25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í D-deild Alþingistíðinda. (4765)

907. mál, neytendavernd

Fyrirspyrjandi (Sigurður E. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. til hæstv. viðskrh. á þskj. 83 um það, hvað liði undirbúningi að setningu löggjafar um neytendavernd. Ég tel, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða og flutti s.l. vor þáltill. um, að ríkisstj. væri falið að gangast fyrir gerð lagafrv. í þessa átt. Sú till. fékk þó ekki afgreiðslu, enda var þingi rétt að ljúka, en hins vegar mun þáv. hæstv. viðskrh. hafa lagt þá þegar drög að samningu slíks frv. Er fsp. mín nú í beinu framhaldi af því.

Það er sjálfsagt óþarfi að fara beinum orðum um nauðsyn þess, að sett verði hér á landi lög um neytendavernd. Mér virðist það blasa við, og í rauninni hefði átt að vera búið að setja þau fyrir löngu. Mér sýnist réttur neytandans vera mjög fyrir borð borinn hvert sem litið er. Sterk og öflug gróðaöfl sækja fast að neytendum og nota í sína þágu öflugustu áróðurstæki nútímans, sjónvarp, útvarp og dagblöð. Herkostnaðinn gegn sjálfum sér borgar þó auðvitað neytandinn sjálfur, því að vitaskuld er áróðurskostnaðurinn innifalinn í verði þeirrar vöru eða þjónustu, sem hann er svo eindregið hvattur til að kaupa. En það er þó ekki aðeins, að neytandinn sé í svo ríkum mæli ofurseldur mætti hinna öflugu áróðurskerfa, heldur ber einnig tvennt annað til. Í fyrsta lagi eru framleiðendur og seljendur í hinum vestræna heimi löngu komnir upp á lag með að skapa þarfir hjá neytendum, telja þeim trú um, að hin og þessi þörfin sé fyrir hendi, og siðan framleiða þeir vörur og þjónustu til að mæta henni. Í annan stað er á það að líta, að neytendur hafa oft og tíðum litla sem enga tryggingu fyrir gæðum þeirrar vöru, sem að þeim er haldið og þeir svo gjarnan festa kaup á. Oft og tíðum reynist vera um lélegar vörur að ræða, en þá verður þó engum vörnum við komið. Seljendur fara gjarnan undan í flæmingi og telja sig lítt ábyrga, og einstaklingurinn fær litlu eða engu áorkað. Vitaskuld er ekki því að leyna, að á þessu sviði sem öðrum er að finna fjölda heiðarlegra framleiðenda og seljenda, en því miður er líka of mikið af hinu taginu, því, sem ég var að lýsa. Enginn opinber aðili, hlutlaus og réttsýnn, hefur þá ábyrgð á hendi hér á landi að framkvæma gæðakönnun á þeim varningi eða þjónustu, sem boðin er til sölu, og enginn slíkur hefur heldur tök á að tryggja, að framleiðendur og auglýsendur gangi ekki langtum of langt í áróðurssókn sinni á hendur neytendum. En einmitt slíkur aðili þarf að koma til sögunnar og það fyrr en síðar. Það verður ekki gert nema með sérstakri lagasetningu, og ég vænti þess, að hún sé í bígerð.

Hér á landi hafa tveir aðilar borið hita og þunga þess starfs, sem unnið hefur verið í þágu neytenda á þessu sviði undanfarin ár. Ég hygg, að öllum sé kunnugt um það, að það eru Neytendasamtökin og Kvenfélagasamband Íslands. Öllum hv. alþm. mun að nokkru kunnugt þetta starf, m.a. af því að fjárlagastyrkur til þeirra mun nú samtals nema um 800 þús. kr. Ég tel, að því fé sé vel varið. Neytendasamtökin halda uppi verulegri starfsemi í þágu neytenda, einkum upplýsingastarfsemi að því er mér hefur virzt, og Kvenfélagasambandið heldur einnig uppi viðtækri fræðslustarfsemi fyrir félagsmenn sína, sem eru um 18 000 talsins. En svo vel sem um alla þessa starfsemi er, þá er þó skemmst frá því að segja, að hún er engan veginn fullnægjandi nú á tímum. Hér er þó þrátt fyrir allt aðeins um fremur veikburða félagasamtök að ræða, sem vitaskuld eru vanmegnug gagnvart miklum fjölda öflugra og auðugra framleiðslu-, sölu- og áróðursfyrirtækja. Ætla mætti þó, að stoð kynni að vera í lögum um ólögmæta verzlunarhætti nr. 84 frá 1933. En hvort tveggja er, að vafalaust þyrftu þau mikillar endurskoðunar við, og eins hitt, að samkv. síðasta tölublaði Neytendablaðsins, nr. 3 á þessu ári, er dreift hefur verið á borð hv. alþm., þá lýsti háttsettur opinber aðili því nýlega yfir, að þessi lög eigi fyrst og fremst að vernda seljendur fyrir óheilbrigðri samkeppni annarra seljenda og komi neytendum ekki beint við, eins og blaðið hefur eftir þessum ónafngreinda aðila, með leyfi forseta.

Í þessu sama tölublaði er fullyrt, að á Íslandi sé neytandinn hornreka, og mun það ekki ofsagt. Það er líka satt, sem í þessu blaði segir, að löngum hefur lagasetning hér á landi mun frekar verið sniðin með sjónarmið og hag fjármagnseigenda og framleiðenda í huga en hagsmuni neytenda og alls almennings. Það er út af fyrir sig ekki undrunarefni, þótt það sé harmsefni og byggist vitaskuld á þeirri staðreynd, að fjármagnseigendur og gróðaöfl hafa löngum verið ráðamikil hér á hv. Alþ. og í ríkisstj. En allt þetta sýnir, hvílík nauðsyn er á því, að hið opinbera skerist nú í leikinn hinum minni máttar til verndar.

Ég hef svo þessi orð ekki öllu fleiri, herra forseti, en legg áherzlu á, að hér er um að ræða afar stórt hagsmunamál fyrir allan almenning í þessu landi að mínu mati. Í nálægum löndum hafa risið upp samtök og stofnanir, sem gæta hags neytandans gagnvart hinum fíknu gróðaöflum markaðsþjóðfélagsins, sem fás eða einskis svífast, ef því er að skipta. Það hafa einnig verið sett lög í þeim löndum, sem ætlað er að gæta eða tryggja hag hins almenna neytanda í viðskiptum hans við ofurveldi markaðarins. Þótt íslenzka þjóðfélagið sé ekki stórt, þarf engu að siður til að koma slík hagsmunavarzla hér á landi. Hún verður að byggjast á lagasetningu, sem nú á vonandi skammt í land.