01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í D-deild Alþingistíðinda. (4831)

913. mál, endurbætur vegna hraðfrystiiðnaðarins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég tel réttast að lesa hér svarbréf frá nefnd þeirri, sem hv. þm. hefur hér minnzt á í sambandi við þetta mál og hefur starfað nú um skeið, nefnd til þess að gera till. um umbætur í hraðfrystihúsum landsmanna með tilliti til hollustuhátta sérstaklega. En bréf þessarar nefndar varðandi þessar fsp. hv. þm. er á þessa leið:

„Vér höfum móttekið bréf rn. dags. 30. nóv., þar sem óskað er eftir álitsgerð frá oss um fsp. frá Steingrími Hermannssyni í Sþ., 105. mál, um endurbætur á hraðfrystiiðnaði landsmanna vegna hinna ströngu ákvæða, sem verið er að lögbinda á erlendum mörkuðum um alla meðferð á fiski og fiskafurðum. Fer álitsgerð vor hér á eftir lið fyrir lið, en texti fsp. verður ekki endurtekinn.

1. Áætlanir liggja ekki enn þá fyrir um kostnaðinn af þeim endurbótum, sem nauðsynlegar eru í hraðfrystiiðnaði landsmanna, til þess að hann uppfylli þær kröfur, sem verið er að lögbinda í markaðslöndum okkar. Það er þó ljóst, að hér verður um mjög háar upphæðir að ræða, bæði fyrir sveitarfélögin og hraðfrystihúsin sjálf. Þess ber líka að gæta, að flest eru hraðfrystihúsin gömul og mörg byggð af vanefnum. Hjá flestum þeirra standa því fyrir dyrum einhverjar breytingar aðrar en þær, sem snerta kröfur viðskiptalanda okkar, og hjá sumum verða þær mjög róttækar. Þessar tvenns konar framkvæmdir eru náskyldar og óhjákvæmilegt, að unnið sé að þeim samtímis. Mun það eðlilega auka mjög á kostnaðinn.

2. Að undirlagi tillögunefndarinnar hafa sölusamtök hraðfrystihúsanna beitt sér fyrir því, að gerðar væru áætlanir um kostnaðinn af þeim endurbótum, sem gera þarf á hraðfrystihúsunum, til þess að þau uppfylli væntanlegar kröfur viðskiptalanda okkar. Gert er ráð fyrir, að þessari áætlanagerð verði lokið upp úr áramótum. (Ég get bætt því hér við, að henni er ekki lokið enn.) Samband ísl. sveitarfélaga hefur einnig beitt sér fyrir því, að hliðstæðar áætlanir yrðu gerðar fyrir sveitarfélögin, og eru horfur á, að þær verði flestar tilbúnar um næstu áramót. Allar þessar áætlanir þarf síðan að yfirfara og samræma, og verður það allmikið verk, einkum að því er snertir áætlanir sveitarfélaganna. Fer það eftir því, hve ríka áherslu hið opinbera leggur á, að verkinu verði hraðað, hvenær lokið verður við það.

3. Nefndin telur, að þessum endurbótum þurfi að vera lokið að mestu, þegar löggjöfin um heilnæman fisk og fiskafurðir kemur til framkvæmda í Bandaríkjunum. Hvenær þetta verður er í fyrsta lagi undir því komið, hvenær Bandaríkjaþing afgreiðir lögin, og í öðru lagi, hvenær veitt verður fé vegna eftirlitsins, sem lögin væntanlega munu gera ráð fyrir. Um bæði þessi atriði ríkir mikil óvissa, en hér fer á eftir það, sem nefndin veit sannast um málið:

Frv., sem mestar líkur eru taldar til, að nái fram að ganga, er kennt við viðskiptanefnd öldungadeildarinnar og hefur enn sem komið er ekki neitt skrásetningarnúmer. Þetta frv. verður væntanlega afgreitt í öldungadeildinni fyrir áramót og síðan lagt fyrir fulltrúadeildina snemma á næsta ári. (Við það má bæta því, sem hér hafði reyndar komið fram hjá fyrirspyrjanda, að þetta frv. hefur nú þegar verið afgreitt í öldungadeildinni.) Það eru því nokkrar líkur fyrir því, að frv. verði að lögum á árinu 1972 og það verði efnislega lítið breytt frá því, sem nú er. Í frv. er mælt svo fyrir, að fyrstu reglugerðir um hreinlætis- og gæðastaðla fyrir fiskvinnslustöðvar skuli vera tilbúnar innan eins árs frá því, að fé er veitt til þess að framfylgja þessum þætti laganna. Síðan er gert ráð fyrir, að enn eitt ár líði, þar til reglugerðirnar koma til framkvæmda. Í frv. er líka heimild fyrir ráðh. til þess að fresta framkvæmd reglugerðanna um enn þá eitt ár, ef hann telur það nauðsynlegt. Fjárlagaár Bandaríkjanna hefst þann 1. júli ár hvert, eins og kunnugt er. Verði frv. samþ. á fyrra parti næsta árs, er ósennilegt, að fé verði veitt á fjárlögum vegna hinna nýju laga, fyrr en í fyrsta lagi á fjárlagaárinu 1972–1973. Nefndin telur þó líklegra, að þetta verði ekki fyrr en í fyrsta lagi á fjárlagaárinu 1973–1974. Lögin geta því í fyrsta lagi komið til framkvæmda á miðju árí 1974, en líklegra er, að það verði ekki fyrr en á miðju ári 1975. Dragist það enn, að frv. verði samþ., lengist fresturinn, sem við höfum, að sama skapi.“

4. tölul., þar sem um var spurt, hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar til þess að útvega fjármagn til umræddra endurbóta, bæði á vegum frystihúsanna og sveitarfélaganna, svaraði þessi nefnd þannig: „Þessum lið getur nefndin ekki svarað.“

5. Hvað varðar þennan lið vísast til grg. nefndarinnar til sjútvrn. dags. 10. nóv. s.l., en þar er fjallað um það, að rétt væri að styrkja þessa starfsemi nefndarinnar m.a. Afrit af grg. fylgir hér með.“

Þetta eru í aðalatriðum þær upplýsingar, sem þessi nefnd hefur sent frá sér. Til viðbótar get ég svo skýrt frá því, að ég hef nokkrum sinnum átt viðtöl við þá aðila, sem fjalla um þessi mál, og þá m.a. við helztu forustumenn þeirra landssamtaka, sem fara með málefni hraðfrystihúsanna, þ.e. Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sambands ísl. samvinnufélaga, og fengið nokkuð af þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið, þó allar á frumstigi, hjá þeim hvorum um sig um það, hvað gera þurfi að þeirra áliti í þeirra frystihúsum. En lokaniðurstöður þessara aðila liggja enn ekki fyrir varðandi þessi mál. Þá hef ég einnig rætt málið nokkrum sinnum við starfsmenn þessarar nefndar, sem hér er um rætt, og fengið hjá þeim nokkrar viðbótarupplýsingar varðandi þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um kostnað í þessu sambandi, m.a. í sambandi við þær áætlanir, sem gerðar hafa verið á vegum sveitarfélaganna.

Það er alveg ljóst af þessum áætlunum, sem eru flestar á frumstigi enn þá, að þær eru þannig, að í þessum efnum er blandað saman í áætlanagerðinni mjög óskyldum kostnaðarliðum í sjálfu sér, og því hafa nú verið gerðar ráðstafanir til þess af hálfu sjútvrn. í samstarfi við þessa tillögunefnd um hollustuhætti að vinna byrjunarálit upp úr þessum frumdrögum um áætlunargerð, sem liggja fyrir, þar sem reynt verði að upplýsa það nokkru nánar, hvað af þeim kostnaði, sem hér er rætt um, verði að teljast til eðlilegra endurbóta og aukningar í frystihúsunum og sé þar af leiðandi af sama tagi í meginatriðum, eins og hliðstæðar framkvæmdir hér á undanförnum árum og tilheyrir í rauninni eigendum frystihúsanna og miðar að mjög verulegu leyti að endurbótum, almennum endurbótum í frystihúsakerfinu, og í öðru lagi komi fram, hver ætti að teljast eðlilegur kostnaður, sem tilheyrir sveitarfélögunum að því leyti til, sem um er að ræða áætlanir um framkvæmdir, sem beinlínis snerta málefni sveitarfélaga, þ.e. það, sem snertir rykbindingu á götum eða jafnvel gatnagerð og stórfelldar breytingar á vatnsveitukerfi eða frárennsliskerfi, þar sem farið er greinilega út fyrir það svið, sem tilheyrir beinlínis frystihúsarekstrinum. Og svo í þriðja lagi þann kostnaðarliðinn, sem flokkast beinlínis undir það að gera frystihúsin þannig úr garði, að þau standist þær kröfur, sem gerðar eru til slíkra matvælastöðva eins og frystihúsin eru, af kaupendum okkar, t.d. þeim, sem eru okkar aðalkaupendur á Bandaríkjamarkaði.

Nú er sem sagt unnið að því að fá yfirlit um þessi mál eins og mögulegt er, en hér er um mikið verk að ræða, og þar sem þetta hefur allt saman blandazt saman, þá gefur auga leið, að það hefur tekið alllangan tíma að gera í rauninni nýjar stofnkostnaðaráætlanir, eins og um er að ræða í mörgum tilvikum.

Það hefur nokkuð verið hugað að því að útvega fjármagn til þessara umbóta á þessu ári. Hér er komið að sjálfsögðu inn á verksvið Fiskveiðasjóðs, og einnig er augljóst, að útvega þarf talsvert viðbótarfjármagn við það, sem Fiskveiðasjóður getur lagt fram í þessum efnum, og fylgir það þeirri athugun, sem fram fer í sambandi við nýja framkvæmdaáætlun á vegum ríkisins og fjáröflun til annarra aðkallandi verkefna.

Ég held, að á þessu stigi málsins geti ég ekki gefið frekari upplýsingar, en vil þó aðeins taka það fram að lokum, að það er enginn vafi á því, að þær tölur, sem hafa verið nefndar í þessu sambandi, gefa engan veginn rétta hugmynd um þann kostnað, sem hér er um að ræða, nema þá að öll þessi svið, sem ég hef minnzt á, þ.e. stórfelld aukning í frystihúsakerfi landsmanna og endurbætur á húsunum, þar með talin mikil ný vélakaup, séu talin þar með. En sá þátturinn, sem beinlínis snýr að framkvæmdum varðandi hollustuhætti í þrengstu merkingu, er auðvitað miklum mun kostnaðarminni en margar þær tölur benda til, sem hafa verið nefndar í þessum efnum.