07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í D-deild Alþingistíðinda. (4793)

915. mál, íþróttamannvirki skóla

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. menntmrh.:

1. Er ætlunin að breyta þeim reglum, sem nú gilda um stærð íþróttamannvirkja við skóla, þannig að þau séu miðuð við þarfir skólans og íbúa í næsta nágrenni?

2. Er ekki eðlilegast að miða stærð íþróttamannvirkja við það, að þau fullnægi eðlilegum kröfum um keppnisaðstöðu í sem flestum íþróttagreinum?

3. Er ekki nauðsynlegt, að ríkið leggi fé til byggingar sundlauga við skóla á sama hátt og til annarra íþróttamannvirkja?

4. Er ekki nauðsynlegt að marka ákveðna stefnu um það, hvað mörg íþróttahús, sem fullnægja alþjóðakröfum um stærð til keppni, t.d. í handknattleik, skuli reist á næstunni?

Ástæðan fyrir því, að ég hef hreyft þessum málum á þennan hátt hér á hv. Alþ., er fyrst og fremst sú, að ég tel, að við stöndum á tímamótum í þessum málum og því þurfi að endurmeta það, hvernig hagkvæmast sé fyrir okkur að verða við þeim kröfum samtíðarinnar, að æskufólk hvar sem er á landinu hafi sem svipaðasta aðstöðu til hvers kyns íþróttaæfinga og keppni án þess þó, að til þess fari meiri fjármunir en nauðsyn krefur. Víða á landinu eru skólar nú í uppbyggingu, og a.m.k. sums staðar eru þær framkvæmdir það langt komnar, að komið er að byggingu íþróttamannvirkjanna. Það má því ekki seinna vera, að þessi mál séu endurskoðuð og ný stefna mörkuð, því að þær reglur, sem settar voru árið 1969 samkv. skólakostnaðarlögum frá 1967 um stofnkostnað skóla, eru langt fyrir neðan þau mörk í flestum tilvikum, sem samtiðin gerir kröfur til um slík mannvirki. Hinir stóru innanhússhópleikir okkar tíma og hin stórauknu íþróttalegu samskipti milli félaga og ýmissa sambanda, hvað þá við erlenda íþróttaaðila, gera kröfur til aukins rýmis frá því, sem verið hefur. Það hlýtur að blasa við hverjum manni, sem á annað borð hefur fylgzt með þróun þessara mála, að ef stærðarmörkunum verður ekki breytt, þá koma fljótlega upp kröfur í þessum skólahéruðum um að byggja annað íþróttahús, þar sem íþróttahús skólans fullnægi engan veginn þörfum byggðarlagsins. Og það sama gildir um leikvelli. Það hlýtur að vera hagkvæmt fyrir alla aðila, að þessi mannvirkjagerð sé miðuð við að leysa þarfir skólans og skólahéraðsins samtímis, og þá þarf að miða stærð og gerð við það. Miðað við 130 nemenda skóla má ekki byggja stærri íþróttasal með fullri þátttöku ríkisins en 7 X 14 m eða um 100 m2 sal miðað við þær reglur, sem nú gilda. En salur sem fullnægir nútímakröfum þarf að vera 18x33 m. Og eftir sömu reglum má stærð lóðar ásamt leikvöllum ekki vera meiri en 100 m2 fyrir skólann + 30 m2 fyrir hvern nemanda, sem er samtímis í skólanum, eða fyrir 130 nemenda skóla tæplega 3000 m2. En venjulegur íþróttavöllur er 80 X 130 m eða um 10 400 m2. Er ekki eðlilegt og hagkvæmt, að leiksvæði við skóla séu það rúmgóð, að þar megi koma við iðkun og keppni í sem flestum greinum íþrótta, sem iðkaðar eru úti á völlum? Sýnist ekki eðlilegri viðmiðun, að þátttaka ríkissjóðs í gerð leikvalla við skóla sé fremur miðuð við lágmarksstærðir íþróttavalla, sem eru í samræmi við gildandi leikreglur algengustu útiíþrótta, en við ákveðinn fermetrafjölda á hvern nemanda samtímis í skóla og þurfa svo að koma upp æfinga- og keppnisvelli á öðrum stað fyrir viðkomandi byggðarlag? Samkv. gildandi reglugerð virðist einhver vafi leika á því, að sundlaugar skuli reistar við skólann, þó að sund sé ein af skyldunámsgreinunum. Því er spurt, hvort ekki sé rétt að endurskoða þetta reglugerðarákvæði og gera það ákveðnara.

Þar sem vitað er, að ekki er unnt að reisa öll íþróttahús það stór, að þau uppfylli kröfur um alþjóðlega keppni t.d. fyrir handknattleik, er þá ekki nauðsynlegt, að gerð sé áætlun um það, hvað mörg slík hús séu reist í framtíðinni og hvar þau verða staðsett á landinu?