02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í D-deild Alþingistíðinda. (5084)

933. mál, Félagsmálasáttmáli Evrópu

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af fsp. hv. 5. þm. Vestf. um undirskrift og staðfestingu Félagsmálasáttmála Evrópu. Það er allt rétt, sem hann rakti hér um gang þessa máls. Þessi sáttmáli hefur orðið hornreka af einhverjum ástæðum hjá okkur. Ég held, að það sé þó ekki vegna þess, að í honum séu óaðgengileg ákvæði fyrir okkur, heldur miklu fremur hitt, að það hafi ekki komizt í verk að undirrita hann og fullgilda.

Samningur þessi var, eins og hv. þm. tók fram, undirritaður í Turin á Ítalíu hinn 18. okt. 1961 og tók gildi 26. febr. 1965, þegar fimm ríki höfðu fullgilt hann. 1. jan. s.l. höfðu, eins og hv. þm. greindi, níu ríki fullgilt samninginn og önnur fimm undirritað, þannig að af þátttökuríkjum Evrópuráðsins eru nú aðeins auk Íslands Malta og Sviss, sem hvorugt hafa gert.

Undirbúningur að samningsgerð þessari hófst árið 1954. Fór hann aðallega fram á vegum félagsmálanefndar Evrópuráðsins, og var aðalmál á öllum fundum nefndarinnar nema einum fram til þess, að sáttmálinn lá fyrir í endanlegri gerð 1961. Gögn, sem hingað bárust viðvíkjandi samningsgerðinni, voru jafnóðum send félmrn. til athugunar og umsagnar. En vegna takmarkaðra starfskrafta gat það rn. ekki sent fulltrúa á fund félagsmálanefndarinnar. Félmrn. mun hafa haft þetta mál til athugunar, og utanrrn. hefur oft spurzt fyrir um gang málsins hjá félmrn., án þess að svar hafi fengizt. Fsp. hefur þó ekki verið gerð nýlega og ekki í tíð núv. ríkisstj.

Í tilefni af framkominni fsp. hv. þm. hef ég nú beðið hæstv. félmrh. að láta í té umsögn um sáttmálann, og á næstunni munum við því taka hann til athugunar með undirritun og staðfestingu fyrir augum í samráði við utanrmn.