08.02.1972
Sameinað þing: 35. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í D-deild Alþingistíðinda. (4880)

88. mál, augnlækningar

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, sem voru greinargóð, og hann drap á það, að bezt yrði að fjölga ferðum. Það er áreiðanlega nauðsyn, þegar við sjáum það, að allir læknarnir eru starfandi hér í Reykjavík utan einn, sem er staðsettur á Akureyri. Þó er von í aðstoðarlækni þar nú. Þegar við sjáum heil héruð eins og Vestfirði og Austfirði, sem byggja augnlæknisþjónustu aðeins á flugferðum, þá er það ljóst, hversu óstöðug þessi þjónusta er, sérstaklega um vissan árstíma.

Það er svo, að læknavandamálið úti um landsbyggðina hefur oft borið á góma hér á hv. Alþ., og ber enn. Við höfum sjaldan tekið fyrir svona víssa þætti þess, en sýnilegt er, að ástandið varðandi augnlæknisþjónustu hefur verið vægast sagt lélegt, og þyrfti sannarlega að fjölga ferðum verulega og einnig að gera þeim sjúklingum kleift, sem þurfa á skjótri læknisaðstoð að halda, að fá hana fyrr en verið hefur. Því miður hefur það verið staðreynd, a.m.k. varðandi Norður- og Austurland, að fólk hefur orðið að bíða svo vikum skipti, sumir telja það jafnvel í mánuðum. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. hlutist til um það af sínum mikla áhuga á þessum málum, að bót verði fundin á þessu sem allra fyrst.