11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í D-deild Alþingistíðinda. (5018)

928. mál, menningarsjóður félagsheimila

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Það hefur komið greinilega fram í svari hæstv. ráðh., að sá dráttur, sem orðið hefur á framkvæmd málsins, á rót sína að rekja til andstöðu við málið af hálfu íþróttanefndar ríkisins og fræðslumálastjóra. Ég áfellist hæstv. ráðh. ekki í þessu sambandi eftir þær upplýsingar, sem hann hefur um málið gefið.

Ég kemst ekki hjá hinu, að láta í ljós mikla undrun á því, að íþróttanefnd og fræðslumálastjóri skuli hafa gert í tvígang tilraun til þess að tefja framgang nauðsynjamáls eins og þess, sem hér er um að ræða. Mér var hins vegar kunnugt um það, áður en ég beitti mér fyrir þeirri lagasetningu, sem hér er um að ræða, að þessir aðilar voru ekki hrifnir af tillögugerð minni varðandi þetta, fyrst í ríkisstj. og síðan hér á hinu háa Alþingi, og við því er ekkert að segja. En Alþ. var búið að segja sitt síðasta orð um málið. Alþ. var búið að ákveða, að 10% af fé Félagsheimilasjóðs skyldu renna til menningarstarfsemi í félagsheimilunum, og því endurtek ég það, að ég tel það furðuleg vinnubrögð af hálfu embættismanna þeirra, sem hér eiga hlut að máli, að þeir skuli gera tilraun til að tefja endanlega afgreiðslu eða framkvæmd rn. á máli, sem Alþ. er búið að taka ákvörðun um.

Hinu verð ég hins vegar að andmæla, að sá dráttur, sem því miður hefur orðið á þessu, sé að einhverju leyti á mína ábyrgð sem fyrrv. menntmrh. Í alvöru getur engum manni dottið í hug, að ég hafi átt að skipa framkvæmdastjóra fyrir þessa starfsemi, áður en ár væri liðið frá því að lögin tóku gildi. Það hefði verið bruðl með ríkisfé, ef það fyrsta, sem ég hefði gert, hefði verið að ráða framkvæmdastjóra fyrir tekjur Félagsheimilasjóðsins, enda aldrei ráð fyrir öðru gert en að fyrst yrði safnað í eitt ár t.d. fé í sjóðinn og síðan yrði ráðinn maður til að gera tillögur um ráðstöfun fjárins. Það var því algjörlega eðlilegt, að ég léti eitt ár líða frá því að lögin tóku gildi, þangað til ég gerði ráðstafanir til þess, að þau gætu komið til framkvæmda, enda gerði ég það. Um það bil ári eftir að lögin tóku gildi var framkvæmdastjóri skipaður og honum falið að gera tillögur um það, hvernig þessum málum skyldi hagað. Um þetta held ég, að geti ekki verið nokkur ágreiningur milli skynsamra og sanngjarnra manna, og ég vísa því á bug öllum ummælum í þá átt, að ég hafi ekki haft þann hraða á málinu, sem nokkur skynsemd og sanngirni var í að búast við, að hafður yrði. Mér var þetta mál mikið áhugamál á sínum tíma og hafði beitt mér fyrir því í langan tíma, að þessi lagaákvæði yrðu tekin upp. Þau voru tekin upp vorið 1970, og ég gerði fyrir mitt leyti, meðan ég var í menntmrn., það sem allir skynsamir og sanngjarnir menn munu telja, að hafi verið réttmætt varðandi framkvæmd málsins, enda hefði það verið undarlegt, ef jafnmikill áhugamaður um framkvæmd þessa máls og ég hefði látið undir höfuð leggjast að hrinda því með skynsömum hætti í framkvæmd.