25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í D-deild Alþingistíðinda. (4742)

902. mál, rafvæðing dreifbýlisins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Í forföllum iðnrh. mun ég svara þessum fsp. Eins og hv. 1. þm. Vestf. greindi hér frá, þá er spurt hér um tvennt. Í fyrsta lagi: „Við hvaða fjarlægð á milli bæja eða aðrar ytri aðstæður, ef einhverjar, er gert ráð fyrir að miða við mat á því, hverjir skuli fá raforku frá samveitum?“ Svar við þessari spurningu frá iðnrn. er á þessa lund: Tvær viðmiðanir voru notaðar við gerð þeirrar áætlunar, sem þegar hefur hér verið útbýtt á borð hv. þm. og fjallar um áætlunina um það, hvernig og hvenær skuli lokið þeim framkvæmdum að tengja þau sveitabýli í landinu við samveitur, sem enn eru ótengd. Í svari rn. segir: Tvær viðmiðanir voru notaðar. Í fyrsta lagi: Hámark kostnaðar á hvert býli skyldi ekki fara yfir 600 þús. kr. og í öðru lagi: Meðalfjarlægð á milli býla væri ekki meiri en 3 km. Síðari viðmiðunin var ekki mjög ströng, þannig að vikið var frá henni, ef sérstakar aðstæður þóttu réttlæta það og kostnaður fór ekki yfir 600 þús. kr. Þetta var einkum gert, ef fyrirhugaðar voru framkvæmdir á nálægu svæði og verið var að tengja síðasta býlið á tilteknu svæði við samveitur og ekki var um að ræða framhald línunnar. Ég vænti, að þetta sé fullnægjandi svar við þessari spurningu.

Þá er í öðru lagi spurt um, hvenær megi gera ráð fyrir því, að áætlun um rafvæðingu dreifbýlisins í samræmi við málefnasamning ríkisstj. liggi fyrir. Og svar rn. við þessari spurningu er á þessa leið: Áætlun um rafvæðingu sveitanna var gerð af iðnrn. og Orkustofnun í sameiningu í maí í vor. Miðaðist hún við, að rafvæðingu yrði lokið á fjórum árum. Eftir að málefnasamningur ríkisstj. var gerður, var áætlun þessari breytt og miðað var við þrjú ár. Þannig endurskoðuð var hún lögð fyrir ríkisstj. í sept., og samþykkti orkuráð samhljóða á fundi sínum fimmtudaginn 25. okt. s.l. að mæla með henni við iðnrn. Rn. hefur þegar staðfest þá samþykkt orkuráðs. Samkv. áætlunum er gert ráð fyrir, að 765 býli verði tengd samveitum á þessu tímabili. Kostnaður er áætlaður um 290 millj. kr. Sé tillit tekið til endurgreiðslu framkvæmdalána og framlaga, er fjárþörfin áætluð um 300 millj. kr. Utan samveitna yrðu þá eftir 158 býli, og samkv. þeim heimildum, sem tiltækar eru, hafa 87 þeirra mótorrafstöðvar, 27 vatnsaflsstöðvar og 49 eru alveg rafmagnslaus. Eins og ég gat hér um í upphafi máls míns, hefur áætlun um rafvæðingu þeirra sveitabýla, sem enn hafa ekki verið tengd samveitum, verið býtt til hv. þm. Þeir hafa allir þegar fengið í hendur þessa áætlun, en áætluninni lætur rn. fylgja nokkur orð til skýringar. Og rn. segir:

„Rétt þykir af þessu tilefni að fylgja þessari skýrslu úr hlaði með nokkrum orðum. Athygli skal vakin á 5. kafla grg., sem fjallar um rafvæðingu utan samveitna. Það er ljóst, að þessi býli að undanteknum þeim, er hafa nothæfar vatnsaflsstöðvar til frambúðar, þarf að rafvæða með mótorrafstöðvum eða með nýjum vatnsaflsstöðvum, þar sem virkjunarmöguleikar eru fyrir hendi. Til þess að auðvelda þeim bændum, er búa á afskekktum jörðum, að rafvæða býli sín, er lagt til, að lánakjör til mótorrafstöðva verði bætt frá því, sem nú er, bæði með tilliti til lánsupphæðar og lánstíma, og enn fremur er lagt til, að bændur eigi kost á nýjum lánum til að endurnýja slitnar og litt nothæfar stöðvar. Loks er talin þörf á að endurskoða reglur um lánveitingar til vatnsaflsstöðva bænda. Í 7. kafla er fjallað um svonefnd óendurkræf framlög. Þessi framlög hefur ríkisstj. nú samþykkt, að yrðu endurgreidd án vaxta.“

Aftan við grg. eru tvær skrár. Skrá nr. 1 geymir till. um framkvæmdaröð sveitarafvæðingar á þremur árum, og skrá nr. 2 veitir upplýsingar um býli utan samveitna. Till. þessar eru unnar, eins og áður segir, af Orkustofnun og iðnrn. í sameiningu.

Ég vænti svo, að þessar upplýsingar séu fullnægjandi fyrir hv. fyrirspyrjanda.