20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

1. mál, fjárlög 1972

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég hef ekki talað mjög oft hér í þinginu, en það hittist venjulega svo á, að ég byrja kl. hálf níu, og ef ég þarf að tala við fjmrh., þá er hann ekki mættur, en ég ætla nú ekki að tefja fundinn neitt. (Forseti: Óskar hv. þm. eftir því að ...) Nei, það er allt í lagi. Ég kem þessum orðum til hans, sem ég þarf að segja.

Það hefur komið fram hér í umr. um fjárlagafrv., að óverjandi hafi verið að leggja það fram, þegar gert er ráð fyrir, að tekna verði aflað með sköttum, sem ekki hefur enn verið sett löggjöf um. Nú er komið að afgreiðslu fjárlagafrv., skattalög af augljósum ástæðum enn óafgreidd og það, sem verra er, sýnt hefur verið fram á, að svo mjög hefur verið flaustrað af gerð tekjuöflunarfrv., sem 1. umr. er nú lokið um, að mér þykir í meira lagi vafasamt, að jafnvel stjórnarsinnar treysti sér til að samþykkja þau óbreytt. Það verður því að gera ráð fyrir, að tekjuöflunarleiðum verði að breyta frá því, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Annars ætla ég mér ekki að lengja hér umr. Ég stend upp að gefnu tilefni og þarf að fara nokkrum orðum um ræðu hæstv. fjmrh.

Hann nefndi hér heildartölur um það, hver álögð gjöld yrðu samkv. nýju kerfi og því gamla. Þessar tölur hef ég nú ekki vefengt, en þær hafa heldur ekki verið neitt sérstaklega sannaðar fyrir mér né öðrum. Hæstv. ráðh. nefndi sérstaklega, að tölur þessar væru byggðar á eldri lögum, en ekki á skattalögunum frá í vor. Það þýðir, að skattar félaga verða hærri en orðið hefði samkv. lagabreytingunni frá s.l. vori. Þetta er alveg óumdeilanlegt. Áætlaðir skattar félaga hafa verið hækkaðir og það stórlega, jafnvel miðað við eldri lög. Það, sem við höfum hins vegar deilt um, er breyting á skattbyrði einstaklinga, og ég skal koma að því nokkru nánar síðar.

Hæstv. ráðh. kom hér nokkuð inn á viðskipti sveitarfélaganna og ríkisins. Hann upplýsti, sem raunar var vitað, að 1 296 millj. eru taldar vera sú upphæð, sem sveitarfélögin losna við að greiða og ríkissjóður mun taka að sér. Þessi tala er sjálfsagt rétt, við skulum a.m.k. segja það. Ég hef hins vegar látið í ljós efa um, að sveitarfélögin fái þær tekjur, sem þau þurfa með hinu nýja frv. um tekjustofna sveitarfélaga, og sá efi er tilkominn vegna útreikninga nokkurra sveitarfélaga, útreikninga, sem sýna það ótvírætt, að þau ná ekki nauðsynlegum tekjum. Okkur er hins vegar sagt, að útkoma dæmisins frá tekjustofnanefndinni sé allt önnur. En það er eins og fyrri daginn, við fáum ekki að sjá útreikninga. Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að við sjálfstæðismenn, eða hann hefur kannske átt við okkur, sem höfum verið talsmenn sveitarfélaganna, við vildum, að tekjur sveitarfélaganna hækkuðu og þar með vildum við hækkaða skatta. Þetta er ekki rétt. Við viljum hins vegar, að skiptingin á milli ríkisins og sveitarfélaganna, skipting teknanna, sem hjá borgurunum fást, verði réttlát. Mitt sveitarfélag, Garðahreppur, var hér sérstaklega nefnt sem dæmi um sveitarfélag, sem vel á að fara út úr þessari breytingu. Þessu ber ekki saman við þá útreikninga, sem ég hef látið gera, og ég hef skýrt frá því í blaðavíðtali, að sveitarsjóð vanti 13 millj., það eru reyndar 13.8 millj., til þess að náist sú upphæð, sem lögð var á nú 1971. Þetta er í sjálfu sér ósköp einfaldur reikningur og það ætti ekki að þurfa að deila um þetta. En ég er mjög forvitinn að sjá útreikninga nefndarinnar. Það er felldur niður löggæzlukostnaður, lífeyristryggingar, hálft sjúkrasamlagsgjaldið og hálft aðstöðugjaldið. Eignaútsvörin eru felld niður. Fasteignaskattur hækkar í þessu sveitarfélagi úr 900 þús. kr. í liðlega 5.3 millj. En ef við miðum við tekjur borgaranna árið 1971, þ.e. tekjur 1970, + 23%, sem okkur leyfist væntanlega að nota sem viðmiðun, þá fáum við ekki nema 20 millj. rúmar í útsvörum. Og þegar þetta er lagt saman, vantar 13.8 millj. Þetta er okkar útkoma. Ég geri mér ljóst, að upphæðin, sem reiknað er með í fasteignasköttum, er sjálfsagt ekki raunhæf. Það hefur verið nefnt við mig, að það vanti margar fasteignir inn í fasteignamat í þessu sveitarfélagi og auk þess megum við búast við því, að fasteignamatið, frá því að það var lagt fram um áramót 1969–1970, verði verulega hækkað og þess vegna munum við fá meiri tekjur af fasteignaskatti. Varðandi fasteignaskattinn er það alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., að ég hef verið hlynntur hækkun hans og sú skoðun mín hefur ekkert breytzt. Ég tel, að 1/2% fasteignaskattur á fasteignamat sé mjög hóflegt á íbúðir. En ég er hins vegar mjög forvitinn að heyra skoðanir sumra stuðningsmanna stjórnarinnar á hækkun fasteignaskatta. Ég minnist sérstaklega orðaskipta, sem ég hef átt við a.m.k. tvo framsóknarmenn, þá hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, — við deildum um þessi mál á framboðsfundum á s.l. vori, — og hv. I. þm. Vestf., Steingrím Hermannsson. Báðir hafa þessir menn átalið mig mjög fyrir mínar skoðanir í sambandi við fasteignaskatta. En það kann að vera, að þeir hafi enga skoðun á þessu máli núna.

Þá kem ég að sköttum einstaklinga. Hæstv. ráðh. sagði hér í dag, að við sjálfstæðismenn værum að reyna að búa til dæmi. Við höfum ekki búið til nein dæmi. Við höfum einmitt notað dæmi hæstv. ráðh„ en við fáum aðra útkomu, vegna þess að við göngum út frá öðrum forsendum, og að því er ég fullyrði, raunhæfari forsendum. Annars vil ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þetta plagg, sem dreift var á borð okkar þm. í dag. Mér finnst að vísu, að það segi ekki mikið. Það vantar enn þá ýmsar forsendur. Það er sagt hér í þessu plaggi, að hlutfallið í sambandi við brúttótekjur sé 15% fyrir einstaklinga og 25% fyrir hjón, til þess að finna nettótekjurnar. Það er upplýst um persónufrádráttinn, þetta vitum við allt saman. Hins vegar fáum við nokkrar frekari skýringar í frétt, sem birtist í dagblöðunum, fréttatilkynningu frá fjmrn„ og þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í núgildandi kerfi er miðað við álagningu samkv. gildandi lögum, 6.5% hækkun skattþrepa og persónufrádrátta í samræmi við áætlun fjárlagafrv. um hækkun skattvísitölu. Enn fremur er miðað við persónuskatta eins og ætla má, að þeir hefðu orðið á árinu 1972 við núgildandi kerfi. Útsvarsfrádráttur er fundinn með reikningi aftur í tímann. Ekki er gert ráð fyrir útsvarsafslætti.“

Þetta er um gamla kerfið. Í nýju skattkerfi er gert ráð fyrir tekjusköttum til ríkis og sveitarfélaga samkv. frv. þeim. sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. Hæstv. ráðh. kvartaði undan því hér í dag, að ráðuneytisstjórann í fjmrn., sem mér skilst, að vinni að útreikningi á þessum dæmum, hafi skort upplýsingar um þær forsendur, sem ég gekk út frá í mínum útreikningum. Þær forsendur hafa þó komið fram skýrar heldur en forsendur hæstv. ráðh. En ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég sagði hér í umr. á fimmtudagskvöldið, en ég skal þó aðeins víkja að þessu nánar.

Ég hef ekki véfengt niðurstöður þeirra útreikninga, sem tölva Reiknistofnunar háskólans hefur gert. En ég legg áherzlu á það, að tölvan skilar aðeins þeim útreikningum eftir upplýsingum, sem henni eru látnar í té. Og það eru þessar upplýsingar, sem ég hef ástæðu til að ætla, að séu rangar. Það er grundvallarmunur á reikningsaðferðum og það, sem kannske er merkilegra, það eru margar skekkjur í útskrift tölvunnar. Og þessar skekkjur hljóta að stafa af röngum upplýsingum, sem henni eru gefnar. Ég skal víkja aðeins að því á eftir.

Útreikningar ráðh. sýna ekki breytingu á skattbyrði einstaklinga milli aranna 1971 og 1972. Þeim er ætlað að sýna mismun á sköttum samkv. nýja kerfinu annars vegar og gamla kerfinu hins vegar, ef núv. ríkisstj. hefði notað það kerfi við skattlagningu 1972. En þá hefur ríkisstj. þegar gert ráð fyrir 40–50% hækkun skatta á einstaklinga, ef hún hefði notað gamla kerfið. Þessi grundvöllur er síðan notaður til samanburðar við nýja kerfið, og það er því ekkert að undra, þótt hann sýni ekki verulegar skattahækkanir. Í mínum útreikningum er reiknuð út breyting á skattbyrði milli áranna 1971 og 1972 eftir þeim reglum, sem giltu í Reykjavík við álagningu 1971 annars vegar og hið fyrirhugaða kerfi hins vegar. Þegar meta á breytingu á skattbyrði við fyrirhugaða skattalagabreytingu, þá verður að taka alla skatta inn í dæmið, sem fyrirhugað er að breyta. Það er ekki nægilegt að reikna með þeim sköttum, sem lækka. Það verður líka að reikna með sköttunum, sem hækka. Fyrirhuguð stórhækkun fasteignaskatta er alls ekki tekin með í dæmi hæstv. ráðh. Hann lætur alveg hjá líða að reikna með þeim hækkunum í sínum samanburði. Ég veit ekki, hvort þetta er gert vísvitandi eða um sé að ræða mistök. Aftur á móti er tekinn inn í samanburðinn í gamla kerfið stórhækkun persónuskatta. Þeir eru hækkaðir upp í 22 þús. kr., en fasteignasköttum sleppt. Það hlýtur hver maður að sjá, að þetta er óraunhæfur samanburður.

Það birtust í Tímanum fyrir skömmu nokkur dæmi um útreikning á sköttum miðað við ákveðnar nettótekjur og fjölskyldustærðir, og þessi dæmi eru höfð eftir hæstv. ráðh. Einnig hefur verið dreift þessum tölvuútreikningum bæði hér til hv. þm. og til fjölmiðla, og þeir útreikningar eru gerðir af Reiknistofnun háskólans. Þarna er að finna mikinn fjölda dæma um skatta mismunandi fjölskyldustærða, en af þeim dæmum, sem áður voru nefnd og hirtust í Tímanum, er aðeins hægt að finna tvö sambærileg dæmi í tölvu Reiknistofnunarinnar að því er varðar tekjur og fjölskyldustærð. Í hvorugu dæmanna ber Tímanum saman við tölvutöflurnar. Þetta ber ekki vott um nákvæm vinnubrögð, svo að ekki sé meira sagt. Hér er að vísu ekki um neinn stórmun að ræða, en hann er þó nokkur þús. kr. Af þessu, sem ég hef hérna rakið, sýnist mér ljóst, að það sé full ástæða fyrir ríkisstj. að láta yfirfara þessa útreikninga, áður en hún birtir fleiri útreikninga, sem stangast á hver við annan og eru auk þess rangir í veigamiklum atriðum. Annars held ég, að það þýði ekkert að vera að deila um þetta hér. Ég hafði vænzt þess, að hæstv. ráðh. yrði við þeim tilmælum mínum, sem ég beindi til hans s.l. laugardag um að láta þann aðila, sem annast skattlagningu í landinu, yfirfara dæmi okkar og hann láti í ljós álit sitt. Ég átti hér við ríkisskattstjóra og nefndi ríkisskattanefnd, og ég harma það, að þetta skuli ekki hafa verið gert. Ég trúi ekki öðru en það hafi verið hægt. Ég vil leyfa mér hér að ítreka þessa ósk mína og þar með, að athuganir ríkisskattstjóra, ef gerðar verða, verði birtar opinberlega. Það er ekkert eðlilegra en leitað sé álits ríkisskattanefndar á því, hver sé hinn eðlilegi samanburðargrundvöllur. Þetta er sá aðili, sem tvímælalaust situr uppi með mestu þekkinguna á skattamálum og mesta reynsluna hefur. Og satt að segja skil ég ekki, hvers vegna þetta hefur ekki þegar verið gert og það áður en skattafrv. var lagt fram og slíkir útreikningar hefðu verið látnir fylgja því.