25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í D-deild Alþingistíðinda. (4761)

909. mál, bygging héraðsskóla

Jón Árnason:

Herra forseti. Við heyrðum hér áðan skýrslu hæstv. menntmrh. um ákveðnar fjárveitingar á vissu tímabili til héraðsskólanna. En ég tel ástæðu til þess að vekja sérstaka athygli á þeim tölum, sem þar komu fram, að það er nokkur ástæða fyrir þeim í vissum tilfellum, og ég vil í því sambandi benda á það, að bæði Reykjanesskólinn við Ísafjarðardjúp og Eiðaskóli urðu fyrir því áfalli á þessu tímabili, að þeir brunnu, og það varð svo mikið tjón, að ekki varð hjá því komizt að taka þessa skóla út úr og veita þeim verulegar fjárveitingar. Og það á sina sögu, sem sjálfsagt er að segja, hvað þeir hafa fengið meiri fjárveitingar en aðrir. Það var ekki nema um tvennt að gera, annaðhvort lögðust þessir skólar niður ellegar það varð að veita verulegar fjárveitingar til að byggja þá upp á ný, og það var gert.

En að ég tók til máls í sambandi við þessi mál var í fyrsta lagi vegna þess, að ég var viðstaddur skólahátíðina í Reykholti í sumar eða haust, þar sem hæstv. fjmrh. tilkynnti um ákvörðun ríkisstj. varðandi fyrirhugaða uppbyggingu Reykholtsskólans. Með því að ég tel, að þær upplýsingar, sem þar komu fram, bæði frá skólastjóra og fleirum, varðandi áform um áframhaldandi uppbyggingu skólans, hafi verið mjög villandi, vil ég segja hér nokkur orð um þetta mál.

Eins og fram kom hér áðan, er í fjárlögum yfirstandandi árs fjárveiting til nýbygginga í Reykholti um 5 millj. kr., og það var ætlað til byrjunarframkvæmda á næsta áfanga. Það var svo 4. maí s.l., að nefnd þeirri, er fjallar um opinberar framkvæmdir, barst bréf, þar sem farið er fram á heimild til þess að hefja byggingu heimavistarhúsnæðis fyrir 64 nemendur ásamt tveimur kennaraíbúðum. Einnig var farið fram á heimild til þess að byggja húsnæði fyrir mötuneyti, eldhús og borðsal, og í því húsi skyldi einnig komið fyrir heimavist fyrir 28 nemendur í viðbót. Þegar tillit var tekið til þeirrar fjárveitingar, sem hér var um að ræða, var það augljóst mál, að umræddum framkvæmdum yrði að skipta í áfanga, og þá var rætt um það við skólanefndina, hvað skyldi ganga fyrir. Samkomulag varð um það að leggja áherzlu á heimavistarhúsnæði fyrir 64 nemendur og að í því húsi yrðu einnig tvær kennaraíbúðir. Þann 16. júní kemur síðan bréf til nefndarinnar frá menntmrn., þar sem skýrt er frá því, að rn. telji, að frumathugun varðandi næsta áfanga við byggingu Reykholtsskóla sé nú lokið. Á þessum fundi var samþ. að láta ljúka teikningum og öðrum undirbúningi að umræddum áfanga, þ.e. næsta áfanga, og við það miðað, að framkvæmdir gætu hafizt á s.l. sumri. Það var svo seint í ágústmánuði, að ég spurðist fyrir um það, hvað liði undirbúningi og teikningum að væntanlegri byggingu. Ég fékk þá þau svör, að teikningar væru ekki nógu langt komnar, svo að hægt væri að bjóða verkið út. Það skal þó tekið fram, að skólanefndin ásamt skólastjóra hafði ráðið sérstaka arkitekta til þess að vinna verkið, og var þeim falið að fylgja þessu máli eftir, svo að verkinu gæti lokið sem fyrst.

Ég taldi rétt, að þessar upplýsingar varðandi fyrirhugaða uppbyggingu Reykholtsskólans kæmu fram við þessar umr., svo að það verði ekki misskilið. að án þeirrar samþykktar, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert varðandi uppbyggingu á Reykholtsskóla, hefði orðið um stöðnun að ræða á áframhaldandi uppbyggingu skólans. Ég vil hins vegar að lokum sem einn af stuðningsmönnum Reykholtsskóla fagna þeirri ákvörðun ríkisstj., að áframhaldandi uppbygging skólans verði tryggð.