til þess að þjálfa fólkið, en okkur skortir aðeins hið sérmenntaða starfsfólk. Það er mín skoðun, að Háskóli Íslands og Tækniskólinn í samvinnu við viðkomandi heilbrigðisstofnanir ættu að geta leyst þessa kennslu af hendi og þannig leyst mikinn vanda innan heilbrigðisþjónustunnar og gefið okkar unga fólki kost á auknu vali. Tillaga þessi er því ósk um, að ríkisstj. hraði athugun og rannsóknum í þessu nauðsynjamáli.