25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í D-deild Alþingistíðinda. (4803)

910. mál, vísitölubinding húsnæðislána

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég var ásamt hæstv. núv. félmrh. aðili að setningu þeirra ákvæða, sem hér er um fjallað í fsp., þ.e. um verðtryggingu byggingarsjóðs, en við áttum þá sæti, ég sem húsnæðismálastjórnarmaður og hann sem fulltrúi alþýðusamtakanna, í þeirri nefnd, sem fjallaði um þann kafla samkomulagsins, sem varðaði húsnæðismál, þau mál, sem þá brunnu mjög heitt á bökum manna vegna síaukinna og langra biðraða fólks við dyr húsnæðismálastjórnar til að fá lausn sinna mála. Og það var alger forsenda þeirrar vísitölubindingar eða þeirrar verðtryggingar, sem svo er nefnd, að það sama gengi yfir öll langtímalán, og við höfum áreiðanlega verið í þeirri góðu trú, sem sátum við það samningaborð þá og gengum inn á þessa hluti á sínum tíma, að svo yrði gert. Eftir þessu var gengið, frá því að þetta samkomulag við verkalýðssamtökin tók gildi, af fyrrv. ríkisstj., ekki einu sinni, heldur oft. Hins vegar mætti það mjög mikilli andspyrnu í velflestum, ég vil ekki segja öllum lánastofnunum landsins, að svo yrði gert, auk þess sem ágreiningur var um, hvað teljast skyldi langtímalán.

Vegna þess, sem ég nú hef sagt, þá er það ljóst, að það er ekkert gert án vitundar eða vilja þeirra aðila, sem að þessu samkomulagi stóðu við þáv. ríkisstj. Ég skal taka það skýrt fram, að við vorum hvorugur þá í ráðherrastól, enda voru það fleiri aðilar, sem komu þar að, og við fengum þær upplýsingar, sem við báðum um í því sambandi. En með því, sem ég nú hef sagt, lýsi ég því yfir sem skoðun minni og Alþfl. alveg afdráttarlaust, að verðtrygging með þessum hætti á að afnemast. Það hefur sýnt sig, að aðrar lánastofnanir í landinu hafa ekki orðið við aðalforsendum þess, að inn á þetta lán var gengið, og þess vegna á verðtrygging með þessum hætti að afnemast. Forsendurnar fyrir verðtryggingunni eru algerlega brostnar. Ég vona, að þessi skoðun mín sé öllum ljós. Það er hins vegar ríkjandi um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, að ríkið tekur á sig verðtryggingu hans og forðar honum frá rýrnun verðbólgunnar, sem velflestum ríkisstj. undanfarinna áratuga hefur því miður gengið illa að halda í skefjum, þó að við getum deilt um það, hve misjafnlega illa það hefur gengið. Staðreyndin er sem sagt sú, að þær forsendur, sem lágu til verðtryggingarinnar á sínum tíma, eru að mínu viti og okkar Alþfl.- manna brostnar og þess vegna ber að afnema hana í því formi, sem nú er. Mér er hins vegar ljóst nú, eins og þegar þetta samkomulag var gert, að þetta þýðir rýrnun á Byggingarsjóði ríkisins. Það þýðir það, að hann kann að öðru óbreyttu að geta veitt færri lán, ef ekkert er annað að gert. Þess vegna ber að tryggja með öðrum hætti það fé, sem til byggingarsjóðsins rennur, og þá verður fyrst fyrir að hugsa, hvort ekki sé eðlilegt að taka fordæmi frá lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Við göngum þess ekki dulin, ég hygg ekki einn einasti alþm., hve þörfin fyrir aukið fé er mikil, en það er jafnframt ljóst, að þau háu lán í krónutölu, sem veitt eru út á íbúðir, eins og t.d. Breiðholtsíbúðirnar, þau valda mikilli gjaldabyrði á fólki, vegna þess að það er fyrst og fremst valið þangað eftir slæmum efnahag, og forsenda þess, að það fái íbúð þar, á að vera slæmur efnahagur. En þetta fólk stendur ekki undir almennum vöxtum hvað þá þeirri gjaldabyrði, sem verðtryggingin nemur.

Á sama tíma sem við erum að reyna, hver eftir sinni beztu getu, að koma til móts við þetta fólk, þá má verðtrygging með þessum hætti ekki vera áfram, því að hún er nú orðin blekking. En við trúðum því sjálfir á sínum tíma, að við værum virkilega að hjálpa þessu fólki, sem erfiðast ætti með að fá þak yfir höfuðið. Ég ítreka, að forsendurnar fyrir tryggingunni eru brostnar, og þess vegna ber að afnema hana.

Það kann að vera fróðlegt, þegar Alþýðusambandið hefur fengið sinn tíma til þess að yfirfara þessar skýrslur, sem fyrr. félmrh. bað Seðlabankann og Alþýðusambandið að vinna að, en við þurfum, enginn okkar, hvar sem við erum annars í stjórnmálaflokkum, að láta okkur dreyma um annað en það sýni svimháar upphæðir, sem þessi verðtrygging hefur lagt á þjóðina. En þetta var að okkar dómi, sem að þessu samkomulagi stóðum á sínum tíma, gert til þess að tryggja, að fleiri fengju lán, að biðraðirnar hjá húsnæðismálastjórn styttust og hægt væri frekar að segja fólki fyrir fram, hvenær að því kæmi. En þar sem ekki hefur reynzt mögulegt að framkvæma þau loforð og þær forsendur, vil ég segja, sem fyrir verðtryggingunni lágu, þá ber nú að afnema hana.