01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í D-deild Alþingistíðinda. (4848)

37. mál, jöfnun á flutningskostnaði

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Spurzt er fyrir um það með vísun til þál., sem samþ. var á Alþ. 5. apríl 1971, í fyrsta lagi: „Hvað líður athugun á vöruflutningum landsmanna? 2. Hvenær má vænta tillagna um leiðir til jöfnunar á flutningskostnaði, svo að allir landsmenn sitji við sama borð í þeim efnum, eftir því sem við verður komið?“

Þáltill. sú, sem spurzt er fyrir um, var flutt af þm. Vilhjálmi Hjálmarssyni, Gísla Guðmundssyni, Magnúsi H. Gíslasyni, Bjarna Guðbjörnssyni, Ásgeiri Bjarnasyni, Páli Þorsteinssyni, Stefáni Valgeirssyni, Sigurvin Einarssyni og Eysteini Jónssyni, sbr. þskj. 60 á síðasta þingi. Í till. var lagt til, að Alþ. kysi fimm manna mþn. til þess að athuga vöruflutninga landsmanna og gera till. um bætta skipan þeirra mála. Skyldi að því stefnt að gera flutningakerfið sem hagkvæmast og hraðvirkast án óhæfilegs tilkostnaðar og leita úrræða til jöfnunar á flutningskostnaði, svo að allir landsmenn sætu við sama borð í þeim efnum, eftir því sem við yrði komið. Þannig var þáltill. Allshn. Sþ. fékk svo málið til athugunar, gerði þá brtt., að í staðinn fyrir fimm manna mþn. skyldi ríkisstj. falið að láta fara fram hina umbeðnu athugun. Till. var samþ. þannig á Alþ. 5. apríl 1971 og send samgrn. 21. apríl 1971.

Hér er, eins og öllum má vera ljóst, um mikið grundvallarmál að ræða. Erfiðleikar og mismunandi kostnaður landsmanna um aðdrætti nauðsynja sprettur ekki fyrst og fremst af ástandi samgöngukerfisins, heldur af því innflutnings- og verzlunarfyrirkomulagi, sem við búum við. Nægir í því sambandi að benda á, að samkv. hagskýrslum mun a.m.k. 3/4 hlutum alls innflutnings landsmanna miðað við verðmæti vera landað í Reykjavík, en vörunum síðan dreift þaðan út um landsbyggðina. Eins og réttilega er rakið í grg. með þáltill. á þskj. 60 á síðasta þingi, hefur verið komið á jöfnunarverði, og á það minntist líka hv. fyrirspyrjandi áðan, á einstöku vörutegundum, svo sem olíu, benzíni, tóbaki, áfengi, sementi og tilbúnum áburði. Og einnig er flutningskostnaður innlendra landbúnaðarafurða jafnaður að mestu. í öllum þessum tilfellum er um að ræða einkasöluvörur að meira eða minna leyti. Um almennar vörur gegnir allt öðru máli, þar sem þá er oftast um að ræða fjölmarga framleiðendur, innflytjendur eða seljendur sömu vörutegundar. Verðjöfnun verður þar tæpast komið við á sama hátt nema með óæskilega ströngum ríkisafskiptum, sem jafnvel gætu orðið til þess að draga úr nauðsynlegri samkeppni framleiðenda og seljenda, bæði um verð og vörugæði. Af ríkisins hálfu hefur verið reynt að jafna þennan aðstöðumun, sem er á milli fólks eftir fjarlægð frá aðalinnflutningshöfn landsins, með því að stuðla að ódýrum vöruflutningum á sjó, og hefur Skipaútgerð ríkisins haft það hlutverk um áratugi, og einnig hefur Alþ. í vaxandi mæli styrkt rekstur flóabáta og styrkt nokkuð vöruflutninga með bifreiðum, einkum til þeirra byggðarlaga, sem ekki verður þjónað sjóleiðis. Þannig hefur ríkið haft afskipti af því að reyna að jafna þennan aðstöðumun íbúa landsins með verulegum fjárframlögum. En það, sem þarf að breytast, er vafalaust innflutningsfyrirkomulagið til landsins. Til slíkra mála voru veittar á liðnu ári 19 millj. 255 þús. til flóabáta og 39 millj. kr. til greiðslu á rekstrarhalla strandferðaskipa ríkisins. Þetta er það framlag, sem Alþ. og ríkisstj. hafa ákveðið til jöfnunar á flutningskostnaði, og út yfir það hefur ekki verið mörkuð nein ákveðin stefna af hálfu Alþingis né neinnar ríkisstj. í því máli, sem þáltill. annars fjallar um.

Ég játa fúslega, að þetta mál er sannarlega tímabært viðfangsefni, sem þarfnast mjög rækilegrar athugunar, og hefur ekki enn unnizt tími til þess að framkvæma þá athugun eða gera viðhlítandi ráðstafanir til úrbóta frekar en orðið er. Málið mun því ekki vera skrínlagt, heldur fljótlega verða fengið sérfræðingum til athugunar, e.t.v. Framkvæmdastofnun ríkisins, og síðan mun þá ríkisstj. leggja málið fyrir Alþ„ þegar niðurstöður athugunarinnar liggja fyrir. Mér virðist a.m.k. eðlilegast, eins og nú standa sakir, að þetta mál yrði fengið Framkvæmdastofnun ríkisins til úrlausnar.