13.04.1972
Sameinað þing: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í D-deild Alþingistíðinda. (4468)

200. mál, samkeppni um teikningar af opinberum byggingum

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég er nú ekki viss um, hvort ég hef náð að nema nógu nákvæmlega fsp. hv. 9. landsk. þm., en ég vona, að mér hafi þó tekizt að leggja í hana réttan skilning, því að ég get ekki gefið úrskurð um það, hvort skilningur hv. þm. á fram komnum þáltill. um þetta mál eða önnur er réttur. Þær bera með sér það, sem í þeirra texta stendur. En ég ætla ekki hér í ræðustól að fara að leggja út af texta þeirra. Hv. þm. gat þar sérstaklega till. um athugun á safnamálum og vegna þess, að hún er fram komin, spyr hann, ef ég hef tekið rétt eftir, hvort vænta megi, að ákvörðun áður tekin um undirbúning að byggingu Þjóðarbókhlöðu verði tekin til endurskoðunar. Svarið við því er nei.