11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í D-deild Alþingistíðinda. (5057)

186. mál, almannavarnir

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Fsp. þessi á þskj. 186 er í fjórum liðum. Í fyrsta lið er spurt um, á hvaða stöðum hafi verið stofnaðar almannavarnanefndir samkv. 8. gr. laga nr. 94/1962, um almannavarnir. Svarið er: Almannavörnum ríkisins hefur verið tilkynnt um stofnun almannavarnanefnda á eftirtöldum stöðum: Reykjavík árið 1964, Seltjarnarnesi árið 1962, Akranesi 1966, Ísafirði 1969, Blönduósi 1968, Húsavík 1968, Vik í Mýrdal 1970, Njarðvíkurhreppi 1969 og Kópavogi 1968.

Í öðru lagi er spurt: „Eru til á einum stað upplýsingar um starfsemi almannavarnanefnda og yfirlit yfir þær ráðstafanir, sem þær hafa gert samkv. 9. gr. laga nr. 94/1962, um almannavarnir?“ Svar frá Almannavörnum er svo hljóðandi:

„Hjá Almannavörnum ríkisins eru fyrirliggjandi upplýsingar um starfsemi þeirra almannavarnanefnda, sem starfað hafa samkv. lögum um almannavarnir nr. 94/1962, en þær eru: Almannavarnanefnd Reykjavíkur, almannavarnanefnd Ísafjarðar, almannavarnanefnd Húsavíkur, almannavarnanefnd Njarðvíkur, almannavarnanefnd Víkur og almannavarnanefnd Kópavogs.“

Þessar almannavarnanefndir hafa verið nokkuð misjafnlega virkar. Um það segja Almannavarnir ríkisins svo: „Almannavarnanefnd Reykjavíkur hefur verið mjög virk og haldið reglulega fundi mánaðarlega. Helzta verkefni er að safna birgðum, og, eru þær geymdar í Reykjahlíð ásamt birgðum Almannavarna ríkisins. Nefndin hefur keypt útbúnað fyrir björgunarsveitir og endurnýjað slökkvibúnað. Unnið hefur verið að undirbúningi vegna stórslysa í Reykjavík með því að láta gera útbúnað til að nota sendibifreiðar í Reykjavík sem sjúkrabifreiðar, og ökumenn þessara bifreiða hafa verið þjálfaðir í þessu skyni. Könnun hefur verið gerð á húsnæði í Reykjavík með tilliti til notagildis þess sem skýlis fyrir borgarana gegn geislavirku úrfalli og hús þessi skrásett. Könnunin leiddi í ljós, að rúm er fyrir alla íbúa Reykjavíkur í húsum þessum, sem veita hundraðfalda vernd gegn geislun. Komið hefur verið upp viðvörunarkerfi í Reykjavík. Á lokastigi er sérstakt skipulag vegna hugsanlegra flugslysa á Reykjavíkurflugvelli.“

Ég vil aðeins taka það fram, að það er nokkuð langt síðan þessi fsp. kom fram og þessar upplýsingar, sem ég hef hér, eru frá því í febrúar.

„Almannavarnanefnd Ísafjarðar hefur byrjað störf í samvinnu við Almannavarnir ríkisins með alhliða skipulagningu á björgunar- og hjálparstarfsemi af völdum náttúruhamfara og annarri vá. Einnig hefur nefndin fest kaup á 30 sjúkrarúmum til notkunar á hættutímum. Að lokum hefur nefndin fengið útbúnað fyrir björgunarsveitir frá Almannavörnum ríkisins.

Almannavarnanefnd Húsavíkur hefur gert í samvinnu við Almannavarnir ríkisins alhliða skipulag á björgunar- og hjálparstarfsemi af völdum náttúruhamfara og annarri vá, og hefur skýrslu um það efni verið dreift.

Almannavarnanefnd Víkur hefur í samvinnu við Almannavarnir ríkisins komið upp viðvörunarkerfi vegna hugsanlegra eldsumbrota í Kötlu ásamt tilheyrandi jökulhlaupi, sem byggt er upp á eftirfarandi hátt:

a. Jarðskjálftamælir, er sendir þráðlaust upplýsingar til lóranstöðvarinnar á Reynisfjalli.

b. Vatnshæðarmælir í Rjúpnagili, er einnig sendir þráðlaust upplýsingar til lóranstöðvarinnar um aukið rennsli frá jöklinum.

c. Viðvörunarflautur í Víkurkauptúni til að aðvara gegn Kötluhlaupi.

d. Talstöðvar hafa verið settar upp á bæjunum Strönd í Meðallandi, Hrífunesi í Skaftártungum, Herjólfsstöðum í Álftaveri og á lóranstöðinni á Reynisfjalli ásamt sjálfvirku símaaðvörunarkerfi á sömu stöðum, er fer í gang, ef sími rofnar. Fjarskiptakerfi þetta er hugsað sem viðvörunar- og sambandskerfi fyrir sveitirnar austan sands.

e. Sett hafa verið hlið á veginn út á Mýrdalssand beggja vegna til að loka fyrir umferð út á sandinn.

f. Gert hefur verið starfsskipulag fyrir nefndina til að vinna eftir í tilfellum Kötlugoss.

Þess ber að geta, að Almannavarnir ríkisins hafa komið upp ofangreindu kerfi, en almannavarnanefndin hefur umsjón með því.

Almannavarnanefnd Njarðvíkur hefur haft samvinnu við hjálparsveit skáta í Njarðvíkum, sem er eina starfandi hjálparsveitin í umdæminu. Einnig hefur almannavarnanefnd Njarðvíkur fengið björgunarútbúnað fyrir milligöngu Almannavarna ríkisins.

Almannavarnanefnd Kópavogs var virk fram á vor 1970 og vann þá aðallega að undirbúningi að samstarfi hjálparsveita í bæjarfélaginu. Einnig var unnið að skipulagi björgunarmála í bænum.“

Þetta eru þær upplýsingar, sem ég hef fengið frá almannavörnunum varðandi þennan 2. lið fsp.

Í þriðja lagi er spurt: „Eru uppi af hendi dómsmrn. einhver áform um að efla almannavarnir?“ Svarið er: Það eru ekki og hafa ekki verið, svo að mér sé kunnugt um, ráðagerðir um neinar sérstakar aðgerðir til þess að efla almannavarnir.

Í fjórða lagi er spurt: „Er sú skipan heppileg til frambúðar, að starfi forstöðumanns almannavarna sé gegnt af embættismanni í fullu starfi við önnur verkefni?“ Þessi skipan, sem nú gildir í þessu efni, hefur vafalaust verið ákveðin í öndverðu af hagkvæmnisástæðum og sparnaðarsjónarmiðum. Geri ég ráð fyrir, að hún hafi átt þá nokkurn rétt á sér. En það er mín skoðun, að sú skipan sé ekki heppileg til frambúðar.