16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í D-deild Alþingistíðinda. (4729)

65. mál, happdrættislán ríkissjóðs

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Austf., að þetta mál, að ljúka hringvegi um landið, er eitt af mestu hagsmunamálum þjóðarinnar allrar. Af því að það kom fram hér í ræðu hv. fyrirspyrjanda, hv. 6. þm. Sunnl., að um nokkurn seinagang mundi hafa verið að tefla í máli þessu af hálfu ríkisstj., þá vil ég taka fram, að eftir þeim kunnugleikum, sem ég hef á þessu máli, er alls ekki um slíkt að tefla, heldur er sérstök ástæða til að þakka bæði hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. fyrir mjög góðar undirtektir þeirra og viðbrögð í málinu. Þetta mál þarf auðvitað mikillar og nákvæmrar athugunar við, útboð sem þetta á happdrættisláninu. Stjórn Seðlabankans kallaði til þm. Austurlands til þess að ræða þetta mál og benti þar á viss atriði í málinu, sem betur mættu fara og okkur þóttu strax horfa til betri vegar. Að vísu er það rétt, að þetta er mál allrar þjóðarinnar og ekki einkamál Austfirðinga a.m.k., og þess vegna er vitanlega fullkomin ástæða til þess, að allir hv. þm, fái að fylgjast sem nánast með þessu máli. En ég hygg, að það sé ekki vilji fyrir því hjá þm. Austf. að halda neinum utan við það, og vel þeginn er allur stuðningur við þetta mikla mál.

Það hefur komið hér fram, að nú verði hafizt handa í þessu máli og vonir standa til, að því verði lokið á næstu þremur árum. Ég hygg, að því muni allir hv. þm. fagna.