25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í D-deild Alþingistíðinda. (4758)

909. mál, bygging héraðsskóla

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. menntmrh., varðandi byggingu héraðsskóla, svo hljóðandi:

Hefur ríkisstj. ákveðið að byggja upp alla héraðsskóla á landinu á tilteknu árabili, og ef svo er, hvað er áætlað, að bygging hvers héraðsskóla um sig kosti og hve langan tíma á hún að taka?

Ég skal ekki fara neitt í grafgötur með það, hvers vegna þessi fsp. er fram komin. Ástæðan er sú, að í Ríkisútvarpinu 8. nóv. kom frétt um 40 ára afmæli Reykholtsskóla í Borgarfirði og þar var sagt orðrétt í fréttinni:

„Meðal gesta var fjmrh., Halldór E. Sigurðsson. Hann skýrði frá því, að ríkisstj. hefði ákveðið að byggja upp skólahús Reykholtsskóla á næstu sex árum. Í áætluninni er gert ráð fyrir 150 nemendum, og verður húsrýmið fjórfaldað miðað við það, sem nú er.“

Mér finnst ákaflega vel til fundið, þegar merkar og ágætar stofnanir eins og Reykholtsskóli minnist sérstakra tímamóta, að skólinn fái heilla- og hamingjuóskir frá stjórnvöldum landsins, en hitt finnst mér ekki ánægjulegt, ef því er þannig varið, að það sé aðeins einn héraðsskóli tekinn út úr og ákveðin uppbygging hans í raun og veru þá á kostnað annarra héraðsskóla í landinu. En um það fáum við eflaust að heyra frá hæstv. menntmrh.

Mér finnst rétt að geta þess, að í fjárlögum yfirstandandi árs eru framlög til allra héraðsskólanna, stofnkostnaðarframlög til allra héraðsskólanna, 24 millj. 670 þús. kr. Í þessum framlögum eru framlög til nýbygginga í aðeins þremur héraðsskólum. Í fyrsta lagi til héraðsskólans á Reykjum í Hrútafirði, 1 millj. af því, sem til hans var veitt, til undirbúnings og teikninga að kennsluhúsnæði, en sá skóli, ef ég man rétt, varð 40 ára fyrr á þessu ári og fékk þá enga sérstaka yfirlýsingu um uppbyggingu sina á tilteknu árabili. Í öðru lagi Reykjanesskóli við Ísafjarðardjúp. Þar voru veittar 3 millj. kr. til undirbúnings og byrjunarframkvæmda á stækkun á kennsluhúsnæði við þann skóla. Í þriðja lagi var Reykholtsskóli, og voru til hans veittar 5 millj. kr., til undirbúningsframkvæmda við byggingu 1. áfanga nýrrar heimavistar. Stofnkostnaðarframlag til annarra héraðsskóla var í fjárveitingum þessa árs framhaldsfjárveitingar til að ljúka tilteknum áföngum, sem áður var byrjað á, eða til þess að greiða skuldir við ríkissjóð.

Ég vil vona, að svar hæstv. menntmrh. verði frekar á þá leið, að ríkisstj. hafi gert áætlun um uppbyggingu allra héraðsskóla á landinu, en ekki að taka ákvörðun um uppbyggingu á einum skóla á kostnað hinna. Ég sé ekki örla á því, að það eigi að gera stórátak í sambandi við uppbyggingu héraðsskólanna almennt, því að í fjárlagafrv., sem lagt var fram hér í þingbyrjun, er nákvæmlega sama upphæð og er í fjárlögum yfirstandandi árs til allra héraðsskóla á landinu, en hún á vafalaust eftir að hækka í meðförum fjvn.